Í ritstjórnargrein síðasta tölublað Stúdentablaðsins, var fjallað um málfrelsi og gagnrýna hugsun. Slík umræða er alltaf nauðsynleg, og það verður að teljast tilhlýðilegt að háskólastúdentar taki fullan þátt í slíkri umræðu, enda almennt viðurkennt í öllum fræðigreinum að gagnrýnin hugsun er af hinu góða. Og málfrelsið er nauðsynlegt í nútímalýðræðisþjóðfélagi og allir ættu að vera vakandi fyrir því. Ritstýran virðist vera með það á hreinu, og í þessari grein notar hún málfrelsið til þess að gagnrýna Femínistafélag Íslands. Að sjálfssögðu er í góðu lagi að hún geri það, og til að fyrirbyggja allan misskilning fagna ég allri opinberri gagnrýni, hins vegar tel ég málflutning ritstýrunnar verðskulda ýmis mótrök. Í ritstjórnargrein síðasta tölublað Stúdentablaðsins, var fjallað um málfrelsi og gagnrýna hugsun. Slík umræða er alltaf nauðsynleg, og það verður að teljast tilhlýðilegt að háskólastúdentar taki fullan þátt í slíkri umræðu, enda almennt viðurkennt í öllum fræðigreinum að gagnrýnin hugsun er af hinu góða. Og málfrelsið er nauðsynlegt í nútímalýðræðisþjóðfélagi og allir ættu að vera vakandi fyrir því. Ritstýran virðist vera með það á hreinu, og í þessari grein notar hún málfrelsið til þess að gagnrýna Femínistafélag Íslands. Að sjálfssögðu er í góðu lagi að hún geri það, og til að fyrirbyggja allan misskilning fagna ég allri opinberri gagnrýni, hins vegar tel ég málflutning ritstýrunnar verðskulda ýmis mótrök.
,,Beinskeytt” ritstjórnargrein
Fyrirsögnin á einni málsgrein (þeirri málsgrein sem kom beint á eftir lofsöngi á beinskeytta gagnrýni Stúdentablaðsins á stjórnvöld og háskólayfirvöld í gegnum tíðina) er ,,Femínistafélagið gangandi Hæstiréttur?” og útskýringin á þeirri fyrirsögn kom í kjölfarið; mikil gróska er í götublaðaútgáfu um þessar mundir, og unga fólkið þorir að gagnrýna og varpa ljósi á hlutina. Það vakti athygli ritstýru Stúdentablaðsins þegar hún hlustaði á útvarpsviðtal við ritstjóra tímaritsins ,,Vamm”, sem þótti grófur í kjaftinum, gera lítið úr kvenþjóðinni og tala um beinskeyttan hátt um eiturlyf og sjálfsmorð. Það sem hins vegar vakti óhug hennar var þegar útvarpsmaðurinn spurði hvort Femínistafélagið hafi látið í sér heyra varðandi umrædda grein, og spurði hún þá bara: Er Femínistafélagið orðið gangandi Hæstiréttur sem hefur lokaorðið um hvað sé niðurlægjandi fyrir konur og hvað ekki? Hún tók reyndar líka fram að hún hefði enga sérstaka skoðun á efni tímaritsins Vamm og sagði að hennar álit skipti ekki máli hvað það varðaði.
Mótsagnarkennd ummæli
Þessi ummæli verða að teljast afar mótsagnarkennd. Eftir að hafa lofað málfrelsið, gagnrýna hugsun og allt unga fólkið sem þorði að gagnrýna og varpa ljósi á hlutina, segir hún það hafa vakið óhug hennar að einhver í útvarpinu skyldi hafa áhuga á að vita álit femínista á efni eins þessarra blaða. Telur hún að þessi götublöð þoli enga gagnrýni? Og það sem meira er, telur hún að ef Femínistafélagið gagnrýnir eitthvað, séu orð þess ,,lokaorð um hvað sé niðurlægjandi fyrir konur og hvað ekki” samkvæmt lögum? Eða að félagið hafi fulltrúa í Hæstarétti? Rúsínan í pylsuendanum er hins vegar sú staðhæfing hennar að ,,hennar álit skipti ekki máli hvað það (að vera grófur í kjaftinum, gera niðrandi úr kvenþjóðinni og tala á beinskeyttan hátt um eiturlyf og sjálfsmorð) varðaði.” Það eru semsagt bara álit sumra varðandi sumt sem skiptir máli, annað á ekki að vera að hafa á flimtingum.
Er einhver pólitískur rétttrúnaður í gangi?
Blessunarlega búum við í nútímalýðræðisríki þar sem öllum er frjálst að gagnrýna ríkisstjórnina opinberlega. Annars væri þetta vefrit til dæmis varla til. Málfrelsinu fylgir það að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn verða að sitja undir opinberri gagnrýni, og almennt virðist sá réttur viðurkenndur. Hið sama gildir ekki um réttinn til þess að gagnrýna ýmis menningarfyrirbæri sem við erum missátt við, eins og til dæmis ,,klámvæðinguna” svokallaða og fegurðarsamkeppnir. Vissulega er öllum frjálst að eiga þátt í þessum menningarfyrirbærum og ég hef ekki heyrt marga, ekki einu sinni femínista, mæla gegn réttinum til þess. Hins vegar hef ég heyrt marga koma með rök gegn þessum fyrirbærum, og það eitt að tjá sig um þau virðist fara ákaflega mikið fyrir brjóstið á ýmsum, þar með talið ritstýru Stúdentablaðsins. Sumir virðast því miður ekki gera sér grein fyrir því að málfrelsinu fylgir ekki það að maður megi gagnrýna sumt, en neyðist til þess að halda kjafti um annað, eigi maður ekki beinan hlut að máli. Þeir virðast líka telja það skaðlegt fyrir fólk að heyra rök gegn því sem það tekur þátt í.
Gagnrýnin hugsun er forsenda allra framfara
Ég veit hvað það getur verið snúið að sitja undir gagnrýni og heyra mótrök gegn því sem maður hefur haldið fram. Á sama tíma hef nokkrum sinnum séð mig tilneydda til þess að endurskoða afstöðu mína, bæði varðandi stjórnmál, menningu og ýmislegt annað, þar sem mótrök hafa fengið mig til þess að sjá hlutina í nýju ljósi. En það er einmitt gott mál. Allir hafa frelsi til þess að taka hverja þá afstöðu sem þeim sýnist, en forsendan fyrir því að geta tekið málefnalega afstöðu er einmitt að hafa heyrt rök með og á móti. Gagnrýnin hugsun, hvort sem hún kemur frá femínistum, Stúdentablaðinu eða öðrum, er af hinu góða, og forsenda allra framfara. Því verður að telja það lofsvert af hálfu Stúdentablaðsins að leggja áherslu á gagnrýna hugsun, og tjá sig opinberlega. Og það er líka alveg sama hvaða skoðun maður hefur, maður ætti alltaf að tjá hana þótt það geti valdið ósætti þeirra sem eru á öndverðri skoðun. Málfrelsinu fylgir nefnilega það að maður getur þurft að sætta sig við að þeir sem eru ósammála því sem almennt er talið eðlilegt og sjálfssagt, fái að láta í sér heyra.
Frjálshyggjan = frelsi til þess að vera á sömu skoðun og frjálshyggjumenn og engri annarri?
Víst er það að mörgum svokölluðum frelsisstyttum er afskaplega í nöp við femínista, og nota gjarnan þau rök gegn þeim, að það sé óréttlátt af þeim að standa fyrir opinberum mótmælum gegn einhverju sem aðrir eru að gera af fúsum og frjálsum vilja. Ef málflutningur femínista væri alla jafna á þá leið að það ætti að ,,banna” allt sem þeir væru að gagnrýna, snerist ég líka til varnar. Hins vegar ef fólk hefur fyrir því að kynna sér nákvæmlega hvað femínistar eru að gera með þessum mótmælum og gagnrýni, kemst það að því að það er sjaldnast verið að gera annað en það sem málfrelsið tryggir þeim: Að tjá sín sjónarmið. Femínstar hafa ekki löggjafarvald, og eru þaðan af síður gangandi eða sitjandi Hæstiréttur. Ef fólk þolir ekki rök gegn því sem það aðhyllist er skynsamlegast fyrir það að koma með málefnaleg mótrök. Ég vona að næst þegar Stúdentablaðið gagnrýnir femínista sé ritstýran hætt að fyllast óhug í hvert sinn sem einhver spyr um málflutning Femínistafélags Íslands í útvarpinum, og hætt að saka femínista um hreina forsjárhyggju og ritskoðun, því slíkt er beinlínis rangt. Einungis ríkisvaldið er í aðstöðu til þess að beita slíku, aðrir geta ekki bannað neitt með lögum, allra síst ef þeir eru ekki einu sinni að hvetja til slíks. Að lokum vil ég líka benda ritstýru Stúdentablaðsins á, að þvert á það sem hún heldur fram, þá skipti hennar álit máli, alveg jafn miklu og þeirra sem gefa út Vamm eða aðhyllast femínista. En rétt skal vera rétt og vonandi fáum við að sjá minna taktlausa ritstjórnargrein í næsta Stúdentablaði.