Stjórnmálaályktun landsþings 2019

Stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna 2019

Aðgerðir gegn hamfarahlýnun

Ungir jafnaðarmenn styðja kröfur loftslagsverkfallsins um að 2,5% af landsframleiðslu verði varið til aðgerða gegn hamfarahlýnun og að íslensk stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. UJ vilja hækka mengunargjöld á stóriðju og skylda málmbræðslur til að innleiða tækni sem fangar og bindur koltvísýring áður en hann blandast andrúmsloftinu. UJ krefjast þess að íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum og leggi fjármuni til aðgerða gegn hamfarahlýnun og loftslagsaðlögun í fátækari ríkjum heims. Ísland á að taka fólki opnum örmum sem neyðist á flótta vegna afleiðinga hamfarahlýnunar. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á að fjármagna með skattlagningu á stóriðju og auðmagn frekar en almenning.

Stöðvum brottvísanir

Ungir jafnaðarmenn gagnrýna harðlega stefnu íslenskra stjórnvalda í garð hælisleitenda. Enn eru íslensk stjórnvöld að vísa fólki burt til Ítalíu og Grikklands, þar sem flóttafólk býr við mikla óvissu og slæm lífsskilyrði. Hælisleitendur á Íslandi búa við mikla einangrun og hafa takmarkaðan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Fjölmörg dæmi eru um að hælisleitendur hafi reynt að svipta sig lífi að undanförnu. Ungir jafnaðarmenn styðja baráttu samtakanna Refugees in Iceland fyrir mannúðlegri stefnu gagnvart hælisleitendum, en kröfur þeirra eru eftirfarandi:

  • brottvísunum verði hætt, sérstaklega til landa þar sem aðstæður eru óviðunandi
  • allar umsóknir um alþjóðlega vernd fái efnislega meðferð
  • hælisleitendur fái tímabundið atvinnuleyfi meðan umsókn þeirra er til meðferðar
  • hælisleitendur fái jafnan aðgang að íslensku heilbrigðiskerfi
  • einangrunarbúðunum að Ásbrú verði lokað 

Þá lýsa Ungir jafnaðarmenn djúpum vonbrigðum með viðhorf Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýs dómsmálaráðherra, til málefna hælisleitenda, en hún hefur sagt stefnu stjórnvalda í málaflokknum mannúðlega. Fátt bendir til þess að breyting verði á stefnunni í tíð sitjandi ríkisstjórnar. 

Of mikið fyrir einkabílinn

Ungir jafnaðarmenn fagna því að fyrstu áfangar borgarlínu hafi verið tímasettir og fjármagnaðir í samgöngusamkomulagi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. UJ gagnrýna hins vegar áherslu samkomulagsins á vegaframkvæmdir, en samkvæmt samkomulaginu eiga 52,2 milljarðar að renna til stofnvega á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Þessar framkvæmdir eru til þess fallnar að auka bílaumferð, þvert á loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og markmið aðalskipulags Reykjavíkur um að notkun einkabílsins dragist saman. UJ hvetja til þess að stærri hluti upphæðarinnar renni til almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga en nú er gert ráð fyrir. Þá gagnrýna UJ hve stór hluti fjármögnunar verkefnanna á að koma frá innheimtu veggjalda, en veggjöld eru ósanngjörn skattheimta sem leggst þyngst á fólk með lægstar tekjur., Auk þess eru fram komnar hugmyndir um veggjöld ótímabærar á meðan enn er beðið eftir úrbótum á almenningssamgöngum. Innviði á fyrst og fremst að fjármagna með réttlátu skattkerfi og auðlindagjöldum. 

Löngu tímabær rannsókn

Ungir jafnaðarmenn fagna þingsályktunartillögu Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um skipan rannsóknarnefndar um Guðmundar- og Geirfinnsmál. Þó að fjöldi vitnisburða og gagna sýni fram á ólöglegar rannsóknaraðferðir og ómannúðlega meðferð lögreglu, ákæruvalds og dómstóla á fyrrum dómþolum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, þá hafa opinberir aðilar aldrei rannsakað til hlítar þann þátt málsins. Á meðan hið opinbera neitar að rannsaka þau grófu mannréttindabrot sem fyrrum sakborningar í málinu urðu fyrir af hálfu íslenska ríkisins þá er málið enn óuppgert og hvílir eins og mara á íslensku þjóðinni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand