Stórtónleikar í boði Flokksins?

Auðlindir landsins og eignarréttur þeirra eru umhugsunarefni Einars Sigamarssonar


Ráðamenn hafa víst ekki alltaf grátið almannahagsmuni. Ein frægasta sögusögnin um það tengist bruna Rómar árið 64 eftir Krist.

Á síðustu og verstu tímum hefur orðið æ ljósara að móðir náttúra býr ekki yfir óþrjótandi auðlindum handa ört fjölgandi mannkyni. Um leið verður æ ótvíræðara að náttúruauðlindir eru betur komnar í umsjá hins opinbera en einkageirans, ella geta almannahagsmunir liðið fyrir sérhagsmuni.

Náttúruauðlindir Íslendinga sem annarra eru fallvaltar: Ekki þarf annað til að raska þeim en loftslagsbreytingar, jarðskjálfta eða eldgos með tilheyrandi hraunflæði og jafnvel öskufalli. Ef eftirspurnin verður meiri en framboðið er enn hættara við að varnarlausir neytendur verði blóðmjólkaðir. Að sama skapi er einokunaraðstaða einkaaðila á nýtingu náttúruauðlinda ekki fýsileg. Ef nýting þeirra er hins vegar undir yfirumsjón hins opinbera hefur almenningur frekar tök á að verja hagmuni sína og sporna við spillingu, ekki síst með því að kjósa rétt.

Í 72. grein stjórnarskrárinnar segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Verður því ekki annað séð en fiskurinn á Íslandsmiðum sé enn þjóðareign sama hvað sægreifar vilja vera láta, sama hversu lengi kvótinn hefur gengið kaupum og sölum þeirra í millum og alveg sama hversu margar sálir þeir kaupa.

Landeigandi getur fengið ráðsmann til að reka bú sitt um skeið, ef hann er ekki einfær um það sjálfur, og jafnvel leyft honum að framfleyta sér á afurðunum en ráðsmaðurinn eignast ekki búið fyrir það.

Tilburðir ríkisstjórnarinnar til að einkavæða vatn voru og eru aðför að almannahagsmunum. Sama gildir um hugmyndir um að einkavinavæða Landsvirkjun eða Orkuveitu Reykjavíkur. Til lengdar litið mun fólkið í landinu gjalda þess greypilega.

Nú er Íhaldið komið til valda í borginni í fagurbleiku með tvírætt englabros á vör en hvar ætli helstu postular nýfrjálshyggjunnar séu í felum? Uppi á þaki Valhallar kannski? Í helbláu með íbyggið glott á vör? Að stilla saman strengina fyrir fiðlukonsert í d-moll?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand