Stjórnmálaályktun af landsþingi UJ 2005 – Utanríkismál

Evrópumál
Ungir jafnaðarmenn hvetja Íslendinga til að líta Evrópu- og alþjóðasamstarf jákvæðari augum. Í ljósi mikilla sviptinga í Evrópu er mikilvægara en aldrei fyrr að Íslendingar heltist ekki úr lestinni í alþjóðavæðingunni, og taki virkan þátt í utanríkisstarfsemi. Ella getur þröngsýni og hræðsla við að stíga stærri skref í milliríkjasamskiptum leitt til einangrunar með tilheyrandi vandamálum, hvort sem er á sviði viðskipta, samfélags- eða menningarmála.

Ungir jafnaðarmenn mótmæla harðlega utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar, sér í lagi hvað varðar nálgun við Evrópusamfélagið og ljóst er að nýrrar stefnumótunar er þörf. Ungir jafnaðarmenn vilja að Ísland gangi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið með það að markmiði að þjóðin öðlist kost á að skera úr um nánustu framtíð Íslands í Evrópusamfélaginu. Með aðildarviðræðum myndu hagtölur sem okkur varða og aðrir samningsskilmálar Íslands verða mun áreiðanlegri. Það er réttur þjóðarinnar að fá að skera úr um Evrópusambandsaðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðismenn sem og aðrir andstæðingar Evrópusambandsaðildar Íslands verða að bera virðingu fyrir vilja þjóðarinnar til að velja og hafna og stunda því beint lýðræði í raun. Það er hlutverk þjóðarinnar, en ekki stjórnmálafólks og ráðamanna, að taka slíkar ákvarðanir.

Ungir jafnaðarmenn skora á þingflokk Samfylkingarinnar að taka Evrópuumræðuna í sínar hendur. Á undanförnum árum hefur umræðan um hugsanlega Evrópusambandsaðild Íslands einkennst af ótrúverðugri neikvæðni ýmissa hagsmunahópa og stjórnmálamanna sem skekkt hefur sýn almennings á raunveruleg tækifæri Íslands sem smáþjóðar innan ESB. Þingflokkur Samfylkingarinnar ber hér verulega ábyrgð á málefnalegri Evrópuumræðu, og verður því miður að telja að hún hafi þurft að mæta afgangi. Það er ekki að undra að takmörkuð þekking almennings á Evrópumálum skuli vera landlægur sjúkdómur þegar forsvarar umræðunnar sofna á verðinum. Ungir jafnaðarmenn skora á flokksforystuna og framtíðarhóp Samfylkingarinnar að taka Evrópuumræðuna í sínar hendur. Það er ólíðandi að horfa á vanrækslu þessara mála hjá þeim stjórnmálaflokki sem á að hafa tekið eindregna afstöðu með aðildarviðræðum. Það er einlæg von UJ að jákvæð Evrópuumræða- og fræðsla verði áberandi á næstu þingárum, og umsókn að ESB verði eitt helsta kosningamál alþingiskosninga 2007.

Utanríkismál
Utanríkisþjónusta Íslands hefur þanist gríðarlega á síðustu árum og áratug. Ungir jafnaðarmenn telja þenslu utanríkisþjónustunnar óhjákvæmilega með aukinni alþjóðavæðingu. Í þessari þenslu er þó mikilvægt að missa ekki sjónar á markmiði utanríkisþjónustunnar, þ.e. að stuðla að heildarhagsmunum Íslendinga hvort sem þar er um að ræða þjónustu við einstaka ríkisborgara erlendis, milliríkjasamninga eða aðgerðir til áhrifa í alþjóðasamfélagi. Til þess að ná fram hagkvæmni í rekstri utanríkisþjónustunnar verður að nýta þau tengsl sem við höfum við hin Norðurlöndin betur. Með því að vera hluti af samnorrænum sendiráðum eða gera jafnvel þjónustusamninga við utanríkisþjónustu annarra Norðurlanda væri hægt að spara miklar fjárhæðir sem annars færu í að halda uppi fámennum sendiskrifstofum eða sendiráðum. Sá peningur sem myndi sparast við slíkar skipulagsbreytingar gæti svo nýst til áhrifa á alþjóðavettvangi, til að mynda innan SÞ.

Á undanförnum árum hefur ríkt viðvarandi óvissuástand um veru varnarliðsins hér á landi og Ungir jafnaðarmenn harma það aðgerðarleysi sem einkennt hefur stjórnvöld í málefnum þess. Það er öllum ljóst að áhugi Bandaríkjamanna að halda úti herliði á Íslandi er ekki fyrir hendi enda kalda stríðinu lokið og gjörbreytt heimsmynd blasir við. Það er kominn tími til þess að íslensk stjórnvöld átti sig á því að Bandaríkjamenn hafa ekki áhuga að halda úti herliði hér lengur. Bandaríkjamenn standa í ströngu í Írak tæpum tveimur árum eftir að George Bush lýsti yfir sigri, í stríði sem íslensk stjórnvöld lögðu blessun sína yfir. Síðan þá hafa um 2000 bandarískir hermenn fallið og 15.000 særst. Þetta hefur gert það að verkum að Bandaríkjamenn hafa þurft að draga úr hernaðarrekstri á friðarsvæðum og flytja til hersveitir á átakasvæði. Þrátt fyrir öll vandræði og yfirgang bandarískra stjórnvalda þá ber það við að íslensk stjórnvöld ríghalda í veru hersins á Íslandi. Rökin felast í að tryggja verði varnir landsins með nægjanlegum hernaðarmætti. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að herstöðin var sett upp hafa Íslendingar hlotið margskonar fjárstuðning frá bandarískum yfirvöldum t.d. við uppbyggingu vegakerfis og flugvallar. Það er í raun aumkunarvert að horfa á íslenska stjórnarerindreka fara hverja ferðina á fætur annarri til Washington til þess eins að grátbiðja um áframhaldandi félagsmálaaðstoð frá Bandaríkjunum.

Varnarmál
Sú óvissa sem ríkt hefur í varnarmálum landsins kemur í veg fyrir að hægt sé að skapa framtíðarsýn í atvinnu- og öryggismálum. Vera Íslands í NATO gefur Íslendingum færi á að beina NATO í átt að friði og starfi í átt að auknu lýðræði í heiminum. Leggja Ungir jafnaðarmenn til að skipuð verði nefnd er gerir úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi þar sem meðal annars skilgreint verður hver lágmarks varnarþörf landsins er. Ungir Jafnaðarmenn leggja áherslu á að Ísland sé herlaus þjóð og hafna Ungir jafnaðarmenn með öllu stofnun íslensks hers. Það er kominn tími til að Íslendingar axli meiri ábyrgð fjárhagslega í varnar- og öryggismálum landsins og telja Ungir jafnaðarmenn í því samhengi að skoða eigi þann möguleika hvernig Evrópusambandsaðild myndi snerta varnarhagsmuni þjóðarinnar.

Norrænt samstarf
Ungir jafnaðarmenn telja að norrænt samstarf sé einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Hefur þetta samstarf verið Íslendingum ómetanlegt í gegnum tíðina og þó að eðlilegt sé að það þróist í samræmi við tíðarandann, þá yrði að telja það mikil mistök að draga úr því. Endurskoðun á starfsemi þeirra stofnanna og ráða þar sem þetta samstarf fer helst er fullkomlega eðlilegt og væri ráð að nýta það ferli til að laga starfsemina að breyttum aðstæðum og efla hana í samræmi við þær. Þó að heimsmyndin sé breytt þá eiga þessar þjóðir samleið m.a. vegna sameiginlegrar sögu og menningar. Þar sem Norðurlöndin eru þau ríki sem hvað lengst eru komin í þróun lýðræðis, mannréttinda og almennrar velmegunar verður að telja eðlilegt að þau starfi saman með það að markmiði að styðja við aðra heimshluta og vera leiðandi afl í þróun heimsmála. Það metnaðarfulla starf sem unnið hefur verið á vettvangi Norðurlandaráðs er einstakt og á að leita allra leiða til þess að styrkja það á þann hátt að það geti tekist á við verkefni morgundagsins.

Ísland á að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi. Það er ekki íbúafjöldi þjóða sem ræður úrslitum um hvort að þjóð eigi erindi inn á alþjóðlegan vettvang þar sem að öryggis-, lýðræðis- og mannréttindamál eru til umræðu, heldur ráða þar frekar innviðir samfélagsins eins og siðmenning, menntunarstig, efnahagsleg afkoma, lífsskilyrði o.s.frv. Út frá þessum þáttum má draga þá ályktun að Ísland eigi fullt erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Það liggur beint við að þjóð sem ekki heldur úti her og lýsir sér sem friðelskandi þjóð hlýtur að eiga fullt erindi á vettvang þar sem að ákvarðanir um stríð, frið og frelsi þjóða eru teknar. Þjóðin stundar ekki vopnaframleiðslu og hefur þar af leiðandi ekki beina né óbeina hagsmuni af stríðsrekstri. Ætti það að ýta undir að ákvarðanir Íslands myndu byggjast á mannúðarsjónarmiðum og pólitískar lausnir yrðu teknar fram yfir hernaðarlegar. Sérstaða Íslands liggur fyrst og fremst í sögu þjóðarinnar þar sem að þjóðin stendur öðrum þjóðum framar þegar kemur að velferðarmálum og lýðræðishefð. Ísland hefur komið ár sinni vel fyrir borð í heiminum án þess að ógna öðrum þjóðum og getur verið öðrum þjóðum fyrirmynd þegar kemur að almennri velmegun og mannréttindum. Íslendingar ættu að geta lagt sitt af mörkum til að auka frið og mannréttindi í heiminum. Viðhorf um að of mikill kostnaður feli í framboði til Öryggisráðsins gera lítið úr þeirri sjálfsstæðisbaráttu sem Íslendingar hafa háð en mun framboð Íslands styrkja sjálfstæði og ábyrgð þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi. Alþjóðlegt samstarf gefur stjórnmálamönnum og stjórnsýslu tækifæri til þess að læra og öðlast reynslu úr umhverfi þar sem að samningar og viðskipti á alþjóðlegum vettvangi á sér stað. Ísland getur ekki sent þau skilaboð til alþjóðasamfélagsins að þjóðin vilji ekki sjá á eftir fjármagni til þess að vera virk í umræðu og ákvarðanatökum er snerta mannréttindi og öryggi. Slíkt er ekki sjálfstæðri þjóð sæmandi né til framdráttar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand