Kosningaúrslit með Júróvisjón þema

Pólitíkusar hafa síðustu daga verið að rembast við að túlka úrslit sveitastjórnarkosningana með hinum og þessum hætti. Tinna Mjöll hefur hinsvegar ákveðið að nota Júróvision sem samanburð.


We are the winners!

-Baráttan um borgina gerð upp með hliðsjón af Júróvisjón

Úfff… Ekki er laust við að erfitt þótti mér að skrifa þessa grein. Hvað hef ég meira fram að færa um sveitastjórnamálin sem hefur ekki þegar komið fram í öllum fjölmiðlum nú þegar. Hvernig get ég gert greinina mína það áhugaverða að fólk lesi hana og hvernig get ég reitt fram eitthvað nýtt og ferskt í þessu málefni? Jújú, svarið er einfalt; ég tek borgastjórnakosningarnar fyrir með keim af júróvisjón. Hvaða lag hentar hvaða flokki og hvers vegna?

Ekki er laust við að pólitíkusar þessa lands hafi haft miklar mætur á framlagi Litháena í Júróvisjón þetta árið en þeir sungu sig inn í hug og hjörtu Evrópubúa með laginu We Are The Winners. Eftir afstaðnar sveitastjórnakosningar finnst mér eins og það sé mottó allra þeirra sem buðu sig fram. Hinsvegar verð ég að eigna Framsóknarflokknum þetta lag. Þeir voru ekki með mann inni fyrr en tveimur dögum fyrir kosningar, fengu minnsta fylgið á bak við sig í kosningu en sitja samt í meirihluta, hljómar kunnuglega? Björn Ingi hefur gefið öllum langt nef þar á meðal borgarbúum sem… tja, kusu hann ekki. Á þetta lag var baulað þegar flutningur þess hófst í Aþenu og ég er nokkuð viss um að það hafi þónokkrir Reykvíkingar gert slíkt hið sama þegar meirihlutasamstarfið var kunngjört.

Sjálfstæðisflokkurinn fær lagið Invisnible með hinni sykursætu og sænsku Carolu. Hún, líkt og Sjálfstæðismenn ætlaði sér að sigra (hún reyndar ætlaði að sigra Júróvisjónkeppnina í ár en Sjálfstæðismenn borgina)… en það gekk ekki eftir. Titill lagsins er líka skemmtilega kaldhæðinn í því ljósi. Sjálfstæðismenn töldu sig vera ósigrandi með Vilhjálm í fararbroddi þar sem hann er þekktur fyrir persónutöfra á við mörg hundruð sólkerfi og ég held meira að segja að Vilhjálmur og Carola séu á svipuðum aldri.

Slóvenska lagið Mr.Nobody langar mig til þess að tileinka Frjálslyndaflokknum. Hann Ólafur sat eftir með sárt ennið þegar Vilhjálmur stakk af til Björns Inga sem hafði biðlað til hans nokkru áður. Ólafur þóttist vera aðalmaðurinn þegar hann fór í afdrifaríkan hádegismat deginum áður eins og frægt er orðið og fékk sæti minnihlutans í staðinn. Ég er sannfærð um að Ólafur eigi eftir að rísa hærra en titill þessa lags gefur til kynna en þar sem ég er ekki forspá verður tíminn að leiða það í ljós.

Vinstri hreyfingin –grænt framboð olli mér hugarangri í þessu Júróvisjón kokteil mínum. Amambanda frá Hollandi vil ég tengja við vinstri græna. Frá Hollandi komu þrjár hnátur voðalega hressar með lag sem þær sömdu sem var að hluta til á bull tungumáli sem þær bjuggu til sjálfar og að hluta til á ensku. Þegar Vinstri grænir komu fyrst á sjónarsviðið var margt sem þeir sögðu dálítið bull í eyrum þeirra sem gerðu ráð fyrir að plast væri umhverfisvænt og hélt að virkjanir væru töff en er nú farið að skýrast (eins og þegar skipt var um tungumál í laginu). Og það sem meira er; Hollenska lagið náði lengra en menn vonuðu.

Samfylkingunni minni ástkæru langar mig að tileinka tvö lög; fyrst ísraelska lagið Together we Are One, -Lagið var svosem ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir en tengingin er óhjákvæmileg (sjá stefnuskrána fyrir borgastjórnakosningarnar), Samfylkingin lagði áherslu á alla flóru Reykjavíkur, stúdenta, eldri borgara, barnafólk og allt þar í milli. Hitt lagið sem mig langar að tengja við Samfylkinguna er sigurlagið í ár Hard Rock Halelujah frá Finnlandi (nú er einhver örugglega með skrímslahúmor…) en mér fannst þetta fantagott lag, voða rokk og tja, Samfylkingin rokkar!

Bestu kveðjur og til hamingju Ísland,

Samfylkingin er að sækja í sig veðrið!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið