Mikið hefur gengið á í ráðherraskiptingum síðastliðin 3 ár eins og Magnús Guðmundsson bendir á.
Þrír stólar á 10 mánuðum
Það lítur allt út fyrir að við fáum á næstu dögum þriðja forsætis- og utanríkisráðherrann á innan við þremur árum. Auk þess munu þeir félagar, Geir Haarde og Árni Mathiesen, setjast í þeirra þriðja ráðherrastól á 10 mánuðum! Slíkt er afar óeðlilegt og minnir helst á stjórnmálaástandið í löndum eins og Ítalíu. Það hlýtur að vera þannig að það taki stjórnmálamenn talsverðan tíma að setja sig inní málefni viðkomandi ráðuneytis þegar þeir taka við forystu þeirra. Ör uppstokkun og stólaskipti eru því einfaldlega ekki af hinu góða og ástandið endurspeglar þá staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir tveir áttu ekki að endurnýja samstarfið eftir seinustu Alþingiskosningar þegar ríkisstjórnin rétt hélt meirihlutanum.
Ríkisstjórnin fyrir löngu komin á endastöð
Í kosningunum fyrir þremur árum tapaði stjórnin rúmlega 8% og fjórum þingsætum. Allt kjörtímabilið hefur togstreitan á milli ríkisstjórnarflokkanna verið sýnilegri en kjörtímabilin á undan. Hugmyndarlega virðist ríkisstjórnin fyrir löngu vera komin á endastöð. Krafturinn og viljinn er uppurinn. Ríkisstjórnin gat t.a.m. ekki komið sér saman fyrir sveitastjórnarkosningarnar um fjölda mála þ.á.m. um Nýsköpunarmiðstöðina og Ríkisútvarpið. Fyrir vikið var ákveðið að fresta þinginu fram fyrir kosningar, en allt kom fyrir ekki. Samstaða ríkisstjórnarflokkanna var slík um frumvörpin sem þingið var hreinlega kallað saman til að samþykkja var frestað á nýjan leik.
Stólaskiptastjórnin
- Tómas Ingi Olrich hættir sem menntamálaráðherra
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður menntamálaráðherra
- Halldór Ásgrímsson hættir sem utanríkisráðherra
- Siv Friðleifsdóttir hættir sem umhverfisráðherra
- Davíð Oddsson hættir sem forsætisráðherra
- Halldór Ásgrímsson verður forsætisráðherra
- Sigríður Anna Þórðardóttir verður umhverfisráðherra
- Davíð Oddsson verður utanríkisráðherra
- Geir H. Haarde hættir sem fjármálaráðherra
- Davíð Oddsson hættir sem utanríkisráðherra
- Árni M. Mathiesen hættir sem sjávarútvegsráðherra
- Einar K. Guðfinnsson verður sjávarútvegsráðherra
- Geir H. Haarde verður utanríkisráðherra
- Árni M. Mathiesen verður fjármálaráðherra
- Jón Kristjánsson hættir sem heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra
- Árni Magnússon hættir sem félagsmálaráðherra
- Siv Friðleifsdóttir verður heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra
- Jón Kristjánsson verður félagsmálaráðherra
- Halldór Ásgrímsson hættir sem forsætisráðherra
- Geir H. Haarde verður forsætisráðherra
- Hver verður utanríkisráðherra í stað Geirs?
- Fær Framsóknarflokkurinn ráðherrastólinn sem þeir urðu að fórna þegar Halldór varð forsætisráðherra til baka? Hvaða ráðherra Sjálfstæðisflokksins hættir þá og hvaða framsóknarmaður verður ráðherra í staðinn?