Reykjavíkurborg hefur þurft að glíma við illan þurs, þveran og úrilllan; Ríkið. Það er merkilegt að fylgjast með því hvernig Sjálfstæðis- flokkurinn í krafti ráðherravaldsins berst með bolabrögðum gegn kjörnum meirihluta í borgarstjórn. Í hvert sinn sem takast þarf á við stór og krefjandi samgöngumál er Sturla í veginum. Ríkið fer nefnilega með þann málaflokk á stórum svæðum í borginni í formi Vegagerðarinnar og Flugmálastjórnar. Þar er Sturla innsti koppur í búri.
Því miður hefur samgönguyfirvöldum tekist að láta það líta svo út sem að borgaryfirvöld tefji öll mál og vilji ekki láta hendur standa fram úr ermum í mikilvægum málum. Sundabraut og flugvöllurinn eru nærtæk dæmi. Meirihluti borgarstjórnar hefur varið kröftum sínum í annað en pólitískan rykslátt og orðið merkilega ágengt miðað við farartálmana.
Umræðan um flugvöllinn og Sundabrautina
Nú er það á stefnuskrá allra flokka nema Frjálslyndra að flugvöllur í Vatnsmýri skuli víkja og er það vel. Áhugamannasamtök eins og Samtök um betri byggð eiga þar reyndar stóran hlut að máli ásamt Flugvallarvinum sem gætu ekki höfðað til nokkurs hugsandi manns með sínum málflutningi. En hverjum er það að þakka að hafin var alvarleg umræða um málið? Var það ekki R-listinn sem efndi til kosninga um málið? Var það ekki R-listinn sem efndi til samningaviðræðna við Ríkið um mál sem var að kæfa rekstur fyrirtækja á svæðinu? Var það ekki skipulagsráð undir forystu Dags B Eggertssonar sem stofnaði til umræðu um framtíð Vatnsmýrarinnar við íbúa borgarinnar með skipulögðum hætti? Var það ekki sami Dagur sem efnt hefur til skipulagssamkeppni um svæðið svo að borgarbúar fái séð bestu tillögur um nýtingu svæðisins? Og var það ekki Sjálfstæðis-Sturla sem allan tímann hengdi haus, lét neyða sig inn í samræður um málið? Var það ekki sama Sturla sem frekar lofaði Héðinsfjarðargöngum en að finna viðunandi lausn á lagningu Sundabrautar? Hefur Vegagerðin (lesist Sturla) ekki staðið á bremsunni með hönnun Sundabrautur vegna þess að hún vildi neyða borgina til að taka lélegasta kostinn? Svarið er jú.
Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að fjarstýra ákvörðunum Reykvíkinga um Sundabraut í gegnum Samgönguráðuneytið með baktjaldamakki, blekkingum og skorti á samvinnuvilja stóðu fulltrúar R-listans keikir og reyndu að fá bestu niðurstöðuna fyrir Reykvíkinga með opnum umræðum. Sem betur fer er sú vinna að skila sér.
Nú getur maður ekki annað en spurt sig hvort maður kjósi ekki flokk sem stendur fyrir opnar umræður og vinnur fyrir besta hag íbúanna en ekki slagsmál um pólitískar torfur. Valkosturinn er eftir allt saman ekkert nema miðaldra karlar með valdafíkn og veruleikafirrta hugmynd um sanngjörn lýðræðisleg vinnubrögð.