,,Við vorum á sömu blaðsíðu þegar talið barst að því að algjörlega ótækt væri að þriðjungur eldri borgara þyrfti að lifa undir fátæktramörkum. Þegar ég sagði honum að ein af aðalástæðum þess að ég ætla að kjósa Samfylkinguna í vor væri sú að hún hefur barist fyrir því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur missti ungi maðurinn andlitið.” Segir Eva Kamilla Einarsdóttir í grein dagsins.
Eftir fyrstu tylftina af bjór kemst yfirleitt fátt annað að en uppáferðir og slagsmál. En fram að því er hægt að drepa tímann með spjalli um pólítík. Það gerði ég einmitt síðustu helgi og sat heillengi með ungum manni og spjallaði við hann um hvað skipti mestu fyrir ungt fólk máli í kosningunum í vor.
Hann taldi upp mál eins og umhverfis-, efnahags- og jafnréttismálin og ég var alveg hjartanlega sammála. Umhverfisstefna sem inniheldur skynsamlegar lausnir og þar sem náttúran fær alltaf að njóta vafans, efnahagsstefna sem miðar að því að ungt fólk geti fest kaup á húsnæði og keypt mat á mannsæmandi verði og jafnréttisstefna sem að miðar að því að útrýma kynbundnum launamun og öllu kynbundnu ofbeldi. Þetta voru allt mál sem við gátum verið sammála um.
En síðan fórum við að tala um velferðamálin. Við vorum á sömu blaðsíðu þegar talið barst að því að algjörlega ótækt væri að þriðjungur eldri borgara þyrfti að lifa undir fátæktramörkum. Þegar ég sagði honum að ein af aðalástæðum þess að ég ætla að kjósa Samfylkinguna í vor væri sú að hún hefur barist fyrir því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur missti ungi maðurinn andlitið, honum fannst það gjörsamlega óskiljanlegt að það gæti skipt mig einhverju máli og ég varð ekkert svo hissa á þessum viðbrögðum hans því það er ekkert svo langt síðan ég var alveg sama sinnis.
Ég sá fyrst eitthvað um þetta mál á heimasíðu varaformanns Samfylkingarinnar og ég hugsaði: Já já þetta er nú bara eitthvað sem einhverjir hippar sem ganga í fötum úr hampi og borða baunaspírur í öll mál getur þótt mikilvægt. Því að eftir því sem ég best vissi fjallaði þessi sáttmáli aðallega um það að börn ættu ekki að taka þátt í hernaði eða vinna mikla erfiðsvinnu og þó að það sé auðvitað eitthvað sem ég er ekkert hrifin af þá gat ég ekki alveg séð fyrir mér að það myndi breyta nokkru fyrir íslensk börn þó að þetta yrði sett í lög hér á landi.
En þessi sáttmáli er ekki alveg svo einfaldur. Í honum er fjallað um margvísleg réttindi barna, borgaraleg, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg. Ísland er aðili að þessum sáttmála en vegna þess að hann er ekki enn þá lögfestur þá er ekki hægt að beita honum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum. En ef það yrði gert þá yrði að taka mið af honum við úrlausnir allra mála sem vörðuðu börn.
Og hverju myndi það breyta? Til dæmis myndi lögfestingin hafa áhrif á íslensk börn sem ekki eru alin upp af foreldrum sínum, þetta myndi auka rétt barna á að tjá sig um öll mál sem þau varða, þetta myndi hafa mikil áhrif á stöðu fatlaðra barna og möguleikum þeirra á jafn góðri menntun og önnur íslensk börn fá. Lögfesting sáttmálans myndi kalla á breytingar á þeirri staðreynd að í dag eru ekki til sérstök úrræði fyrir unga fanga.
Í fyrstu grein sáttmálans er fjallað um það að barn sé einstaklingur sem ekki er orðin átján ára. Lögræðisaldur á Íslandi er 18 ár, en misræmi er á milli laga um hvort að líta eigi til afmælisdags eða fæðingaárs. Einnig hefur Umboðsmaður barna bent á að þegar kemur að gjaldtöku, jafnvel í almannaþjónustu, þá sé fullorðinsgjald oft miðað við 12 ára. Þetta brýtur í bága við 2. grein sáttmálans sem fjallar um það að ekki megi mismuna börnum út frá félagslegri stöðu eða aðstæðna foreldra þeirra, sem að svona gjaldtaka hlýtur að gera þar sem börn eru ekki orðin fjárráða fyrr en við átján ára aldur.
Listinn er langt frá því að vera tæmandi en gefur bara smá innsýn í það af hverju lögfesting barnasáttmálans er eitthvað sem varðar allt ungt fólk, ef ekki einfaldlega vegna þess að við erum vart komin af barnsaldri sjálf þá alla vega vegna þess að við stöndum mörg hver í barneignum. Ef við tökum ekki upp hanskann fyrir börn þá gerir það varla nokkur.
Þess vegna finnst mér að allt ungt fólk eigi að kjósa Samfylkinguna 12.maí, því að auk þess að vera með frábæra stefnu í umhverfis-, jafnréttis- og efnahagsmálum þá er hún fremst allra flokka í velferðarmálum eins og barátta hennar fyrir lögfestingu barnasáttmálans sannar. Ef við viljum betri og barnvænni framtíð setjum við X við S.
Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á þingályktunartillögu Ágústs Ólafs Ágústssonar sem og skrif hans um málið.