Systur og bræður, verið velkomin!

,,Stjórnmálafólk á ekki að spila á ótta við hið framandi eða óþekkta og búa til ímynduð vandamál og fordóma í tilraunum til að halda flokki sínum inni á þingi“. Segir Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna í grein dagsins.

Bræður og systur, verið velkomin til Íslands! Verið svo innilega velkomin og ég hlakka til að kynnast ykkur. Hlakka til að hjálpast að við að búa til fjölbreyttara, skemmtilegra og betra Ísland til að búa á.

Það sem við megum aldrei gleyma þegar við tölum um málefni innflytjenda, nýbúa, landnema eða hvað sem við viljum kalla hinn fjölbreytta hóp nýrra Íslendinga – er að segja nákvæmlega þetta og segja það hátt og skýrt: Verið velkomin! Velkomin til Íslands! Svo einfalt er það.

Fólk flytur til Íslands af mismunandi ástæðum. Sumt kemur kannski hingað einfaldlega til að búa sér betra líf, annað til að vinna tímabundið eða mennta sig, sumt vegna ástvina, enn annað sem flóttamenn. Við þurfum auðvitað að huga að mismunandi þáttum til að mæta þörfum ólíkra hópa. Og það er alveg víst að við þurfum að gera betur að mörgu leyti og að þar þarf stefnumótun og eftirfylgni við málaflokkinn að vera tekin föstum tökum af ríkinu, sveitarfélögum, atvinnurekendum og samtökum launþega. Raunar hefur margt gott verið að gerast í þeim efnum undanfarið ár.

Það sem mig langar samt mest til að tala um hérna er ekki opinberir aðilar eða lögpersónur heldur fólk. Fólk sem tekur á móti fólki.
Sá þáttur sem hefur úrslitaáhrif um aðlögun hlýtur á endanum að vera velvilji og virðing hvers einasta okkar gagnvart nýju fólki. Viljinn til að láta hlutina ganga upp og sjálfstraustið til að takast á við breytingar þannig að þær verði jákvæðar. Þar ber hvert okkar ábyrgð. Annars konar ábyrgð og sérstaklega mikla bera síðan þau sem hafa áhrif á opinbera umræðu, svo sem fjölmiðlar og stjórnmálafólk. Fjölmiðlar eiga ekki að segja „erlendur maður framdi glæp“ frekar en „Ísfirðingur framdi glæp“.

Stjórnmálafólk á ekki að spila á ótta við hið framandi eða óþekkta og búa til ímynduð vandamál og fordóma í tilraunum til að halda flokki sínum inni á þingi.

Fiskverkafólk, listamenn eða lögfræðingar. Íslendingar, Taílendingar, Pólverjar eða Palestínumenn. Það sem sameinar okkur er að við erum öll bara fólk. Það sem við þurfum að passa er tilhneigingin til að skipta fólki svona rosalega í hópa, hugsa hlutina í við-þið og hafa þess vegna á okkur fyrirvara í samskiptum. Við þurfum líka að passa að tala ekki alltaf um „þetta fólk“. Fólk af erlendum uppruna er ekki bara einhver óskilgreindur massi heldur fólk af holdi og blóði, einstaklingar, sem eru ólíkir og hafa ýmislegt fram að færa en glíma líka við vandamál rétt eins og við „afkomendur víkinganna“ sem líka erum ólík innbyrðis. Þannig eigum við að varast að dæma stóra hópa út frá hegðun einstaklinga, heldur takast til dæmis á við félagslegar áskoranir um leið og við að sjálfsögðu spornum gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi eins og annarri.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar, eins og hinn rammíslenski Einar Ben orti. Og Reykjavíkurskáldið Tómas orti um að hjörtum mannanna svipi saman, hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu. Höfum þetta tvennt í huga.
Njótum hvers annars, hvaðan sem við komum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag 23. maí, 2008

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand