Stjórnmálaályktun af landsþingi UJ 2005 – Málefni eldri borgara

Á meðan við Íslendingar búum í einu ríkasta þjóðfélagi heims þá er það til háborinnar skammar hversu illa við gerum við þá kynslóð sem varðaði leið okkar til þessarar velsældar. Málefni eldri borgara hafa því miður setið á hakanum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ekki hefur verið unnið að bættum kjörum, auknu vali og auknum mannréttindum hjá þessum hóp eins og þeir hafa margsinnis kallað eftir heldur hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar gert það að verkum að kjör þeirra hafa dregist verulega aftur úr kjörum annarra þjóðfélagshópa.

Áður var grunnlífeyrir reiknaður út sem hlutfall af lágmarkslaunum verkafólks en er nú ákvarðaður eftir geðþótta og hentugleika stjórnvalda hverju sinni. Árið 1995 var hann 24,94% en árið 2003 var hann þegar kominn niður í 21,1%. Eldri borgarar hafa orðið fyrir um 4.6 milljarða króna skerðingu á síðustu 10 árum að þessum sökum, þetta verður að sjálfsögðu að leiðrétta. Hækkun á lyfja- og húsnæðiskostnaði hefur einnig komið illa við eldri borgara svo eitthvað sé nefnt.

Ellilífeyrisgreiðslur eru skammarlega lágar í dag, hreinlega ekki mannsæmandi. Sem dæmi má taka að þriðjungur eldri borgara eða rúmlega 10 þúsund eldri borgarar hafa innan við 110 þúsund krónur til framfærslu á mánuði, fyrir skatt. Samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands er lágmarksupphæð til framfærslu talin vera um 160-170 þúsund krónur á mánuði og viðmið félagsmálaráðuneytisins, sem þó er nokkurra ára og því úrelt, gerir ráð fyrir 140 þúsund kr. lágmarksframfærslu. Undir þeim tekjumörkum eru um 17.100 eldri borgarar.

Mikilvægt er að halda áfram að auka og bæta heimaþjónustu aldraðra og auka hlutfall heimaþjónustu/hjúkrunar aldraðar á kostnað núverandi stofnanavæðingar sem er eitt dýrasta úrræðið sem völ er á. Í nágrannalöndum okkar er heimaþjónusta/hjúkrun langt um algengara úrræði en hér. Í þessu felst töluverður sparnaður og væri hægt að nýta þann sparnað í að hækka laun þeirra stétta sem sjá um umönnun aldraðra. Þetta gefur eldri borgurum kost að búa lengur á eigin heimili, sjálfstætt og á eigin fótum. Því er þetta mikið mannréttindamál.

Hlúa verður betur að félagslegum þörfum aldraðra í stað þess að skilgreina málefni aldraðra sem heilbrigðismál fyrst og fremst eins og nú er tilhneiging til.

Ungir jafnaðarmenn leggja einnig til að málefni eldri borgara flytjist frá Heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu yfir í nýtt Félags- og tryggingarmálaráðuneyti.

Stöðuleiki fyrir lífeyrisþega – afkomutrygging aldraðra og öryrkja
Ungir jafnaðarmenn taka undir með þingflokki Samfylkingarinnar að það sér forgangsmál að leiðrétta þá kjaraskerðingu sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir í tíð núverandi ríkisstjórnar en þeir hafa dregist verulega aftur úr öðrum hópum.

Ungir jafnaðarmenn vilja hafa tekjur aldraðra og öryrkja upp að vissu marki tekjutengdar við lífeyrisgreiðslur og bætur almannatrygginga. Í dag er lítill sem enginn hvati fyrir eldri borgara, sem vilja og geta unnið, til að vinna. En eins og staðan er í dag þá borgar það sig hreinlega ekki fyrir þá að vinna. Þetta myndi ekki einungis auka svigrúm eldri borgara til að afla sér betri tekna og vinna gegn félagslegri einangrun þeirra heldur væri þetta samfélaginu mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að hlutur aldraðra mun aukast verulega á komandi árum á móti því að færri verða á vinnumarkaðnum. Það munar um minna í auknum hagvexti og velferð samfélagsins.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand