Flestir Íslendingar, ef ekki allir, líta á stjórnarskrána okkar sem nokkurskonar grunnstoð þjóðfélagsins. Þær reglur sem settar eru í stjórnarskrá eru grundvallarreglur, annarsvegar stjórnkerfis okkar og hinsvegar samfélagsins. Þær deilur sem helst koma upp varðandi innihald og áherslur stjórnarskrárinnar varða stjórnkerfið. Á forsetinn að hafa málskotsrétt til þjóðarinnar á lagafrumvörpum? Á málskotsrétturinn undantekningalaust að leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu? Á málskotsrétturinn yfirleitt að vera fyrir hendi? Á forsetinn yfirleitt að vera fyrir hendi? Flestir Íslendingar, ef ekki allir, líta á stjórnarskrána okkar sem nokkurskonar grunnstoð þjóðfélagsins. Þær reglur sem settar eru í stjórnarskrá eru grundvallarreglur, annarsvegar stjórnkerfis okkar og hinsvegar samfélagsins. Þær deilur sem helst koma upp varðandi innihald og áherslur stjórnarskrárinnar varða stjórnkerfið. Á forsetinn að hafa málskotsrétt til þjóðarinnar á lagafrumvörpum? Á málskotsrétturinn undantekningalaust að leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu? Á málskotsrétturinn yfirleitt að vera fyrir hendi? Á forsetinn yfirleitt að vera fyrir hendi?
Það er kannski ekki óeðlilegt að stjórnkerfið sé það sem menn greinir helst á um og flestir leggja mesta áherslu á, þar sem það er grundvöllurinn að því „batteríi“ sem svo mótar okkar samfélag með lögum og reglum.
Þó er ýmislegt sem virðist oft gleymast í umræðunni um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í mannréttindakafla hennar gefur að líta reglur sem litið er á sem grundvallarmannréttindi borgaranna. Má þar nefna jafnræðisregluna, regluna um friðhelgi einkalífs, persónufrelsi og tjáningarfrelsi. Þessar reglur hafa verið settar í stjórnarskrá til að tryggja þessi réttindi og til að skerða vald löggjafans og stjórnvalda til að víkja frá þeim eða brjóta á. Til eru síðan reglur sem teljast einnig til stjórnlaga, en ekki eru bókfestar í stjórnlagaplagginu sjálfu, stjórnarskránni. Má nefna sem dæmi að fyrir breytingu á mannréttindakaflanum árið 1995 var skýrt ákvæði í stjórnarskránni sem kvað á um að skatta mætti ekki setja á nema með lögum. Framkvæmdavaldinu, ríkisstjórninni væri því óheimilt að leggja á skatta með reglugerð til dæmis. Þetta ákvæði er enn í stjórnarskránni, nánar tiltekið í 40. gr. en þar segir meðal annars orðrétt: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“ Skýrt, ekki satt?
Þrátt fyrir þetta ákvæði tíðkaðist það lengi vel, athugasemdalaust frá almenningi og dómstólum, að framkvæmdavaldshafar leggðu á ýmis gjöld sem ekki urðu talin annað en skattar. Með því myndaðist svokölluð stjórnskipunarvenja. Lagasafnið inniheldur ekki öll okkar lög. Til viðbótar við það sem krotað hefur verið á blað eru ýmsar venjur og óskráðar meginreglur sem ber að fylgja, því þær teljast til laga. Þannig telst stjórnskipunarvenja til stjórnlaga, þrátt fyrir að vera ekki í stjórnarskránni sjálfri. Stjórnlögum verður ekki breytt nema með stjórnlögum.
Því var tekið upp á því við endurskoðun stjórnarskrárinnar árið 1995 að ítreka þá reglu sem fólst í 40. gr. en vikið hafði verið með stjórnskipunarvenju, í mannréttindakafla skrárinnar. Má segja að sama ákvæðið sé tvítekið í stjórnarskránni eins og hún er í dag. Í 77. gr. segir nú: „Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“ Nei, ekki svo ólíkt 40. greininni, er það?
Önnur regla hefur verið talin hafa gildi stjórnlaga þrátt fyrir að standa hvergi berum orðum á blaði. Það er hin svokallaða „lögmætisregla“. Lögmætisreglan felur í sér að stjórnvöldum (framkvæmdavaldinu) er óheimilt að setja reglur í berhögg við sett lög frá Alþingi, svo og að taka íþyngjandi ákvarðanir án skýrrar lagastoðar. Þessi skýra og einfalda regla hefur verið talin eiga sér stoð meðal annars í 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald. Hana er þó hvergi að finna skýrum stöfum. Hana leiðir einungis af „túlkun“ á öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar, venjum, dómum o.fl.
Stjórnkerfi okkar er flókið og þjóðfélagið sömuleiðis. Það gefur því auga leið að ekki er unnt að orða reglur um hvert einasta óréttlætistilvik sem upp getur komið. Hinsvegar er það lágmarkskrafa okkar þegnanna að þær reglur sem mynda grundvöll okkar þjóðfélags séu ritaðar niður skýrum stöfum, svo við getum veifað „plagginu“ framan í þann sem á okkur brýtur, bent á blaðið og sagt: „Þennan rétt á ég!“.