Það þarf að þyngja dóma í ofbeldismálum

Refsiramminn í ofbeldismálum sem leiða til dauða eða eru mjög gróf er mjög rúmur eða allt að 16 ára fangelsi. Hámarksrefsing fyrir nauðgun er einnig 16 ára fangelsi en fyrir 1992 gat nauðgun varðað ævilöngu fangelsi. Refsiramminn fyrir kynferðismök við barn er allt að 12 ára fangelsi og fyrir sifjaspell er allt að 10 ára fangelsi. Af þessum refsiheimildum sjást skýr skilaboð löggjafans til dómstólanna. Fréttir af dómsniðurstöðum verða oftar en ekki tilefni umræðu og undrunar almennings. Oft er ríkt tilefni til slíks þar sem dómarastétt landsins virðist með reglulegu millibili gróflega misbjóða réttlætiskennd þjóðarinnar.

Á síðustu vikum féllu mjög umdeildir dómar sem gefa innsýn í dómskerfi Íslendinga. Með viku millibili dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að skemma umferðarmyndavél og annan karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa samræði við 15 ára stúlku með ólögmætri nauðung.

Vissulega er erfitt er að bera saman tvo dóma með mismunandi málsaðstæðum en þrátt fyrir það er algjörlega óskiljanlegt hvernig hægt er að komast að lokum að svo til sömu dómsniðurstöðu við að eyðileggja umferðarmyndavél ríkisins annars vegar og að neyða 15 ára barn til samræðis með ofbeldisfullum hætti hins vegar.

Dómur í svokölluðu Hafnarstrætismáli hefur ennfremur vakið mikla reiði en þar voru tveir karlmenn dæmdir í 2 og 3 ára fangelsi fyrir að verða ungum manni að bana með tilefnislausri og fólskulegri árás. Til eru dæmi um að einstaklingar hafi fengið sambærilega dóma fyrir að draga að sér fé með ólögmætum hætti.

Fjölmargir dómar í málum gegn nauðgurum hafa sömuleiðis hneykslað Íslendinga undanfarin ár fyrir óskiljanlega væga meðhöndlun dómara á slíkum glæpamönnum. Dómar í kynferðisbrotamálum gegn börnum hafa svo iðulega skilið fólk eftir orðlaust og ekki aðeins aðstandendur.

Refisramminn er alls ekki nýttur

Refsiramminn í ofbeldismálum sem leiða til dauða eða eru mjög gróf er mjög rúmur eða allt að 16 ára fangelsi. Hámarksrefsing fyrir nauðgun er einnig 16 ára fangelsi en fyrir 1992 gat nauðgun varðað ævilöngu fangelsi. Refsiramminn fyrir kynferðismök við barn er allt að 12 ára fangelsi og fyrir sifjaspell er allt að 10 ára fangelsi. Af þessum refsiheimildum sjást skýr skilaboð löggjafans til dómstólanna.

Alþingi sem löggjafi setur lögin og ákveður refsiheimildir. Það er síðan dómstólanna að dæma eftir þeim lögum samkvæmt stjórnaskrá en í ofbeldis- og kynferðismálum virðist dómarastéttin staðráðin í því að líta framhjá hluta refsiheimildanna sem lögin kveða á um.

Í kjölfar mikillar umræðu um fíkniefnadóma hefur 10 ára hámarkið í slíkum málum verið fullnýtt og fyrir skemmstu var það hækkað upp í 12 ár sem einnig hefur verið nýtt. Af hverju er refsiramminn nýttur í slíkum málum en ekki í ofbeldis- og kynferðismálum sem varða talsvert meiri hagsmuni og valda iðulega miklu meira tjóni á lífi og sál þeirra sem fyrir brotunum verða?

Ein helsta röksemd þess að erfitt sé að þyngja dóma er að samræmi verði að vera á milli dóma fyrir svipaða glæpi. Með þeim rökum mun réttlætiskennd þjóðarinnar í ofbeldis- og kynferðisbrotum hins vegar aldrei vera fullnægt. Kannanir Ragnheiðar Bragadóttur, lagaprófessors, á dómum Hæstaréttar árin 1977-2002 leiddi í ljós að dómar í nauðgunarmálum hafa almennt ekki verið að þyngjast þrátt fyrir skýran vilja almennings og rúmar refsiheimildir löggjafans í þá átt.

Dómarar hunsa löggjafann og réttlætisvitund þjóðarinnar

Það er kominn tími til að dómarar landsins brjóti upp þetta óeðlilega ástand og þyngi dóma í ofbeldis- og kynferðisbrotum með markvissum hætti í samræmi við lögin. Það gengur ekki til lengdar að dómarastétt landsins hunsi með öllu bæði réttlætisvitund þjóðarinnar og skilaboð löggjafans með þeirri réttlætingu að svona hafi þetta ætíð verið.

Það er skýr lína milli löggjafar- og dómsvalds. Hins vegar höfum við séð að pólitísk umræða getur haft áhrif á dómaþróun og eru æ þyngri dómar í fíkniefnamálum dæmi um það. Að sjálfsögðu er ekki verið að mælast til þess að dómarar hlusti eingöngu á dómstól götunnar en dómarar eiga ekki að getað litið alveg framhjá breyttu viðhorfi þjóðarinnar.

Siðferðismat þjóðarinnar hefur breyst til muna á undanförnum áratugum og t.d. væri dæmt allt öðruvísi fyrir blygðunarbrot nú heldur en fyrir sama blygðunarbrot fyrir 30 árum. Eitt sinn var talið að eiginmaður gæti ekki nauðgað eiginkonu sinni og nauðgunarákvæði hegningarlaga var kynbundið þannig að það tók aðeins til kvenna. Með breyttum viðhorfum hefur þetta sem betur fer breyst.

Dómurum ber því að hlusta eftir breyttri réttlætiskennd þjóðarinnar og siðferðismati. Í öllu tali um samræmi milli dóma í svipuðum málum gleymist oft að samræmi þarf að vera milli mismunandi brotategunda að teknu tilliti til alvarleika þeirra. Þótt það komi sumum dómurum á óvart þá finnst þjóðinni það vera alvarlegri glæpur að nauðga barni en að draga að sér fé.

Réttlætið þarf að sjást

Það er ekki nóg að ná fram réttlætinu heldur þarf það einnig að sjást að réttlætinu hafi verið fullnægt. Dómar í ofbeldis- og kynferðisbrotum uppfylla hins vegar hvorugt skilyrðanna.

Vægir dómar í alvarlegum málum stuðla ekki einungis að vantrausti á einum af mikilvægustum stofnunum samfélagsins sem dómstólarnir eru heldur særa þeir réttlætiskennd einstaklinganna sem gætu freistast til þess að taka lögin í sínar eigin hendur.

Það þarf að fara fram opinská umræða um hvaða leið á að fara í refsimálum. Almenningur, stjórnmálamenn og lögfræðingar eiga að taka fullan þátt í þeirri umræðu. Réttlátir og sanngjarnir dómar eru hagsmunamál allra.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand