Í lok síðustu viku var ársskýrsla Stígamóta fyrir árið 2002 kynnt og fjölmiðlar töluðu um svarta skýrslu. Undirritaður ákvað á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna laugardaginn 8.mars að kynna sér skýrsluna. Þennan sama dag árið 1989 var ákveðið á fundi í Hlaðvarpanum að stofna Samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi. Nákvæmlega einu ári síðar hófu Stígamót starfsemi sína. Skýrsluna sem og hinar ýmsu upplýsingar um starfsemi samtakana er hægt að finna á heimsíðu þeirra www.stigamot.is. Í lok síðustu viku var ársskýrsla Stígamóta fyrir árið 2002 kynnt og fjölmiðlar töluðu um svarta skýrslu. Undirritaður ákvað á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna laugardaginn 8.mars að kynna sér skýrsluna. Þennan sama dag árið 1989 var ákveðið á fundi í Hlaðvarpanum að stofna Samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi. Nákvæmlega einu ári síðar hófu Stígamót starfsemi sína. Skýrsluna sem og hinar ýmsu upplýsingar um starfsemi samtakana er hægt að finna á heimsíðu þeirra www.stigamot.is.
Fjölgun einstaklinga sem komu í viðtal hjá samtökunum á síðasta ári var 13,3 % fleiri miðað við árið áður. Í skýrslunni stendur orðrétt: ,,Í ljósi þess að nú er bæði hægt að fá góða faglega hjálp vegna kynferðisofbeldis í Barnahúsinu og hjá Neyðarmóttöku vegna nauðgana, er það áhyggjuefni að sl. fjögur ár hefur straumur fólks til Stígamóta aukist mikið. Enn alvarlegra er að fjöldi ofbeldismanna hefur aukist meira en fjöldi þeirra sem fyrir ofbeldinu verður.” 44 % þolenda voru á aldrinum 5-10 ára og í 62 % tilfella voru þolendur innan við 16 ára aldur. 5-10 ára gamlir þolendur eru aðeins 1,2 % þeirra sem leita sér aðstoðar. Þolendur leita sér aðstoðar síðar á lífsleiðinni og flestir þeir sem leituðu til Stígamóta voru á aldrinum 19-29 eða tæp 45 % þolenda.
Ef bornar eru saman tölur frá árunum 1992-2002 kemur í ljós að sifjaspell sem standa í 0-11 mánuði hefur fækkað á þessum árum, en á móti hefur tilfellum fjölgað þar sem ofbeldið varir í 1-5 ár. Í skýrslunni kemur samt sem áður fram að tölur um það hve lengi brotin stóðu yfir eigi að taka með ákveðinni varúð, því þolendum reynist oftast erfitt að tímasetja nákvæmlega ofbeldið sem þeir urðu fyrir. Engu að síður er algengast að sifjaspell standi yfir í 1-5 ár. Tæplega 27 % þeirra sem leituðu til Stígamóta á seinasta ári höfðu sagt frá ofbeldinu á meðan það átti sér stað eða strax eftir að því lauk og algengast var að móðir eða vinkonu/vinur nytu trausts þolenda. Þeir einstaklingar sem þorðu að stíga skrefið og segja frá ofbeldinu sem framið hefði verið var trúað í 88 % tilfella. Aðeins 15 % þeirra mála sem bárust til Stígamóta árið 2002 voru kærð til barnaverndarnefnda og/eða lögreglu. Þetta lága hlutfall er alvarlegt umhugsunarefni og vert er að athuga hvað það er sem valdi því að svona lágt hlutfall kynferðisbrota berist til yfirvalda. Í skýrslunni segir að ástæðurnar séu margar, m.a. eru málin oft fyrnd þegar þau berast til samtakanna. Önnur ástæða er sögð vera sú að þolendur hafa ekki trú á dómskerfinu. Kæra var ekki lögð fram í 91% þeirra mála sem bárust Stígamótum á síðasta ári.
Um afleiðingar og gerendur
Erfiðustu afleiðingar kynferðisofbeldis er skömm, léleg sjálfsmynd, sektarkennd og depurð. Í 20 % tilfella hafði þolandi gert sjálfsvígstilraun og í skýrslunni stendur ennfremur: ,,Því miður höfum við stundum spurnir af fólki sem leitað hefur hjálpar hjá bæði Stígamótum og ýmsum fagaðilum, en afber ekki slæma líðan og sviptir sig lífi.” 60 % þolenda kynferðisofbeldis höfðu hugleitt að fremja sjálfsmorð. Þetta sýnir hversu alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldis geta orðið.
Ofbeldismennirnir voru í þriðjungi tilfella vinur eða kunningi. Faðir, móðir, afi, bróðir, frændi og frænka voru einnig tæplega 1/3 gerenda. Athygli vekur að ,,aðeins” 15.5 % ofbeldismannanna eru ókunnugir þeim sem urðu fyrir barðinu á þeim. Kynferðislegt ofbeldi er hvorki bundið við dreifbýli né þéttbýli – það á sér enginn landfræðileg mörk. Menntun og atvinna ofbeldismanna er breytileg. Yfir 60 % gerenda eru á aldrinum 19-39 ára.
Að lokum
Samtökin hafa útbúið sérstakan óskalista um þingmál sem að gagni gæti komið í baráttunni gegn kynferðisofbeldi og var fjórum þingmönnum stóru flokkanna afhentur listinn í október. 12. atriði listans er um að fyrningarfrestur í kynferðisafbrotamálum miðist við 18 ára aldur í stað 14 ára. Það er auðvitað algjör tímaskekkja að kynferðisafbrot fyrnist við 14 ára aldur miðað við það að sjálfræðisaldurinn er 18 ár. Vegna þessarar tímaskekkju hefur hvorki verið kært né réttað í nokkrum alvarlegum málum. Maður spyr – hver er réttur þolenda? Einnig vekur það athygli að ein af ástæðunum fyrir því að þolendur veigra sér að aðhæfast ekkert, er lítil tiltrú þolenda á dómskerfinu. Aftur spyr ég – hver er réttur þolenda?