Nýfrjálshyggjunni mótmælt í Chíle – viðtal

Mótmælafundur á Austurvelli. Mynd: Alo Silva Muñoz

Chíle hefur logað í mótmælum í rúma viku og mikið hefur verið fjallað um óeirðirnar í heimsfjölmiðlum. Þá hefur ekki síst vakið athygli sú ákvörðun Sebastiáns Piñera forseta um að lýsa yfir herlögum í landinu og beita hervaldi til að kveða niður mótmælin, sem voru í upphafi gegn verðhækkun á lestarmiðum en hafa fljótt tekið á sig víðari mynd. Hér tjáir Alondra Silva Muñoz, meðlimur í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna, sig um ástandið í gamla heimalandinu sínu og um undirliggjandi vandamálin sem steðja að chíleskum borgurum.

„Ég kem úr miðstéttarfjölskyldu og fjölskylda mín hefur enga reynslu af völdum, auðæfum eða forréttindum. Það eina sem ég veit er að afar mínir og ömmur áttu ekkert, foreldrar mínir eiga mjög lítið og gátu aðeins látið mig fá sáralítið. Ef ég byggi enn í Chíle væri allt við það sama því það er aðeins hægt að vinna sig mjög skammt upp samfélagsstigann,“ segir Alo.

Margra ára aðdragandi

„Maður verður að hafa sögu Chíle í huga þegar maður talar um landið,“ segir Alo. „Það er ekki hægt að einblína bara á það sem er að gerast akkúrat núna, heldur verður maður að líta á það sem á undan er gengið. Það sem gerðist var að í byrjun áttunda áratugarins var fyrsti lýðræðislega kjörni sósíalíski forseti heims kjörinn í Chíle. Hann sat við völd í þrjú ár, þar til herinn steypti honum af stóli. Herforingjarnir unnu með Bandaríkjunum og öðrum stofnunum og það tók við sautján ára langt einræðistímabil í Chíle sem var meðal hinna blóðugustu í sögunni. Síðan var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla árið 1989 til að koma aftur á lýðræði – en þið getið ímyndað ykkur hvers lags skaða 17 ára einræðisstjórn veldur á lýðræði, á landi, á stjórnarskrá, á nánast öllum afkimum samfélagsins, öllu frá stjórnmálunum til lagakerfisins.“

„Til dæmis var menntakerfið einu sinni ríkisfjármagnað en það er það ekki í dag. Meira að segja almenningsháskólar fá ekkert fjármagn frá hinu opinbera, bara greiðslur frá nemendunum. Það sama gildir um heilbrigðisþjónustuna. Almenningsheilbrigðisþjónustur eru til að nafninu til en þær fá nánast ekkert fjármagn. Þetta er allt út af lagasetningum sem urðu til á einræðistímabilinu. Það var búið þannig um hnútana að valdastéttirnar gætu haldið í völdin næstu áratugina. Það kemur mörgum verulega á óvart að einræðisherrann, Augusto Pinochet, átti sæti á chíleska þinginu nánast þangað til hann dó. Hver einasti fyrrum forseti fékk að sitja ævilangt á þinginu. Ímyndið ykkur bara ef einræðisherra sæti á þinginu ykkar og kysi um lagafrumvörp!“

Stjórnir af ýmsum toga hafa komið og farið frá því að lýðræði var komið á í Chíle en Alo segir enga þeirra hafa komist að rót þeirra vandamála sem steðja að landinu. „Maður verður líka að hafa í huga hversu flókin stéttskiptingin er í Rómönsku Ameríku. Flestir leiðtogar vinstriflokkanna fóru í sömu skóla og háskóla og hægrisinnuðu leiðtogarnir og eru í þokkabót gamlir vinir þeirra. Frá því að við fengum aftur lýðræði höfum við haft tvo miðjumenn sem forseta, síðan tvo vinstrimenn, síðan hægrimanninn Sebastián Piñera, síðan vinstrimann aftur og núna er Piñera aftur forseti. Það hafa einhverjar breytingar verið gerðar á þessum tíma á almannaþjónustum og þess háttar, en engar meiriháttar umbætur á þeim sviðum sem samfélagið er farið að krefjast.“

Ekki spurning um flokka

„Það verður líka að hafa í huga að samfélagið allt er ennþá í sárum. Þegar ég var í menntaskóla leyfðu foreldrar mínir mér ekki að fara út að mótmæla af því að þau mundu hvernig hafði verið tekið á slíku á tíma einræðisins. Þær breytingar sem stjórnmálastéttin hefur gert hafa lítið hjálpað miðstéttunum því stjórnmálamennirnir eru allir úr efri stéttunum. Um leið hefur samfélagið verið hrætt við að mótmæla þeim. Þetta safnast allt saman, og svo kvarta stjórnmálamennirnir líka undan því að breytingatillögur þeirra strandi alltaf á þinginu, sem er mjög íhaldssamt og hægrisinnað, enda hefur stjórnarskránni verið breytt til að halda því þannig.“

„Staðan í Chíle er svipuð Íslandi að því leyti að fólk treystir stjórnmálastéttinni almennt ekki. Þetta snýst ekki um flokka, heldur finnst fólki stjórnmálamennirnir allir eins. Þeim finnst þeir ekki hlusta á þau eða tengja við þau. Ég efast um að forsetinn hafi nokkurn tímann stigið fæti inn í strætó. Hann fór ekki í almenningsháskóla og skilur því ekkert hvað fólkið sem hann ræður yfir þarf að etja við. Það gera hinir stjórnmálamennirnir ekki heldur.“

Aðspurð hvort veruleg umskipti hafi orðið á milli stjórnartíða Piñera og forvera hans í forsetaembætti, miðvinstrikonunnar Michelle Bachelet, sem var forseti árin 2006 til 2010 og 2014 til 2018, svarar Alo neitandi. „Þessi mótmæli hófust eiginlega þegar Michelle Bachelet var kjörin forseti í fyrra sinn. Líkt og margar samfélagshreyfingar hófst þetta með nemendunum. Það var mín kynslóð, þegar ég var í menntaskóla árið 2006, sem fór út á götur til að krefjast umbóta í menntakerfinu, og þá snerist þetta um menntaskólana. En Bachelet gerði engar stórtækar breytingar. Síðan byrjaði kynslóðin mín í háskóla og fór aftur út á göturnar til að krefjast betri háskólamenntunar, því námsgjaldið í almenningsháskóla í Chíle er með því hæsta sem gerist í heiminum. Þá var Piñera orðinn forseti og það var miklu auðveldara fyrir samfélagið að styðja mótmæli gegn einhverjum sem var svona langt fyrir ofan okkur. Þið verðið að skilja að Piñera er einn af ríkustu mönnum í heimi. Hann hefur átt sjónvarpsstöð, fjölmiðlafyrirtæki og ýmislegt fleira. Þegar hann varð forseti í fyrra skiptið varð mikil samfélagsólga árið 2011 og 2012 og þetta gerði það aðeins auðveldara fyrir Bachelet að koma á nokkrum breytingum í menntamálum þegar hún varð aftur forseti. Það voru gerðar einhverjar breytingar á menntakerfinu til að auka opinber framlög til þess, en það varð samt ekki ríkisfjármagnað að fullu. Síðan gerðist það einhvern veginn, og ég skil enn ekki af hverju – ég var þegar flutt til Íslands og gat ekki kosið – að Piñera var aftur kjörinn forseti.  Ég held að það hafi verið því það var engin sterk forysta á vinstri væng stjórnmálanna, en leiðtogaskipti höfðu reyndar aldrei skipt sköpum í mínu lífi.

Chíle hefur vaknað

Chíle er langt því frá eina ríkið í Suður-Ameríku sem hefur logað í illdeilum og pólitískum óstöðugleika á síðustu mánuðum og árum. Fjöldamótmæli hafa nýlega farið fram í Ekvador, Perú og Bólivíu auk þess sem ríkisstjórn Argentínu stendur höllum fæti. Þá leiddi langvarandi óánægja almennings með spillingu stjórnvalda í Brasilíu til þess að öfgahægrimaðurinn Jair Bolsonaro var þar kjörinn forseti í fyrra og Alo segir ástandið þar að nokkru leyti kallast á við heimaland sitt.

„Það er áhugavert að líta á ástandið í álfunni,“ segir Alo. „Ég hef til dæmis mjög blendnar tilfinningar til þess sem er að gerast í Brasilíu. Mér þykir mjög vænt um Brasilíu því ég hef búið þar og á ættingja þar, en þar stefnir allt í öfuga átt við Chíle. Sumar kveikjurnar að ástandinu þar voru hinar sömu, en samfélagið þar hefur komist að allt öðrum niðurstöðum en við í Chíle. Í Chíle höfum við verið að mótmæla nýfrjálshyggju, endalausri einkavæðingu og því að vera stöðugt kreist eins og sítrónur, en í Brasilíu er þetta öfugt – þar er fólk að mótmæla vinstrinu. Eins og ég segi er það bara spurning um hugmyndafræði, en þar enduðu þau með því að kjósa mann eins og Bolsonaro, sem er úr hernaðarstéttinni, hatast út í hinsegin fólk, segir að hann myndi drepa son sinn ef hann væri samkynhneigður og segir konu að hann myndi ekki nauðga henni af því að hún sé of ljót! Ástandið í Brasilíu var mjög erfitt frá árinu 2013 og þegar ólgan þar hófst var áhugavert að fylgjast með henni, því fólk notaði sömu myllumerkin og er núna verið að nota í Chíle. Fólk skrifaði færslur með myllumerkinu „Brasilía hefur vaknað“ og núna er fólk að skrifa „Chíle hefur vaknað“ hjá okkur. Það er ótrúlegt að þetta slagorð sé notað beggja megin á pólitíska litrófinu.“

Alo segist þó efast um að mótmælin í Chíle endi með valdatöku manns á borð við Bolsonaro. „Fólk hefur verið að mótmæla í rúma viku og viðbrögð stjórnarinnar hafa einkennst af örvæntingu. Stjórnvöld vita ekkert hvað þau eiga að gera og það hefur ekki farið fram hjá neinum. Í fyrsta sinn er ég að heyra fólk sem hefur eytt allri ævi sinni í sjónvarpsáhorf segja að blaðamenn og fjölmiðlar séu ekki að tala fyrir þau og fara á samfélagsmiðla til að sjá hvað gengur á í raun. En það er engin ákveðin miðstjórn eða forysta að myndast úr þessu. Þetta er bara borgarasamfélagið að skipuleggja aðgerðir í hverfum og úthverfum. Ég efast um að nokkur ein forysta sé heldur að fara myndast á hinum kantinum, því herinn og pólitíska hægrið er klofið. Piñera nýtur ekki stuðnings sinna eigin flokksmanna og jafnvel æðsti yfirmaður hersins styður hann ekki. Í síðustu viku sagði forsetinn að landið væri í stríði en síðan svaraði yfirmaður hersins því fáeinum klukkustundum síðar að hann ætti ekki í stríði við neinn. Ég held ekki að fólk sé heimskt. Chílemenn hafa opnað augun og sjá nú leikina sem er verið að spila með þá.“

Mótmælafundur á Austurvelli. Mynd: Alo Silva Muñoz

Brauðmolum kastað til fólksins

„Fólk er að mótmæla öllu,“ segir Alo um markmið mótmælanna. „Þetta byrjaði með almenningssamgöngum en hefur farið út í lífeyri og nú er fólk farið að mótmæla vegatollum og þess háttar. Á Twitter sér maður alls kyns slagorð eins og „ Piñera, segðu af þér!“, „Chíle hefur vaknað!“ og „Chíle brýtur mannréttindi!“. Þau eru alltaf að breytast því að fólk er ekki bara að biðja um einhvern einn ákveðinn hlut. Ég hef fylgst með Twitter-síðu forsetaembættisins og hvernig er verið að reyna að koma til móts við mótmælendur. Þar sá ég til dæmis að þeir höfðu hætt við verðhækkunina á lestarmiðunum, sem var kveikjan að þessu öllu saman, og voru líka að leggja fram tillögur á sviðum eins og samgöngum, heilsugæslu og menntun, en ég held ekki að það nægi. Það fyrsta sem þarf að gera er að kalla herinn af götunum. Það að hermenn séu að marsera um strætin að pynta og drepa fólk er algjörlega óásættanlegt.“

„Nú er herinn búinn að vera úti á götum í viku og hermennirnir eru þreyttir. Þeir vilja ekki vera þarna að berjast á móti sinni eigin þjóð. Ríkið er að leita að fólki til að leysa þá af og kallar alla með herþjálfun út til að berjast gegn eigin nágrönnum, eigin ættingjum og eigin vinum. Auðvitað vill enginn gera það. Þegar búið er að binda enda á neyðarlögin verður stjórnin að fara með tillögur sínar og láta lögfesta eitthvað af þessum frumvörpum sem enginn þingmaður hefur svo mikið sem yrt á, hvað þá kosið um. Mætingin á chíleska þinginu er blátt áfram til skammar. Þingmennirnir mæta oft ekki á þingfundi, lesa aldrei lagafrumvörpin og greiða aldrei atkvæði um þau.“

„Ég held að það hlutirnir muni og verði að breytast, því fólkið mun ekki hætta fyrr en breytingar hafa verið gerðar,“ segir Alo aðspurð hvort hún sé vongóð um að mótmælin muni skila árangri. „Forsetinn er örvæntingarfullur, en hann verður að gera miklu meira ef hann vill friðþægja þjóðina. Innanríkisráðherrann hans, Chadwick, er til dæmis mikill stuðningsmaður Pinochets. Hvernig finnst ykkur það líta út í lýðræðisríki? Ímyndið ykkur ef að sitjandi ráðherra á Íslandi styddi Hitler! Það eina sem stjórnin hefur gert hingað til er bara að kasta brauðmolum til Chílemanna, litlum bitlingum sem munu hafa lítil áhrif. Nú hefur stjórnin t.d. lýst yfir að hún ætli að hækka lágmarkslaun úr 400 dollurum í 470. Hverju heldurðu að 70 dollarar breyti á heimili einstæðrar móður með þrjú börn? Hvað á hún að gera við 70 dollara á mánuði? Stjórnin verður virkilega að rýna í kröfur samfélagsins og skilja hverju bágstöddustu hlutar þess þurfa mest á að halda.“

Ábyrgðarleysi fjölmiðla

„Helsta ástæðan fyrir því að ég er að tjá mig núna er sú að íslenskir fjölmiðlar hafa ekki dregið fram rétta mynd af ástandinu í Chíle,“ segir Alo að lokum. „Íslendingar flestir vita lítið um landið, jafnvel ekki hvort það ætti að skrifa nafn þess með S-i eða Ch-i. Mér sárnar það ógurlega að fjölmiðlar hafa oft ekki haft fyrir því að kynna sér aðstæðurnar sem er verið að fjalla um. Þeir átta sig ekki á því að það eru 18 milljónir manns í Chíle sem búa við verulega tvískipt og óréttlátt samfélag og virðast bara beinþýða umfjallanir af Fox News yfir á íslensku. Mér finnst það verulegt ábyrgðarleysi. Fjölmiðlar bera gríðarlega ábyrgð með því hvernig þeir hafa áhrif á skoðanir og hugsunarhátt fólks með myndunum og textanum sem þeir birta. Í Chíle er samfélagið að gera sanngjarnar kröfur en ríkið bregst við með því að pynta fólk og drepa það. Vopnaðir hermenn eru þarna úti á götunum að misþyrma fólki, og fólkið ver sig með pottum, pönnum og skeiðum. En ef Íslendingar lesa t.d. Fréttablaðið og sjá bara myndir þar sem æstur múgur er að brenna strætisvagn án þess að neitt samhengi sé gefið í textanum er ekki hægt að áfellast þá fyrir að komast að tilteknum niðurstöðum. Þetta er skelfilegt ástand, og íslenskir fjölmiðlar eru ekki að fjalla um það á ábyrgan hátt.“

Eftir að þetta viðtal var tekið komu um 2,1 milljón manns saman í Santiago til þess að mótmæla ríkisstjórninni. Piñera forseti hefur aflétt útgöngubanni í helstu borgum landsins og áætlað er að hermenn verði kallaðir af vettvangi á morgun. Þá hefur Piñera lýst yfir uppstokkun í ríkisstjórn sinni.

Þorgrímur Kári Snævarr tók viðtalið.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand