Þrjár vikur eru síðan landsmenn gengu til kosninga og í framhaldi á því var mynduð ,,ný” ríkisstjórn sem hefur tekið við völdum. Úrslitin eru söguleg. Annarsvegar er það sú staðreynd að í 72 ár hefur enginn flokkur annar en Sjálfstæðisflokkurinn hlotið yfir 30 % fylgi og hinsvegar þá er í fyrsta sinn í langan tíma er hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks. Sögulegur sigur Samfylkingarinnar er því staðreynd – aðeins 2,5 % skilja hana og Sjálfstæðisflokkinn að. Samfylkingin bætti við sig þremur þingmönnum en íhaldið tapaði fjórum og í heildina 7 %. Það sem fer einna mest í taugarnar á mér í sambandi við þessar nýafstöðnu kosningar er skeytingarleysi leiðtoga Framsóknarflokksins og túlkun þeirra á úrslitunum. Ég tel að almenningur hafi ekki verið að kjósa þessa ríkisstjórn þegar hann gekk að kjörborðinu þann 10. maí s.l. Þrjár vikur eru síðan landsmenn gengu til kosninga og í framhaldi á því var mynduð ,,ný” ríkisstjórn sem hefur tekið við völdum. Úrslitin eru söguleg. Annarsvegar er það sú staðreynd að í 72 ár hefur enginn flokkur annar en Sjálfstæðisflokkurinn hlotið yfir 30 % fylgi og hinsvegar þá er í fyrsta sinn í langan tíma er hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks. Sögulegur sigur Samfylkingarinnar er því staðreynd – aðeins 2,5 % skilja hana og Sjálfstæðisflokkinn að. Samfylkingin bætti við sig þremur þingmönnum en íhaldið tapaði fjórum og í heildina 7 %.
Það sem fer einna mest í taugarnar á mér í sambandi við þessar nýafstöðnu kosningar er skeytingarleysi leiðtoga Framsóknarflokksins og túlkun þeirra á úrslitunum. Ég tel að almenningur hafi ekki verið að kjósa þessa ríkisstjórn þegar hann gekk að kjörborðinu þann 10. maí s.l.
Sannir sjálfstæðismenn
Einhversstaðar las ég um daginn að engu líkari væri að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra væri sannkallaður Heiðurssjálfstæðismaður. Það er nokkuð til í því, en ef Halldór er Heiðurssjálfstæðismaður þá er Guðni Ágústsson heil stofnun innan Sjálfstæðisflokksins. Slefið hefur ekki slitnað á milli hans og Sjálfstæðisflokksins síðustu misseri og t.a.m. á flokksþingi Framsóknarflokksins á dögunum þurfti Valgerður Sverrisdóttir að minna Guðna á það að hann væri ekki í Sjálfstæðisflokknum og að þau væru stödd á flokksþingi Framsóknarflokksins. Guðni opnaði ósjaldan á sér munninn í þessari kosningabaráttu og gagnrýndi Samfylkinguna og forystusveit hennar.
Hér á landi falla ríkisstjórnir sjaldan, engu að síður er ekkert óeðlilegt við það að breytingar séu gerðar og einhver stjórnarflokkanna leiti eftir samstarfi við stjórnarandstöðuflokk. Að þessu sinni lá hugur og hjarta forystu Framsóknarflokksins beinustu leið uppí hjónarúmið í Valhöll. Möguleikanum á ríkisstjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks var aldrei gefinn tækifæri.
Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur
Gagnrýni Halldór Ásgrímssonar á skattatillögur Sjálfstæðisflokksins tæpri einni og hálfri viku fyrir kosningar voru auðvitað ekkert annað en herbragð að hálfu framsóknarmanna í þeirri viðleitni að greina sig frá Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur í gegnum tíðina verið gagnrýndur fyrir það að vera hækja Sjálfstæðisflokksins. Í frétt á mbl.is þann 29. apríl kom m.a. fram: ,,Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi skattalækkunartillögur sjálfstæðismanna á stjórnmálafundi í Garðabæ í gærkvöldi. Sagðist hann ekki gera sér grein fyrir hvernig þetta dæmi sjálfstæðismanna ætti að ganga upp.” Ennfremur var haft orðrétt eftir Halldóri: ,,Ég treysti mér ekki til að leggja til skattalækkanir upp á 30 milljarða og sé ekki hvernig það er hægt án þess að reka ríkissjóð með verulegum halla eða þá að beita niðurskurði í velferðarkerfinu.”
Ný ríkisstjórn hefur tekið til starfa og langþráður draumur Halldórs Ásgrímssonar að verða forsætisráðherra er ekki langt undan. En hvaða gjald ætli Halldór og hans fólk þurfi að greiða til að foringinn hljóti stólinn eftirsótta? Jú, að gefa eftir umhverfisráðuneytið og samþykkja skattalækkunartillögur Sjálfstæðismanna – að vísu ekki uppá 30 milljarða heldur 27 milljarða! Var þá gagnrýni Halldórs ekkert annað en stafir og orð sem höfðu enga merkingu? Hvað heldur þú?
Sagan sýnir
Frá því að viðreisnarsamstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks lauk árið 1971 hafa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur nær undantekningalaust hlotið samanlagt um og yfir 60 % atkvæða. Kosningarnar 1978 og 1987 voru flokkunum erfiðar, en árið 1978 unnu vinstriflokkarnir góðan kosningasigur og fylgi helmingskiptaflokkanna fór niður í tæp 50 %. Árið 1987 fengu flokkarnir tveir rúm 46 % atkvæða og munaði mikið um klofningsframboð í hópi Valhallardrengja þegar Albert Guðmundsson og flokkur hans, Borgaraflokkurinn, hlaut 11 % fylgi. Í nýafstöðnum kosningum fengu flokkarnir tveir 51,4 % og því stenst ekki tal hægrimanna um að stjórnarandstöðuflokkunum og þá sérstaklega Samfylkingunni hafi mistekist. Samfylkingin rauf 30 % múrinn og það er hægt að mynda tveggja flokkka stjórn án þátttöku sjálfstæðismanna, en það gekk ekki allt upp að þessu sinni og ríkisstjórnin hélt velli. Það munaði ekki miklu og ef Samfylkingin hefði fengið 2 % meira fylgi hefði staðan í dag verið allt önnur. Betur má ef duga skal kæru félagar, það eru kosningar eftir fjögur ár og þá ætlar Samfylkingin sér enn stærri hluti.