En það bar til í apríl 2006, á efstu dögum Sjálfsóknarstjórnarinnar, að boð voru látin út ganga: Skyldi ófaglært fólk á hjúkrunar- og dvalarheimilum eldri borgara gera sér hungurlús sína að góðu, ella færu fleiri stéttir – og miklu betur settar – að ybba gogg og launaskrið hlytist af.
Ein helsta röksemd Sjálfsóknarstjórnarinnar fyrir flatri prósentulækkun á tekjuskatti er sú að þannig séu menn hvattir til að útvega sér annað og betur launað starf eða sækja sér launa- eða stöðuhækkun með öðru móti, til dæmis með því að afla sér frekari menntunar. Því ríflegri sem launin eru, þeim mun léttari skal skattbyrðin verða í krónum talið miðað við það sem áður var. Ekki nóg með það heldur hefur umhyggjan fyrir hinum efnaminni verið sýnd, svo að ekki verður um villst, með því að hækka ekki persónuafslátt í takt við launaþróun. Af því leiðir að jafnvel þótt lúsarlaun séu hækkuð lítið eitt verður það ekki endilega pyngja launþegans sem gildnar, þegar upp er staðið, heldur ríkissjóður. Hvað er hvetjandi við það?
En það er gott til þess að vita að ekki þurfa allir að kvarta. Kjaradómur sér um sína, jafnvel svo mjög að um síðustu áramót neyddust alþingismenn til að frábiðja sér alla rausnina – til þess eins að halda friðinn í samfélaginu. Ekki var þó hófseminni og enn síður nískunni fyrir að fara í desember 2003 þegar 30 þingmenn – 29 stjórnarliðar og 1 stjórnarandstæðingur – möndluðu við eigin eftirlaunakjör. Það sýnir kostnaðurinn anno 2004 við eina alræmdustu lagasetningu í nær ellefu hundruð ára sögu Alþingis – litlar 650 milljónir króna – enda yfirsást þingheimi í öllu ofboðinu að hin höfðinglegu eftirlaun mætti þiggja samhliða feitum embættum og bitlingum hjá hinu opinbera.
Það er ljóst að þingmennska og aðrar slíkar vegtyllur eru hærra skrifaðar hjá Sjálfsóknarstjórninni en umönnun eldri borgara. En stjórnin sú hefur raunar lítið gert til að bæta kjör aldraðra þó að þriðjungur þeirra hafi innan við 110.000 krónur á mánuði í eftirlaun – fyrir skatt.
Ætli alþingismenn hafi hugmyndaflug í að afnema eftirlaunalögin, meina sjálftökuna og verja í staðinn 650 milljónum til að bæta hag þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda? Þá þyrftu þeir alla vega ekki að kvíða því að meira fé rynni út í hagkerfið en áður.
En kannski væri bara sniðugast fyrir ófaglærða að láta af hjúkrun og umönnun og róa á önnur og gjöfulli mið. Þá fyrst gætu þeir farið að njóta flatrar tekjuskattslækkunar í krónum talið – ef heppnin væri með. Væri það ekki í samræmi við stefnu Sjálfsóknarstjórnarinnar?
En hver ætti þá að annast gamla fólkið?