Fyrst er mikilvægt að nefna að hér er ekki verið að leggja fram lausnir á vandamálunum sem verða borin fram. Tilgangur þessarar greinar er að benda á vandamál kapítalismans sem fólk verður að horfast í augu við, áður en það er farið að ræða lausnir á þeim. Við verðum að vera fullkomlega meðvituð um þá hluti sem eru í gangi, löngu áður en við finnum heppilega lausn, og sum vandamál eru hreinlega því miður óleysanleg. Þessi grein er skrifuð með það í huga. Lausnaleysið
Fyrst er mikilvægt að nefna að hér er ekki verið að leggja fram lausnir á vandamálunum sem verða borin fram. Tilgangur þessarar greinar er að benda á vandamál kapítalismans sem fólk verður að horfast í augu við, áður en það er farið að ræða lausnir á þeim. Við verðum að vera fullkomlega meðvituð um þá hluti sem eru í gangi, löngu áður en við finnum heppilega lausn, og sum vandamál eru hreinlega því miður óleysanleg. Þessi grein er skrifuð með það í huga.
Hugsjónirnar
Með talsverðri einföldun má með sanni segja að kapítalismi og kommúnismi gangi út á hið sama, bara frá öðru sjónarhorni. Réttlæti. Kapítalistinn vill að hver maður sé sinn eigin örlagasmiður og að hver sem er hafi færi á því að vinna sig á toppinn. Kommúnistinn vill burt með ok stóreignamanna og vill félagslegt réttlæti fyrir alla, reyndar án þess að nokkur maður komist fram úr öðrum manni, þar sem persóna er metin sem persóna í kommúnisma, ekki sem vinnutæki.
Einhvers staðar þarna á milli, erum vér Íslendingar. Hvar nákvæmlega, skiptir ekki endilega máli. Aðalatriðið eru að báðar hugsjónirnar eru meingallaðar í grundvallaratriðum, og algerlega óframkvæmanlegar samkvæmt sinni upprunalegu hugsjón, og það ætla ég að benda á. Fólk hefur sagt þetta um kommúnisma í marga áratugi, en sjaldgæfara er að fólk segi eitthvað svipað um kapítalisma, og því þetta rit.
Inntakið í kapítalisma er að maður uppskeri það sem maður sái. Annað sem var imprað á í gamla daga en er ekki lengur gert, er að allir menn fæðist jafnir. Þar er jafnaðarviðhorfið komið inn í kapítalismann sjálfan. Þó að það sé auðvitað mjög falleg hugsjón að allir eigi að vera jafnir við fæðingu, hlýtur það að heita staðreynd, að það er einfaldlega ekki tilfellið. Menn fæðast inn í misjafnlega mikil auðæfi, og hafa misjafna möguleika á því að ná áfram í lífinu. Börnin okkar munu alltaf uppskera bróðurpart af foreldrum sínum, sem þau börn sáðu ekki sjálf. Sonur ríkasta manns í heiminum á ekkert meira skilið en sonur hins fátækasta. Þetta er svo gömul lumma að hún fer að breytast í klisju, en hún stendur á meðan ástandið sýnir fram á að þetta sé tilfellið.
Það eru tvö vandamál sem liggja fyrir þegar við tölum um kapítalisma með hliðsjón af jöfnum tækifærum. Annað þeirra er menntun, og hitt eru erfðir.
Menntun
Án menntunar eru engin tækifæri. Á Íslandi höfum við getað tryggt skítsæmilega jöfn tækifæri, með því að hafa skólagöngu ýmist ókeypis eða mjög ódýra. Hinir svokölluðu frjálshyggjumenn vilja afnema þetta, bæði til þess að hleypa merkari skólum að, sem og til að lækka skatta (þar sem þeir líta á skatta sem frelsissviptingu, sem þeir vissulega eru).
Gallinn við þetta, er að ef við erum ekki öll með nákvæmlega sömu menntunartækifærin, mun óhjákvæmilega myndast vítahringur sem leiðir til þess að of fáir verða of valdamiklir, og þar með fæst andhverfa frelsisins sem upprunalega var stefnt að. Þar með eru nokkrir menn orðnir svo valdamiklir að þeir beinlínis stjórna lífi hundruða manna. Fólk er ekkert til í að horfast í augu við þetta, en vissulega er þetta a.m.k. hætta sem er tilkomin af ójöfnum tækifærum.
Þetta gerir það að verkum að við höfum tvo slæma kosti í menntamálum.
1. Við getum ríkisrekið skóla og haft alla skólagöngu ókeypis, algerlega óháð efnahag. Fyrir vikið er ríkið í stanslausri samkeppni við einkaaðila, og skattheimta er svo gott sem óhjákvæmileg, enda menntakerfið afskaplega dýrt eins og menn vita.
2. Við getum haft gjöld á þeim eða einkavætt þá, og hætt á að nokkrar valdamiklar fjölskyldur drottni yfir landinu, eins og vissulega er tilfellið (hvort sem menn horfast í augu við það eður ei) í Bandaríkjunum. Þar eru örfáar fjölskyldur sem hafa allt önnur réttindi og allt önnur tækifæri heldur en hinn venjulegi maður.
Kaldhæðnin er auðvitað að frelsisaukningin leiðir til frelsisskerðingar seinna meir. Sorglegt, en satt. Með jöfnum tækifærum að skóla er ekki verið að kúga neinn, heldur þvert á móti, er verið að tryggja að kúgunaraðstaða einstaklinga verði ekki of mikil. Þegar einhver öskrar að með ríkisreknum, ókeypis skólum sé frelsisskerðing í gangi, þá er hægt að færa þau rök á móti að án þessarar frelsisskerðingar, kæmi til önnur tegund frelsisskerðingar sem er mun alvarlegri. Jöfn tækifæri eru ekki fasismi, heldur einmitt grunnhugtak í kapítalismanum sjálfum, og svo má reyndar deila um það hvort kapítalismi eigi eitthvað tengt við frjálshyggju eður ei. Það er ekki nóg að finnast jöfn tækifæri svosem ágæt í orði, heldur þarf markvisst að vinna að jöfnum tækifærum. Jöfn tækifæri koma ekki sjálfkrafa, það hlýtur að vera hverjum manni ljóst. Það er ekkert nóg að segja að svosem stundum sé hugmyndin góð að menn fæðist jafnir, það er bara andskoti mikilvægt undir kapítalisma jafnt sem kommúnisma. Í staðinn fyrir því að berjast gegn þessu sjónarmiði með rökfærslum, kjósa hinir svokölluðu frjálshyggjumenn að einfaldlega hunsa punktinn.
Erfðir
Erfðir eru mesta ójöfnuðartæki sem mannkynið hefur alið af sér, en hinsvegar er um svo mikil grundvallarmannréttindi að ræða að menn vilja ekki einu sinni ræða hugmyndina um að banna þær. Ég segi það fyrir sjálfan mig að ég ætla að erfa ákveðna persónulega hluti frá móður minni þegar hún deyr, og mér finnst enginn hafa rétt til að taka það frá mér. Hvort sem það eru peningar eða fallegt málverk, eru það verðmæti sem ég vil og mun erfa. Annað siðferðislegt vandamál við afnám erfða er; hvað á að gera við peningana? Á ríkið að fá þá? Varla myndu margir svokallaðir frjálshyggjumenn taka undir það, og reyndar fæstir jafnaðarmenn.
Jafnvel þó að við hunsum siðferðislega punktinn, er það ennfremur verkfræðilegur ómöguleiki, eins og er, að stemma stigu við erfðum, þar sem utanumhaldið væri meira ójöfnuðartæki heldur en erfðirnar sjálfar. Fasisma þyrfti að leiða í lög til að berjast gegn ójöfnuðareiginleikum erfðarinnar.
Menn hafa hinsvegar bent á einn jákvæðan punkt við erfðir, en sá punktur er efnahagslegur. Með erfðum er hvatinn til þess að spara nýttur. Ef erfðir væru ekki svo sterkar í menningu okkar, þá myndi fólk kappkosta við að eyða öllum peningum sem það á, helst þannig að ekkert sé eftir þegar gullvagninn kemur, og með því verður til vítahringur ofþenslu.
Afnám erfða í nokkurri mynd, væri efnahagslegt, siðferðislegt og verkfræðilegt klúður frá A til Ö, þrátt fyrir að erfðir séu það sjálfar að ákveðnu leyti. Samt sem áður getum við ekki litið framhjá þeim ójöfnuði sem erfðir skapa. Við getum sætt okkur við það og gert okkur grein fyrir því að erfðir séu ill nauðsyn, en við verðum að gera okkur grein fyrir þessu, jafnvel þó okkur finnist það miður. Afneitun hefur sjaldan leyst vandamál.
Lausnirnar
Eins og venjulega ber ég á borð vandamál sem ég þekki engar lausnir á. Ég veit ekkert hvernig hægt er að tryggja jafnt aðgengi allra að bestu menntun sem völ er á, án þess að skerða frelsi einstaklingsins verulega. Ég veit ekkert hvernig við getum losnað við neikvæða þætti erfða en haldið í hinn siðferðislega og efnahagslega. En við verðum að vita hvað við erum að tala um, þegar við tölum um jöfnuð, frelsi, lýðræði og þvíumlíkt, og við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar við viljum eitthvað, þarf yfirleitt að fórna öðru. Maður verður að brjóta nokkur egg til að búa til eggjaköku, það er bara svo einfalt.
Bæði jafnaðarmenn og frjálshyggjumenn mættu taka það til sín, að engin ein pólitísk leið er algerlega ,,rétt” nema frá mjög takmörkuðu sjónarhorni, og því, ef við ætlum að líta á heildarmyndina, verðum við stundum að gefa okkur rótgrónustu gildi upp á bátinn í nokkrar mínútur í einu, þó það væri ekki nema umræðunnar vegna. Aðeins með þeim leiðum, getum við horfst í augu við raunveruleikann eins og hann er, og þá fyrst getum við stungið upp á lausnum.
Það væri gaman ef við gætum bara komið okkur saman um stefnu sem einfaldlega virkaði. Gallinn er að allar stefnur, hvort sem þær ná til kommúnisma eða kapítalisma, hafa ákveðna grundvallargalla sem við verðum að gera okkur grein fyrir, því að annars er hætt við að setjum alla okkar hagsmuni undir eitt kerfi, og þá fara þessir gallar að skipta verulegu, raunverulegu máli, og eru þeir þá hættir að vera hugmyndafræðilegt nöldur eins ritara á Politik.is. Það er nákvæmlega sama sagan og með eggin… það er ekki góð hugmynd að setja þau í eina körfu, sama hversu traust hún virðist vera. Við getum sett fleiri egg í tryggari körfuna, en við munum aldrei vita hvaða karfa er tryggust, ef við erum ekki reiðubúin til að viðurkenna, og vera sátt við, hina örfáu grundvallargalla hennar.