Ríkisstjórn stólaskipta

Mikið hefur gengið á í ráðherraskiptingum síðastliðin 3 ár eins og Magnús Guðmundsson bendir á.

Síðast liðinn fimmtudag fór af stað farsi mikill sem endaði með því að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tilkynnti í gærkvöld að hann hygðist láta af embætti forsætisráðherra á næstu dögum og formennsku í flokknum í haust. Eitthvað virðast spunameistararnir í kringum Halldór hafa klikkað í þetta skiptið. Það hefur varla verið ætlunin að fyrirætlun Halldórs spyrðist út svona snemma og fyrir vikið varð Halldór hreinlega að höggva á hnútinn í gær. Óvissa fram í vikuna hefði lemstrað Framsóknarflokkinn enn frekar. Fram að flokksþinginu í haust eru margar vikur og þær munu væntanlega skaða Framsóknarflokkinn þegar tekist verður á um það hver taki við formennsku í flokknum. Ljóst er að Guðni Ágústsson ætlar að selja sig dýrt og hyggst ekki gefa neitt eftir sbr. fréttatilkynningin sem hann sendi út í gærkvöld eftir blaðamannafund Halldórs.


Þrír stólar á 10 mánuðum

Það lítur allt út fyrir að við fáum á næstu dögum þriðja forsætis- og utanríkisráðherrann á innan við þremur árum. Auk þess munu þeir félagar, Geir Haarde og Árni Mathiesen, setjast í þeirra þriðja ráðherrastól á 10 mánuðum! Slíkt er afar óeðlilegt og minnir helst á stjórnmálaástandið í löndum eins og Ítalíu. Það hlýtur að vera þannig að það taki stjórnmálamenn talsverðan tíma að setja sig inní málefni viðkomandi ráðuneytis þegar þeir taka við forystu þeirra. Ör uppstokkun og stólaskipti eru því einfaldlega ekki af hinu góða og ástandið endurspeglar þá staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir tveir áttu ekki að endurnýja samstarfið eftir seinustu Alþingiskosningar þegar ríkisstjórnin rétt hélt meirihlutanum.


Ríkisstjórnin fyrir löngu komin á endastöð

Í kosningunum fyrir þremur árum tapaði stjórnin rúmlega 8% og fjórum þingsætum. Allt kjörtímabilið hefur togstreitan á milli ríkisstjórnarflokkanna verið sýnilegri en kjörtímabilin á undan. Hugmyndarlega virðist ríkisstjórnin fyrir löngu vera komin á endastöð. Krafturinn og viljinn er uppurinn. Ríkisstjórnin gat t.a.m. ekki komið sér saman fyrir sveitastjórnarkosningarnar um fjölda mála þ.á.m. um Nýsköpunarmiðstöðina og Ríkisútvarpið. Fyrir vikið var ákveðið að fresta þinginu fram fyrir kosningar, en allt kom fyrir ekki. Samstaða ríkisstjórnarflokkanna var slík um frumvörpin sem þingið var hreinlega kallað saman til að samþykkja var frestað á nýjan leik.


Stólaskiptastjórnin
Ríkisstjórn sem hefur ekki stjórn á sjálfri sér getur ekki stjórnað landinu. Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er orðin að ríkisstjórn stólaskipta og hennar verður minnst fyrir það. Annað er hreinlega ekki hægt ef listinn er skoðaður yfir stólaskiptin sem þau hófust 31. desember 2003.

  1. Tómas Ingi Olrich hættir sem menntamálaráðherra
  2. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður menntamálaráðherra
  3. Halldór Ásgrímsson hættir sem utanríkisráðherra
  4. Siv Friðleifsdóttir hættir sem umhverfisráðherra
  5. Davíð Oddsson hættir sem forsætisráðherra
  6. Halldór Ásgrímsson verður forsætisráðherra
  7. Sigríður Anna Þórðardóttir verður umhverfisráðherra
  8. Davíð Oddsson verður utanríkisráðherra
  9. Geir H. Haarde hættir sem fjármálaráðherra
  10. Davíð Oddsson hættir sem utanríkisráðherra
  11. Árni M. Mathiesen hættir sem sjávarútvegsráðherra
  12. Einar K. Guðfinnsson verður sjávarútvegsráðherra
  13. Geir H. Haarde verður utanríkisráðherra
  14. Árni M. Mathiesen verður fjármálaráðherra
  15. Jón Kristjánsson hættir sem heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra
  16. Árni Magnússon hættir sem félagsmálaráðherra
  17. Siv Friðleifsdóttir verður heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra
  18. Jón Kristjánsson verður félagsmálaráðherra
  19. Halldór Ásgrímsson hættir sem forsætisráðherra
  20. Geir H. Haarde verður forsætisráðherra

  1. Hver verður utanríkisráðherra í stað Geirs?
  2. Fær Framsóknarflokkurinn ráðherrastólinn sem þeir urðu að fórna þegar Halldór varð forsætisráðherra til baka? Hvaða ráðherra Sjálfstæðisflokksins hættir þá og hvaða framsóknarmaður verður ráðherra í staðinn?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið