,,Ég óttast það mjög að nú sé verið að setja olíu á eldinn með því að hækka hér stýrivexti og stefna þjóðinni í gríðarlegar skuldir til þess eins að freista þess að setja krónuna á flot. Sú tilraun á eftir að mistakast einfaldlega vegna þess að aðgerðirnar eru ekki trúverðugar,“ segir Guðlaugur Kr. Jörundsson í grein dagsins á PólitíkinniÉg er farinn að hafa djúpar áhyggjur af því hvert er verið að leiða þjóðina nú í þessu hörmulega ástandi. Það er verið að reyna að klóra sér fram úr vandanum án þess að vita hvert er verið að stefna. Það er ekki skrítið að illa gangi að sannfæra erlenda seðlabanka um að hægt sé að treysta Íslandi fyrir lánafyrirgreiðslu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn treystir sér ekki einu sinni til þess að lána okkur gjaldeyri nema að aðrir geri slíkt hið sama. Vitandi þó að seðlabankar vilja að Ísland fái lán frá sjóðnum fyrst. Það virðist ætla að taka sinn tíma að koma þessu lánasafni saman.
Það er ekki skrítið að illa gangi. Verið er að gera tilraun til þess að koma gjaldmiðli á flot sem hefur misst allt traust í markaðskerfum heimsins. Íslenska krónan er dauð sem gjaldmiðill á erlendum mörkuðum. Stjórnvöld afneita þessari staðreynd. Í stað þess að viðurkenna að krónan verður aldrei meira en spilapeningur erlendis þá er farið út í áhættusama tilraun til þess að setja krónuna á flot. Það á að reyna að láta erlenda aðila versla með gjaldmiðil sem hefur ekkert traust. Um leið og krónan verður sett á flot mun gengi hennar hrynja enn meira.
Á meðan erlendir seðlabankar treysta okkur varla þá mun áfram verða vantraust á varagjaldeyrissjóði okkar . Efnahagkerfið stendur ekki undir því að halda uppi alþjóðlegum gjaldmiðli. Það er augljóst mál. Tilraunin með fljótandi íslenska krónu heppnaðist ekki betur en svo að gjaldmiðillinn tapaði öllu sínu trausti. Gjaldmiðilinn verður einungis hægt að nota hér innanlands.
Það er ekkert annað í stöðunni en að skrúfa fyrir frjálsa fjármagnsflutninga og taka upp gjaldeyrishöft. Við verðum að hverfa aftur til þess tíma að stjórnvöld stilli gengið handvirkt. Að það verði bara eitt gengi sem Seðlabankinn ákveði. Að það verði bara hægt að skipta íslenskum krónum í íslenskum bönkum. Við munum þá flytja inn vörur fyrir þann gjaldeyri sem við seljum útflutningsvörur okkar fyrir.
Síðan tökum við það skref sem við áttum að taka árið 1994 og göngum alla leið inn í ESB. Fáum flýtimeðferð inn í ERMII og semjum um að Seðlabanki Evrópu styðji við það að íslenska krónan verði innan vissra vikmarka frá Evrunni. Samið verði um gengi á íslensku krónunni sem er í takti við íslenskt efnahagkerfi. Horft verði til gengisþróunar síðustu árin – áður en lausafjárkreppan skall á og áður en krónan styrktist óeðlilega.
Ég óttast það mjög að nú sé verið að setja olíu á eldinn með því að hækka hér stýrivexti og stefna þjóðinni í gríðarlegar skuldir til þess eins að freista þess að setja krónuna á flot. Sú tilraun á eftir að mistakast einfaldlega vegna þess að aðgerðirnar eru ekki trúverðugar. Traust á íslensku krónuna er gjörsamlega horfið og traustið verður ekki endurheimt á skömmum tíma – þrátt fyrir lánaloforð. Sérstaklega þar sem ráðamenn þjóðarinnar þráast við að axla ábyrgð sína og víkja þangað til færi gefst á að endurnýja umboðið.
Ég er enginn hagfræðingur eða ESB sérfræðingur. Ég hef mína þekkingu á þessum málum aðallega úr fjölmiðlum og úr því góða starfi sem Ungir jafnaðarmenn starfrækja. Sjálfur sé ég enga alvarlega vankanta á þessu – en þeir kunna að leynast. Vankantarnir eru þó varla alvarlegri en sú svakalega áhætta sem við erum að stefna inn í núna.
Getum við sætt okkur við það að búa við okurstýrivexti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og bera á bakinu ofurvaxnar skuldir ef það mun svo mistakast að koma krónunni á almennilegt flot?
Hverfum aftur til þess efnahagskerfis sem við þekkjum frá seinni hluta síðustu aldar, þangað til við verðum orðin sjálfstæð þjóð í alþjóðasamfélaginu sem meðlimir í ESB.