Stjórnmálaályktun af landsþingi UJ 2005 – Menntamál

Menntun leiðir til aukins frelsis til þátttöku í samfélaginu og skapar grundvöll fyrir fjölbreytilegu þekkingarsamfélag. Menntun er eitt sterkasta jöfnunartæki í nútímasamfélagi. Það er mikilvægt að tryggja að sem flestir njóti menntunar og öðlist þannig betri forsendur til þess að skapa sér og sínum betra líf. Jöfnuður og samhjálp eru besta leiðin til þess að allir þegnar samfélagsins njóti frelsis. Því á menntun að vera ókeypis á öllum skólastigum.

Nauðsynlegt er að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Of stór hluti þjóðarinnar lýkur nú aðeins grunnskólaprófi og hefur því takmarkaða möguleika til að afla sér formlegrar menntunar seinna í lífinu.

Nauðsynlegt er að ríkið tryggi sveitarfélögum nægt fjármagn til þess að geta staðið undir öflugu skólastarfi og geti greitt þeim sem sinna uppeldis- og kennslustörfum mannsæmandi laun.

Nauðsynlegt er að skólar á Íslandi bjóði öllum nemendum í grunnskólum og framhaldsskólum nám við hæfi og mæti þörfum nemenda í samræmi við forsendur þeirra, getu og áhugasvið. Skólakerfið þarf að mæta ólíkum hagsmunum nemenda í samræmi við námsstöðu þeirra, hæfileika og þarfir. Til að hægt sé að ná markmiðum um einstaklingsmiðað nám þarf að breyta grunnskólalögunum og draga úr vægi samræmdra prófa eða sleppa þeim alfarið. Gera á framhaldsskólum kleift að sinna mismunandi áhuga- og hæfileikasviðum nemenda með auknu framboði á verknámi, listnámi og íþróttum.

Forsenda fyrir því að Ísland verði þekkingarsamfélag í fremstu röð er gott nám og til þess þarf vel menntaða og hæfa kennara. Bjóða þarf upp á endurmenntun fyrir kennara og skólastjórnendur sem geri þeim kleift að þróa skólastarfið. Í ljósi þeirra krafna sem gerðar eru til kennara sem fagmanna er full ástæða er til að lengja námið.

Skoða má mismunandi rekstrarform á menntastofnunum. Frumskilyrði er að hagkvæmt sé að fela einkaaðilum framkvæmdina og tryggt sé að sú þjónusta sem einkaaðilar veita sé að minnsta kosti jafngóð og sú þjónusta sem opinberir aðilar veita Slíkt gerir hins vegar auknar körfur um skýrar reglur. Grundvallaratriði er að leikreglur lýðræðis, jafnréttis og samábyrgðar séu hafðar að leiðarljósi. Skólar sem reknir eru af hinu opinbera annars vegar og einkaaðilum hins vegar verða að sitja við sama borð.

Ungir jafnaðarmenn vilja að tækifæri til náms verði jöfnuð með allri þeirri tækni sem möguleg í samfélaginu í dag. Nálgun námstækifæra fyrir landsbyggðina hlýtur að vera eitt stærsta byggðarmál okkar tíma.

Leikskólar
Leikskólavist á að vera gjaldfrjáls. Gera á seinasta árið í leikskóla að skyldu og hefja það nám sem nú er kennt í grunnskóla ári fyrr. Gjaldfrjáls leikskóli ýtir undir atvinnuþátttöku kvenna.

Sumarlokanir leiksskóla ber að afnema enda þurfa foreldrar að hafa sveigjanleika í því hvenær þeir geta tekið sér frí.

Framhaldsskólar
Ungir jafnaðarmenn hafna upptöku samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum landsins þar sem þau vinna gegn fjölbreytni á framhaldsskólastigi. Framhaldsskólum er fullkomlega treystandi til að bjóða upp á gott nám án þess að nauðsynlegt sé að halda samræmd stúdentspróf.

Nauðsynlegt er að efla starfsnám og styttri námsbrautir. Allt of mikið hefur verið lagt upp úr bóknámi á kostnað iðn,- verk,- og listnáms. Afleiðingarnar er t.d. himinhátt brottfall sem á sér ekki hliðstæðu í hinum vestræna heimi. Sóunin og skaðinn fyrir einstaklinginn er mikill, enda vandratað aftur inn í skólastofurnar eftir langa fjarveru.

Einhæft námsframboð í framhaldsskólum leiðir til þess að margir finna ekki nám við sitt hæfi. Hefur það þær afleiðingar að nemendur hverfa úr námi og leiðir það til þess að menntunarstig á Íslandi er lágt í samanburði við önnur lönd.

Nauðsynlegt er að mörkuð verði ítarleg stefna til eflingar starfsnáms og styttri námsbrauta. Þetta er á meðal brýnustu verkefna menntamálanna og undirstaða þess að marka framhaldsskólastiginu stefnu til framtíðar. Allt starfsnám og styttri námsbrautir eiga að nýtast námsmönnum síðar meir ef þeir kjósa að fara í frekara nám.

Auka þarf áherslu á iðngreinar og virðingu þeirra. Iðnnám er ein mikilvægasta menntun sem einstaklingur getur náð sér í og yfirleitt er mjög ábótasöm. Það þarf að fjölga nemendum sem sækja í iðnnám og snúa við þeirri óheillaþróun sem er að eiga sér stað með ört fækkandi iðnnemum. Réttindi iðnnema eru oft á tíðum ekki virt og þau kjör sem iðnnemar búa við eru oft til skammar.

Háskólar
Ungir jafnaðarmenn hafna alfarið skólagjöldum við opinbera háskóla. Tryggja verður öllum auðvelt aðgengi að háskólanámi. Við viljum búa í þekkingarsamfélagi í fremstu röð og því er það skilda hins opinbera að bjóða upp á hágæða nám til að halda uppi háu menntunarstigi þjóðarinnar. Menntun er besta frelsis og jöfnunartæki samfélagsins og það er aldrei ásættanlegt að efnahagur stýri því hvort fólk stundi háskólanám. Jafnrétti til náms á háskólastigi er lykillinn að betra þjóðfélagi.

Ungir jafnaðarmenn gagnrýna fyrirkomulag fjárveitinga til menntastofnana á háskólastigi þar sem einkaskólarnir fá sömu fjárveitingar og ríkisskólarnir á hvern nemanda en hafa heimild til innheimtu skólagjalda ofan á það. Nú er staðan sú að einkaskólarnir fá meira greitt að meðaltali frá ríkinu en ríkisskólarnir. Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar nemendum fyrir skólagjöldunum og er stór hluti lánanna í raun styrkur. Þetta fyrirkomulag er einsdæmi á Norðurlöndunum og er ögrun við hugmyndir um jafnrétti til náms. Hættan er sú að annaðhvort verða ríkisháskólarnir smá saman annars flokks og besta menntunin verði eingöngu á færi hinna efnameiri, eða að allt háskólastigið færist smám saman í heild sinni inn á braut skólagjalda. Mikilvægt er að tryggja ríkisháskólunum sem innheimta ekki skólagjöld viðunandi samkeppnisstöðu.

Ungir jafnaðarmenn vilja leggja mikla áherslu á uppbyggingu háskólastigsins á Íslandi og er þar sérstaklega mikilvægt að efla rannsóknir og framhaldsnám við háskóla á Íslandi. Ríkið verður að leggja til aukna fjármuni, því vísindarannsóknir við háskóla er lykilþáttur í framþróun íslensks samfélags. Kröftug uppbygging háskóla hér á Íslandi er grundvallarforsenda fyrir því að háskólamenntaðir Íslendingar kjósi að búa á Íslandi til framtíðar og leggja íslensku samfélagi lið með vinnu- og vísindaframlagi sínu.

Tæplega þriðjungur nemenda sem hefja nám við Háskóla Íslands útskrifast ekki. Það er sterk vísbending um það að námsmenn búi ekki við nógu góð kjör. Ungir jafnaðarmenn vilja því að halda áfram að bæta kjör námsmanna. Núverandi lán er enn langt undir áætlaðri framfærsluþörf námsmanna.

Mikið óöryggi og álag fylgir núverandi fyrirkomulagi á greiðslu námslána fyrirkomulagi fyrir námsmanninn og fjölskyldu hans. Umsækjendur þurfa því að fjármagna nám sitt sjálfir með skammtímalánum eða yfirdráttarlánum án þess að nein ástæða sé fyrir því.

Háskóli Íslands er fjársveltur en vel rekinn. Það er löngu tímabært að Háskóli Íslands fái þá viðurkenningu sem hann á skilið. Háskóli Íslands á að vera flaggskip þjóðarinnar og samkeppnishæfur á alþjóðlegum mælikvarða. Húsnæðiskostur háskólans er löngu búinn að sprengja utan af sér alla veggi og engir fjármunir eru til í vel rekna skólanum til að bæta þar úr. Fjársvelti skólans er það mikið að það kemur verulega niður á þeim kennsluháttum sem er beitt. Háskóli Íslands fær ekki greitt með 11 hverjum ársnemanda, vegna þess að samningur milli menntamálaráðuneytisins og háskólans inniheldur fjöldatakmarkanir. Það er skýr krafa Ungra jafnaðarmanna að Háskóli Íslands fái greitt fyrir alla nemendur sem stunda nám við skólann og að fjárframlög á hvern nemenda verði hækkuð.

Tungumálanám
Ungir jafnaðarmenn skora á íslensk stjórnvöld að hefja stórsókn í tungumálakennslu á öllum skólastigum, en þó sérstaklega á háskólastigi. Í heimi þar sem upplýsingar skipta æ meira máli, þá er stór hópur velmenntaðra einstaklinga í sem flestum tungumálum ómetanlegur. Fyrir litla þjóð sem vill halda úti sjálfstæðri utanríkisstefnu, er nauðsynlegt að styðja myndarlega á bak við sem fjölbreytt og lifandi tungumálanám. Því miður er tungumálakennslu á háskólastigi einungis sinnt að einhverju marki í Háskóla Íslands og því er nauðsynlegt er að styðja betur við það starf sem þar fer fram. Bæði verður að styrkja það nám sem fyrir er í skólanum sem og að stórauka framboð á tungumálum sem í boði er. Verður að telja það óeðlilegt ef að síauknum umsvifum íslendinga í utanríkisþjónustu yrði ekki fylgt eftir með því að styðja við tungumálanám í skólum landsins. Öflug utanríkisþjónusta gerir kröfu til þess að þeir sem starfi í henni séu frambærilegir á flestum sviðum og þá ekki síst þegar kemur að tungumálakunnáttu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand