Ályktun: UJ fordæmir stríðsglæpi Ísraels

Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna samþykkti eftirfarandi ályktun um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs:

Ungir jafnaðarmenn fordæma hernaðaraðgerðir ísraelskra yfirvalda á Gaza. Ofbeldið fyrir botni Miðjarðarhafs verður að stöðva, enda bitnar það verst á óbreyttum borgurum.

Ungir jafnaðarmenn fordæma einnig morðin á þremur saklausum ísraelskum ungmennum en benda jafnframt á að siðlaust er að refsa heilli þjóð fyrir þau voðaverk.

Samkvæmt erlendum fjölmiðlum hafa að minnsta kosti 260 Palestínumenn fallið í valinn á síðustu dögum, þar af fjölmörg börn, og fleiri hundruðir særst en almennir borgarar eru mikill meirihluti þeirra sem orðið hafa fyrir barðinu á árásunum. Ísraelsk yfirvöld bregðast við af gífurlegu offorsi og með mun meira afli en eðlilegt getur talist, enda er nú sem endranær um gífurlegan mun á hernaðarstyrk að ræða.

Íslensk stjórnvöld og íslenskur almenningur, sem lengi hefur státað sig af sterkri réttlætiskennd og virðingu fyrir mannréttindum, getur ekki setið hjá á meðan ísraelsk yfirvöld brjóta alþjóðalög og sáttmála ítrekað. Ísraelsk yfirvöld hafa til dæmis gefið það í skyn að farið verði í byggingu fleiri landtökubyggða á palestínsku landi til að hefna atburða undanfarinna daga. Palestínska þjóðin og almennir borgarar í Palestínu verða að fá að njóta vafans, sérstaklega með tilliti til þess gengdarlausa ofbeldis sem þeir hafa þurft að lifa við síðustu 60 árin. Palestínskir borgarar hafa ekki notið réttar til sjálfsákvarðana eða ferðafrelsis, geta ekki sótt sér heilbrigðisþjónustu eða haft greitt aðgengi að vatni, rafmagni eða lyfjum sem og öðrum nauðsynjum sem teljast til sjálfsagðra mannréttinda.

Þá fagna Ungir jafnaðarmenn yfirlýsingu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, en þar kemur fram að þungi ábyrgðar liggi hjá Ísraelsríki, að alþjóðasamfélagið verði að bregðast við og að tveggja ríkja lausn sé lausn sem horfa þarf á til framtíðar. Íslensk stjórnvöld verða að standa með ályktun Alþingis frá desember 2011 þar sem sjálfstæði Palestínu er viðurkennt, en landhernaður Ísraels brýtur í bága við þá ályktun. Íslenska ríkinu ber skylda til að taka af skarið og sýna það hugrekki sem til þarf til að fordæma aðgerðir ísraelskra stjórnvalda og sýna það í verki með því að slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael og leita eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins fyrir frekari þvingunaraðgerðum til að bregðast við stríðsglæpum ísraelskra stjórnvalda.

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand