Skólagjöld – lausn á tilbúnum vanda

Sigþrúður Ármann skrifar grein sem birtist í Morgunblaðið þann 1. mars síðastliðinn. Í skrifum sínum færir Sigþrúður rök fyrir því að stúdentar eigi að taka aukinn þátt í kostnaði við nám sitt vegna þess að með aukinni menntun séu þeir líklegri til að afla ágætistekna og hafi þannig mikla hagsmuni af námi sínu. Sigþrúður Ármann skrifar grein sem birtist í Morgunblaðið þann 1. mars síðastliðinn. Í skrifum sínum færir Sigþrúður rök fyrir því að stúdentar eigi að taka aukinn þátt í kostnaði við nám sitt vegna þess að með aukinni menntun séu þeir líklegri til að afla ágætistekna og hafi þannig mikla hagsmuni af námi sínu.

Með sömu rökum og Sigþrúður færir fyrir aukinni kostnaðarþátttöku stúdenta er hægt að færa rök fyrir hinu gagnstæða. Þar sem stúdentar eru líklegri til að afla ágætistekna, má gera ráð fyrir að þeir muni samfara því einnig borga hærri skatta í framtíðinni. Tekjuskattur er reiknaður sem hlutfall af launum og því er augljóst að með hærri launastofni eru menn að greiða hærri skatta. Því mætti segja að ríkissjóður beri jafn ríka, ef ekki ríkari, hagsmuni af því að sem flestir útskrifist úr háskólum.

Sigþrúður fullyrðir einnig að nú þegar keppist bankastofnanir um að bjóða námsmönnum hagstæð námslán. Þess má geta að námsmenn hafa ekki kost á öðru en að taka námslán í bönkum. Lánasjóður íslenskra námsmanna greiðir einungis út lán í lok hverrar annar þegar námsárangur liggur fyrir. Því verða háskólanemar að taka lán í viðskiptabönkum til að geta staðið undir kostnaði þeirrar annar sem námslánin eru fyrir. Viðskiptabankarnir taka fyrir þessa þjónustu 8.40% – 14% vexti og á þá námsmaðurinn eftir að borga vexti af láninu frá LÍN. Námsmenn þurfa því að taka tvö lán til að standa kostnað af einni önn. Námsmönnum er með þessu gert að standa sig í námi að öðrum kosti mun LÍN ekki lána þeim fyrir skuldum sínum. Þar með er framfærslulánahlutverk LÍN fyrir löngu komið í hendur bankakerfisins. Hvatinn til að standa sig í námi verður varla meiri.

Samkvæmt nýjustu tölum OECD fyrir árið 2001 er það ljóst að 27% fólks á aldrinum 25-34 ára hefur lokið háskólaprófi á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum er þetta hlutfall að jafnaði um 37%. Staðan er ennþá verri ef litið er til framhaldskólamenntunar en einungis 60% Íslendinga á aldrinum 25 – 34 ára hefur lokið framhaldsskólamenntun. Á öðrum Norðurlöndum er þetta hlutfall 86%-94%. Þetta þýðir að nánast annar hver Íslendingur í þessum aldursflokki hefur einungis lokið grunnskólaprófi.

Menntamálaráðherra hefur opinberað þá stefnu sína að Háskóli Íslands geti ekki tekið við fleiri nemendum en fjárlög leyfa. Með öðrum orðum hefur ríkisstjórnin ákveðið að ekki skuli taka við nema 5200 nemendum í HÍ. Ríkisstjórnin er því að búa til grundvöll, með takmörkunum sínum, fyrir því að skólagjöld séu tekinn upp við HÍ. Það telst varla ríkisstjórninni til tekna að leysa heimatilbúinn vanda.

Menntamál eiga að byggja á skýrri framtíðarsýn. Vel menntað þjóðfélag hefur í för með sér margvíslegan sparnað fyrir skattgreiðendur og eykur samkeppnishæfni okkar á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópu. Á meðan árangur okkar í menntamálum er ekki betri en raun ber vitni þá væru það stórkostleg mistök að taka upp skólagjöld við HÍ.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand