Skoðanafrelsi

,,Fordómar eru hættulegastir þegar þeir fá að krauma óáreittir innan ákveðinna hópa“ segir Guðlaugur Kr. Jörundsson í pistli dagsins.

Ég drekk Kók Zeró, ég vil skoða flæði innflytjenda til landsins, ég er ekki viss um gildi þess að banna vændi, ég er ekki sannfærður um að Ísland eigi heima í ESB, ég efast um réttmæti aðgerða í nafni feminisma, ég vil ekki hafa flugvöll í Vatnsmýrinni, ég vil ekki fleiri álver, ég vil að börnin okkar fái siðfræðslu í skólum frá starfstétt sem hefur þróað siðfræðslu í áratugi, ég mynda mér skoðanir útfrá þekkingu minni hverju sinni.

Ég er ekki karlremba, ég er ekki rasisti, ég er ekki fylgjandi mansali eða kaupandi á vændi, ég er ekki á móti Evrópubúum, ég vil veg kvenna meiri og jafnrétti á öllum sviðum, ég er ekki á móti landsbyggðinni, ég vil skapa tækifæri fyrir landsbyggðina, ég er ekki á móti trúfrelsi, ég þoli ekki að vera fordæmdur fyrir skoðanir mínar af þeim sem telja sig vera að kveða niður fordóma.

Tjáningarfrelsi og umræða

Nú í haust urðum við vitni að því þegar athafnastjórnmál sigldu í strand í Reykjavík. Með nýrri ríkisstjórn og borgarstjórn höfum við orðið vitni að nýju yfirbragði stjórnmálanna. Samræðustjórnmálin hafa fengið að blómstra. Skoðanamunur hefur fengið að heyrast og hafa stjórnmálamenn tekist á nokkuð málefnalega. Hafa þeir verið að klifra varlega upp úr skotgröfunum og séð hvernig hægt er að þoka málum áfram með því að ræða þau fremur en að líta á hlutina sem svart og hvítt. Með þessu áframhaldi verður hægt að skapa umræðu um þau mál sem brenna á okkar þjóðfélagi. Umræða verður ekki lengur drepin í fæðingu vegna þess að ákveðnar skoðanir eru stimplaðar rangar af áhrifamiklum stjórnmálamönnum.

Almenningur er einnig farinn að ræða viðkvæmu málin. Að miklu leiti má þakka bloggheiminum aukna umræðu. Þar hafa skoðanir fengið að heyrast og þær ræddar. Þegar upp hafa komið mjög svo fordómafullar skoðanir þá hafa jafnvel heyrst raddir um að loka fyrir slíkan óþverra. Á slíkar raddir á ekki að hlusta. Við eigum að fagna tjáningarfrelsinu og vera fegin því að fordómarnir komist á yfirborðið. Þá er hægt að bregðast við með fræðslu og taka umræðuna. Fordómar eru hættulegastir þegar þeir fá að krauma óáreittir innan ákveðinna hópa.

Pólitískur rétttrúnaður og skoðanakúgun

Ég byrjaði á því að stikla á nokkrum stórum málum í umræðunni að undanförnu. Greindi ég frá afstöðu minni eins og hún er þessa stundina. Skoðanir sem ég hef myndað eftir minni bestu visku. Oftar en einu sinni hef ég fengið þá stimpla sem ég afneita í seinni efnisgreininni. Við verðum að vara okkur á pólitískum rétttrúnaði og að þröngva ekki skoðunum á fólk. Hlutirnir eru ekki svartir og hvítir. Ég verð sérstaklega tortrygginn þegar ég finn fyrir því að það sé ætlast til þess að ég hafi vissa skoðun, áður en ég hef fengið nokkra fræðslu um málefnið. Verið vakandi yfir því þegar þið lítið einhvern hornauga fyrir ákveðna skoðun sem er ekki alveg skv. bókinni. Ekki leggja lóð á vogarskálar þeirra sem beita skoðanakúgun til að koma á framfæri sínum málstað. Það er þekkt aðferð að stimpla með hörku þá sem voga sér að efast um málstaðinn. Ekki fordæma aðra í baráttunni gegn fordómum. Berjist með fræðslu.

Ég ætla að reyna að fara eftir eigin hvatningarorðum og reyna að fræða þá sem eru ekki á sömu skoðun og ég en ekki dæma. Enn betra að fræðast af þeim sem eru mér ósammála sérstaklega ef þeir fá mig til að skipta um skoðun. Mér finnst æðislegt að skipta um skoðun. Þá veit ég að framþróun á sér stað. Horfum á hlutina með opnum huga og uppfræðum hvert annað.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand