,,Vart þarf að minnast á ömurlegar afleiðingar vændis á þá sem það stunda og þær aðstæður sem reka konur og karla til þess að selja líkama sinn. Þeir sem hafa hagsmuna að gæta í málinu reyna að halda á lofti goðsögninni um hamingjusömu hóruna.“ Segir Eva Bjarnadóttir framkvæmdarstjóri Ungra jafnaðarmanna.
Nú verður hjólað í breytingu á lögum um kaup á vændi og farið leiðina sem kennd hefur verið við Svíþjóð að gera kaupin refsiverð. Fyrir Alþingi liggur nú breytingatillaga sem felur í sér að lögunum verði breytt hér á Íslandi. Í Noregi var nýverið samþykkt að fara sænsku leiðina. Rauð-græna ríkisstjórn Norska verkamannaflokksins og Sósíalíska vinstriflokksins, lagði málið fram og var það samþykkt, þrátt fyrir mótbárur þeirra sem vilja vernda rétt fólks til kaupa og sölu á vændi.
70 prósent með breytingu
Síðastliðið vor rann frumvarp þegjandi og hljóðalaust í gegnum Alþingi þar sem sala á vændi var leyfð innan ákveðinna marka en kaup voru ekki gerð refsiverð. Í eitt ár hefur því verið leyfilegt að kaupa og selja vændi á Íslandi. Kominn er tími til að breyta því og færa lögin nær nútímaskilningi á mannréttindum og nær skoðun landsmanna , en 70 prósent þeirra sem tóku þátt í spurningakönnun Capacent Gallup í mars árið 2007 voru því samþykkir að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð.
Vart þarf að minnast á ömurlegar afleiðingar vændis á þá sem það stunda og þær aðstæður sem reka konur og karla til þess að selja líkama sína. Þeir sem hafa hagsmuna að gæta í málinu reyna að halda á lofti goðsögninni um hamingjusömu hóruna. Að til sé fólk sem fær ekki kenndum sínum svalað nema það hafi þær að atvinnu. Raunveruleikinn og fjölmargar lærðar rannsóknir sýna þó annað. Vændi sprettur upp úr neyð, efnislegri eða andlegri, og afleiðingarnar eru áverkar á sál og líkama sem ekki verða aftur teknir.
Kaupandinn hefur valið
Kaupandinn hefur valdið. Hann á fjármagnið sem eytt er í kaupin og hefur því hið raunverulega val. Seljandinn hefur í neyð sinni ekki þetta sama val. Það er því eðlilegt að ábyrgðin liggi hjá þeim sem getur valið hvort kaupin eigi sér stað og að það sé bannað með öllu að versla með líkama annars fólks.
Tillaga um að farið yrði sænsku leiðina kom fyrst fram á Alþingi árið 2000. Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, studdu síðan frumvarp til laga í nóvember síðastliðinn um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem kaup á vændi eru gerð refsiverð. Þá hefur almenn sátt hefur ríkt innan Samfylkingarinnar og meðal Ungra jafnaðarmanna að þessa leið eigi að fara. Það liggur því í augum uppi að Samfylkingin eigi og muni styðja breytingartillögurnar sem gerðar eru.