Stúdentatíð í kreppuhríð

,,Botninum var ekki náð þegar bankastarfsmennirnir misstu vinnuna. […] Talað hefur verið um 5-10% atvinnuleysi á næstunni sem gæti þýtt 20% atvinnuleysi hjá ungu fólki! Það þýðir að við nemendur fáum hugsanlega enga vinnu næsta sumar og sumrin þar á eftir. Þess vegna er nauðsynlegt að bjóða upp á sumarannir í sem flestum deildum Háskólans. Lánasjóðurinn lánar fyrir þeim.“


Greinin er unnin úr framsögu sem höfundur var með á fundi um stúdenta og atvinnuhorfur. Fundurinn var haldin 6. nóvember síðastliðinn og var höfundur þar í hlutverki bankastarfsmanns sem nýverið missti vinnuna. Fundurinn var hluti af málþingum sem SHÍ stóð fyrir: Stúdentatíð í kreppuhríð.

Ég er einn af þeim sem misstu vinnuna við fall bankanna. Í dag virðist vera mikil eftirspurn eftir þessu fólki. Það er ekki eftirspurn eftir því að ráða það í vinnu heldur til að heyra hvað þessi „vinsæli hópur samfélagsins“ hefur að segja um stöðuna. Sem dæmi var ég fenginn til að tala á málþingi Stúdentaráðs, hef farið í viðtal við hollenskt viðskiptablað og í viðtal við svissneska sjónvarpsstöð.

Ég veit ekki hvað veldur þessari eftirspurn. Kannski býst fólk við að fyrrverandi bankastarfsmenn geri upp fortíðina – upplýsi um hina miklu spillingu sem ríkti innan bankanna. Segi sögur af villtum kampavínspartíum eða um að flestir starfsmenn hafi vitað að bankarnir væru að falla og væru búnir að stinga fúlgum fjár undir koddann.

Sannleikurinn er sá að flest þau sem misstu vinnuna og þau sem ég kynntist innan bankanna, tek fram að ég kynntist ekki æðstu stjórnendunum, trúðu að þau væru að gera allt rétt. Þau voru á þeim stað í lífinu sem þau hefðu stefnt á – menntuðu sig í Háskóla Íslands, flaggskipi þjóðarinnar, og fengu vinnu hjá óskabörnum þjóðarinnar, bönkunum.

Á meðal þeirra sem misstu vinnuna var fólk sem á fjölskyldur og rekur heimili. Þetta fólk er í miklum vanda í dag. Það hefur sjálft stofnað til erlendra lána og situr í sömu skuldasúpunni og aðrir. Þá eru aðrir innan múra bankanna, sama hvort þeir misstu vinnuna eða ekki, sem ráðlögðu fólki eftir bestu vitund að setja ævisparnaðinn í peningamarkaðssjóði eða til að kaupa hlutabréf í bönkunum. Þessu fólki líður ekki vel í dag. Við megum ekki gleyma að hlúa að því.

Ég er heppinn. Ég skulda ekkert og á ekkert. Ég sé tækifæri í kreppunni því á meðan við erum á niðurleið ætla ég aftur í Háskóla Íslands. Ég ætla að útskrifast þegar uppsveiflan byrjar aftur. Þá verður vonandi til samfélag þar sem gamla samtryggingakerfi stjórnmála- og viðskiptamanna ræður ekki öllu. Nauðsynlegt er að stokka upp í þessu gamla og úrelta kerfi sem er við lýði í dag. Á komandi árum verður ungt fólk og konur að eiga meiri þátt í að stjórnun landsins. Að koma því þannig fyrir er eitt af verkefnum dagsins í dag. En þau eru fleiri.

Botninum var ekki náð þegar bankastarfsmennirnir misstu vinnuna. Við eigum eftir að sökkva dýpra. Atvinnuleysi á eftir að aukast mikið. Talað hefur verið um 5-10% atvinnuleysi á næstunni sem gæti þýtt 20% atvinnuleysi hjá ungu fólki! Það þýðir að við nemendur fáum hugsanlega enga vinnu næsta sumar og sumurin þar á eftir. Þess vegna er nauðsynlegt að bjóða upp á sumarannir í sem flestum deildum Háskólans. Lánasjóðurinn lánar fyrir þeim.

Eins er mikilvægt að við stúdentar stöndum vörð um Lánasjóðinn. Framundan eru slagsmál um þá peninga sem ríkið útdeilir. Niðurskurður á fjárlögum er yfirvofandi og við verðum að berjast með kjafti og klóm til þess að menntun spili lykilhlutverk í uppbyggingu nýs samfélags, það er öllum til góða. Þegar harðnar á dalnum má alls ekki víkja frá gildum eins og jafnrétti til náms. Eins verður að tryggja meira fjármagn í nýsköpun og stuðning við sprotafyrirtæki til að skapa ný atvinnutækifæri. Bankarnir og fjárfestingafélög voru stórir bakhjarlar við þessar greinar en þau mega muna fífil sinn fegri.
Slagurinn verður harður því ríkið þarf að bjarga almenningi í kreppunni. Nauðsynlegt er að hjálpa almenningi og fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann. Það versta sem gerist er að fólk og fyrirtæki fara á hausinn því þá fæst lítið upp í skuldir.

Það sem verra er þá er mikil hætta á að fólk flýi land. Líklegasta fólkið til þess er það sem á að halda uppi samfélaginu, fólkið á vinnumarkaðinum og við sem förum á vinnumarkaðinn í náinni framtíð. Til að halda fólki á landinu þarf bæði myndarlegan stuðning við háskólamenntun og að aðstoða þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Eins er nauðsynlegt að Íslendingar viti hvert þeir stefni. Það verður að vera leiðarljós inn í framtíðina. Í mínum huga eigum við að verða þekkingarsamfélag og ganga í Evrópusambandið. Við þurfum að hafa sömu tækifæri og aðrir í Evrópu og heiminum. Við eigum að opna landið og besta leiðin til þess er í gegnum Evrópusambandið og með upptöku evru. Ég gæti talað lengi um kosti og galla sambandsins, sem er mjög nauðsynleg umræða. Það ætla ég ekki að gera en vona að landsmenn kynni sér málið. Ekki er hægt að vera á móti því að fara í aðildarviðræður og í kjölfarið leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Því fyrr því betra.

Eins og áður sagði þá felast tækifæri í kreppunni. Við verðum að hafa metnað og þor til að elta þau uppi. Nemendur, Stúdentaráð og Háskóli Íslands verður að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja háskólamenntun sinn skerf af þeim peningum sem ríkið hefur til skiptanna. Þá þarf að gera kröfu um breytt og bætt samfélag – mistökin eru til að læra af þeim. Af þessum sökum hefur upplýst þjóðfélagsumræða aldrei verið mikilvægari. Ég þakka Stúdentaráði sérstaklega fyrir þeirra framlag.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand