Mér hefur ekki gefist tækifæri til að fara yfir efni stjórnarsáttmálans og býst varla við neinni skemmtilesningu. En svo gripinn sé einn frasinn sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlum, þá segir eitthvað á þá leið „að áfram eigi að lækka kostnað með endurskipulagningu ríkisstofnanna”. Þetta er auðvitað ekkert annað gróf tilraun til sögufölsunar. Það sem hefur einkennt valdatíð þessarar ríkisstjórnar er þvert á móti stóraukin útgjöld og útþensla ríkisstofnanna. Mér hefur ekki gefist tækifæri til að fara yfir efni stjórnarsáttmálans og býst varla við neinni skemmtilesningu. En svo gripinn sé einn frasinn sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlum, þá segir eitthvað á þá leið „að áfram eigi að lækka kostnað með endurskipulagningu ríkisstofnanna”. Þetta er auðvitað ekkert annað gróf tilraun til sögufölsunar. Það sem hefur einkennt valdatíð þessarar ríkisstjórnar er þvert á móti stóraukin útgjöld og útþensla ríkisstofnanna. En batnandi mönnum er best að lifa. Best hefði þó auðvitað verið ef náðst hefði að skera þetta mein (lesist: ríkisstjórnina) burt í kosningunum. Það er þó huggun harmi gegn að forsætisráðherrann er á leið út.
Farið hefur fé…
Ég tel næsta öruggt að Davíð Oddsson hyggist hætta fyrir fullt og allt þegar Halldór Ásgrímsson tekur við, þrátt fyrir að hafa látið í það skína að hann myndi jafnvel taka annan ráðherrastól. Einhverjir telja að auðsveipt fas forsætisráðherra í aðdraganda og eftirleik kosninganna sé til þess gert að gera honum auðveldara að vera kosin forseti og flytja yfir voginn á Bessastaði. Því miður fyrir skattgreiðendur þá verður það ekki fyrr en eftir einhverja mánuði sem þetta gæti gerst og það er sömuleiðis hæpið að nein framfaraskref verði stigin á meðan Dabbi kóngur ríður inn í sólsetrið. Mín persónulega tilfinning er sú að þessi útreið verði eins og langt andvarp. Þetta andvarp gæti þó hæglega breyst í sársaukastunu ef Davíð ákveður að nota uppsagnarfrestinn til að reisa sér dýra minnisvarða – nokkuð sem hefur verið eitt hans helsta vörumerki (Perlan og Ráðhús Reykjavíkur eru góð dæmi).
Syngjandi baunateljarinn sem vill evruna
Eftir að Davíð kúplar sig út er afar líklegt að Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taki við sem næsta forystupar flokksins. Geir er hreinlega sá eini sem kemur til greina sem næsti formaður flokks síns og Þorgerði Katrínu er ætlað að bæta upp hvar Geir skortir á kjörþokkann. Hún er jafnframt fulltrúi fyrir nauðsynleg kynslóðaskipti í flokknum.
Kjör þeirra munu til allrar hamingju marka kúvendingu í stefnu flokksins í Evrópumálum, að ég tel. Ómálefnalegur áróður Davíðs og hans manna gegn evrunni og gegn aðild að ESB hefur farið misjafnlega illa í stóran hóp frjálslyndra sjálfstæðismanna, sem þó hafa setið á sér og beðið færis. Jafnvel hið mikla stílbrot sem endurspeglast í stuðningi ungra sjálfstæðismanna við einangrunarstefnu Davíðs verður sléttuð út. Það stílbrot var að sjálfsögðu afleiðing forheimskrar leiðtogadýrkunar meðal stuttbuxnadrengjanna. Þá má líka bæta því við að á þeim bæ má einnig vænta endurnýjunar og ungir menn kenndir við Deigluna.com eru líklegir til afreka.
3+3+1 = Síðbúið fall kjördæmapotsins?
Það er vegna gamaldags hefða og almennrar afturhaldssemi í öllum breytingum á virðingarstiga Sjálfstæðisflokksins, að eina leiðin til að kynna Þorgerði Katrínu inn í ríkisstjórnina var að taka konuna sem er tveim sætum ofar í þessu nú þriggja ráðherra kjördæmi, Sigríði Önnu Þórðardóttur og gefa léttvæga dúsu í formi tveggja og hálfs árs í umhverfisráðuneytinu. Ef menn trúa því ekki að Sigríður eigi Þorgerði einni stólinn að þakka þá nægir að nefna þá staðreynd að sjálf hefur hún verið á þingi frá 1991 og lungan af þeim tíma gengt formennsku í menntamálanefnd Alþingis. Samt er það einmitt sá málaflokkur sem fellur lögfræðingnum Þorgerði í té.
13 utankjörfundaratkvæða ráðherra
Þá er það dæmi um hversu einráð valdaklíka Halldórs Ásgrímssonar er orðin í Framsóknarflokknum, að ekki er tekið minnsta tillit til Jónínu Bjartmars þegar Árni Magnússon var gerður að félagsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn. Árni var, eins og menn muna, síðastur til að skríða inn á þing og þá með aðeins 13 atkvæða mun. Þessi formaður bæjarráðs í Hveragerði og framkvæmdastjóri flokksins verður að teljast hafa komið ár sinni ansi vel fyrir borð innan flokksins til að setjast beint í ráðherrastól. Ætli þarna sé kominn fyrirhugaður arftaki Halldórs sem formaður flokksins. Það held ég. Guðni Ágústsson á sér varla viðreisnar von nema ríkisstjórnarmeirihlutinn falli í næstu kosningum og flokkurinn fari í stjórnarandstöðu. Það er eina von Guðna um að verða nokkurn tíma formaður.
Hvað næst?
Spennan, ef einhver var fyrir þessa stjórnarmyndun, er hjá liðin! Við tekur spenna um hvað gerist í borgarstjórnarflokkunum. Hverja sendir Framsókn í borgina? Á Jónína Bjartmars sér endurkomu þar? Verður Gísli Marteinn dubbaður upp sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins? Er Þórólfur Árnason framtíðarstjarna Samfylkingarinnar? Fylgist með á Pólitík.is.