Kapítalismi.is

Síðasti mánudagspóstur vefritsins ihald.is fjallaði um grein mína, „Kapítalískur fótboltaleikur“, sem var svargrein við grein Hjartar Guðmundssonar, „Sósíalískur fótboltaleikur“ sem birtist á hugsjonir.is þann 11.apríl. Hjörtur byrjar þar á að hreykja sér af þeirri staðreynd að hann hafi haft rétt fyrir sér þegar hann hélt því fram að málflutningur hans ætti eftir að koma við kaunin á ýmsum vinstrimönnum. Það gleður mig að hann hafi haft ánægju af því að fá viðbrögð við greininni, sem vissulega kom við kaunin á mér og áreiðanlega fleiri á vinstrivængnum. Ástæðan fyrir því að hún gerði það er einföld: aðra eins rangtúlkun á okkar hugmyndafræði hef ég ekki séð í langan tíma, þannig að ég mátti til með að svara henni.

Síðasti mánudagspóstur vefritsins ihald.is fjallaði um grein mína, „Kapítalískur fótboltaleikur“, sem var svargrein við grein Hjartar Guðmundssonar, „Sósíalískur fótboltaleikur“ sem birtist á hugsjonir.is þann 11. apríl. Hjörtur byrjar þar á að hreykja sér af þeirri staðreynd að hann hafi haft rétt fyrir sér þegar hann hélt því fram að málflutningur hans ætti eftir að koma við kaunin á ýmsum vinstrimönnum. Það gleður mig að hann hafi haft ánægju af því að fá viðbrögð við greininni, sem vissulega kom við kaunin á mér og áreiðanlega fleiri á vinstrivængnum. Ástæðan fyrir því að hún gerði það er einföld: aðra eins rangtúlkun á okkar hugmyndafræði hef ég ekki séð í langan tíma, þannig að ég mátti til með að svara henni.

Hjörtur heldur því fram að sósíalisminn og hans afbrigði gangi út á að fólk fái ekki notið verka sinna, en það er ekki alls kostar rétt hjá honum. Sósíalisminn og jafnaðarstefnan ganga þvert á móti út á að allt fólk fái tækifæri til þess að njóta sín og verka sinna, ekki bara þeir efnuðu, og því leggjum við áherslu á að standa vörð um og styrkja velferðakerfið. Eða þykir einhverjum réttlátt að heilbrigðisþjónusta og menntun séu eingöngu aðgengileg þeim sem hafa ráð á að greiða fyrir það úr eigin vasa? Heldur því einhver fram að í samfélagi þar sem þeir fátæku hafa ekki aðgang að slíku, fái allir notið sín og sinna verka?

Hjörtur fræðir mig um þá staðreynd að margir af þeim auðugustu séu ekki aldir upp í ríkidæmi heldur hafi grætt vegna vinnu sinnar. Þetta vissi ég vel, og ég hélt alls ekki að við byggjum í stöðnuðu 19. aldar samfélagi þar sem fólk fæddist inn í ákveðna stétt og héldist þar. Þvert á móti tel ég að við búum í velferðarþjóðfélagi og það sé einmitt velferðarkerfinu að þakka að fólk hafi tækifæri til þess að brjótast úr fátækt til ríkidæmis, og ekki síst þess vegna er ég mótfallin tilraunum hægrimanna til þess að grafa undan velferðarkerfinu.

Í kapítalísku samfélagi tel ég þessu nefnilega öfugt farið, enda býður kapítalisminn ekki upp á neinar lausnir fyrir fólk sem elst upp í fátækt og örbirgð aðrar en hugsanlega þær að það fólk megi leggja tíu sinnum harðar að sér en aðrir til þess að njóta sömu lífskjara og þeir efnuðu. Hjörtur heldur því líka fram að það sé fáránlegt að líkja saman blindu og fátækt, en ég held að hann hafi ekki alveg skilið hvert ég var að fara í samlíkingunni. Ég hélt því fram að fátæk manneskja í kapítalísku samfélagi væri eins og blindur leikmaður í fótbolta ásamt sjáandi leikmönnum; sett undir ósanngjarnan mælikvarða sem segði ekkert um dugnað viðkomandi eða manngildi, og fengi mun minni tækifæri en aðrir til þess að njóta sín og sinna verka sem einstaklingur. Ef eitthvað er annars fáránlegt þá er það að líkja samfélaginu við fótboltaleik, og halda því fram að jöfn tækifæri komi að sjálfu sér, algerlega óháð aðgengi að grunnþáttum samfélagsins á borð við menntun og heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan það; það velur sér enginn það hlutskipti að vera fátækur, en það er engu að síður staðreynd að það kemur fyrir suma. Vilja íhaldsmenn meina að fátækt leiðréttist með þeirra lausnum, eða leggja þeir fátækt sjálfkrafa að jöfnu við aumingjaskap?

Hjörtur gagnrýnir mig fyrir að hafa í svari mínu ekki minnst á umfjöllun hans um kynjakvóta, jákvæða mismunun og fléttulista. Það er vissulega rétt hjá honum að ég gerði það ekki, enda var mér fyrst og fremst umhugað um að leitast við að leiðrétta hans brengluðu sýn á markmið jafnaðarstefnunnar. Þó ég sé ekki hlynnt kynjakvótum á vinnumarkaði bendi ég Hirti á ágæta grein Tinnu Mjallar Karlsdóttur um kynjakvóta sem birtist hér á politik.is fyrir skemmstu. Fléttulistum er ég hins vegar hlynnt auk þess sem ég tel opin prófkjör ekki vera eins lýðræðisleg og þau hljómi. Mér finnst þetta hins vegar vera efni í allt, allt aðra umræðu.

Seinasti hluti greinar mánudagspósts Hjartar fjallar síðan um minn persónulega málflutning á þessum vettvangi og öðrum. Ég hélt því nefnilega fram að grein hans hefði verið mér fræðandi, sem hann dró í efa að hafi verið satt þar sem ég hefði augljóslega verið búin að taka skýra afstöðu gegn íhaldsstefnunni áður. Staðreyndin er engu að síður sú að þótt afstaða mín gegn íhaldsstefnunni sé skýr og opinber, þá opnaði greinin augu mín fyrir rangtúlkun íhaldsmanna á stefnu okkar jafnaðarmanna.

Ég geri mér grein fyrir því að íhaldsmenn hafa ef til vill ekki mikið álit á frjálslyndri jafnaðarstefnu, og í raun gæti ég auðveldlega vísað í ýmsar athugasemdir af vefritum hægrimanna, þar sem því er haldið fram án nokkurs rökstuðnings að vinstrimenn séu veruleikafirrtir og kunni ekki að reikna eða fara með peninga, og til þess þarf ég alls ekki að kafa ofan í „kommentakerfi“ hjá hægrisinnuðum bloggurum. En eins og ég segi þá læt ég slíkt mér í léttu rúmi liggja. Hins vegar tek ég mér það bessaleyfi að leiðrétta rangtúlkun og misskilning á jafnaðarstefnunni hvar sem er og hvenær sem er. Það ríkir jú málfrelsi í landinu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand