Skipulögð glæpastarfsemi, líka á Íslandi.

Skipulögð glæpastarfsemi felur í sér starfsemi hópa þar sem tilgangurinn er gróði með ólögmætum aðferðum. Um er að ræða vörur og þjónustu eins og vændi, klám, fjárhættuspil, eiturlyf, peningaþvætti o.fl.

sopranos_Stern01

Skipulögð glæpastarfsemi felur í sér starfsemi hópa þar sem tilgangurinn er gróði með ólögmætum aðferðum. Um er að ræða vörur og þjónustu eins og vændi, klám, fjárhættuspil, eiturlyf, peningaþvætti o.fl. Í erindi sem Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri fór með á málþingi Orators í september síðastliðnum, segir hann skipulagða glæpastarfsemi vera raunveruleika á Íslandi. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða strax og gefi ekkert eftir í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Því fyrr sem við bregðumst við ógninni, því líklegra er að við náum að hemja hana

sopranos_Stern01Það eru eflaust margir sem hrista hausinn og hugsa um kvikmyndir eins og The Godfather eða sjónvarpsþætti eins og The Sopranos þegar spurningunni um hvort skipulögð glæpastarfsemi sé raunveruleiki á Íslandi er velt upp. Málið er hins vegar mun flóknara en slíkt afþreyingarefni gefur til kynna, þó svarið við spurningunni sé það ekki.

Skilgreiningar á skipulagðri glæpastarfsemi eru margar og oft á tíðum óljósar. Hin almenna skilgreining er þó sú að skipulögð glæpastarfsemi felur í sér starfsemi hópa þar sem tilgangurinn er persónulegur efnahagslegur gróði með ólögmætum aðferðum. Hóparnir vinna eftir mjög skipulögðu kerfi sem í raun líkist starfsemi fyrirtækis þar sem stöðugu framboði af varningi og þjónustu, sem bönnuð er með lögum en eftirspurn er eftir, er haldið úti. Um er að ræða vörur og þjónustu eins og vændi, klám, fjárhættuspil, eiturlyf, peningaþvætti og svona mætti lengi telja.

Í erindi sem Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri fór með á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í september síðastliðnum, segir hann skipulagða glæpastarfsemi vera raunveruleika á Íslandi. Hann benti á að ekki sé um nýjung að ræða, en að starfsemin hafi breyst til muna á síðustu árum, orðið betur skipulögð og sé að færast í aukana.

Innflutningur á fíkniefnum hefur aukist og efnin eru hættulegri og dýrari en áður. Starfið er þaulskipulagt og að því koma hópar sem skipta með sér verkum. Innflutningi og sölu á fíkniefnum getur síðan af sér margvíslega aðra brotastarfsemi eins og innbrot, þjófnaði, ofbeldi og vændi. Innbrotum og þjófnuðum hefur fjölgað gríðarlega en þar er oft á tíðum um skipulagða glæpastarfsemi að ræða.

Þá hefur íslenski vélhjólaklúbburinn Fafner MC-Iceland (Fáfnir) hlotið viðurkenningu sem „stuðningsklúbbur“ Hells Angels. Þar með hefur hópur manna á Íslandi stofnað til formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök, en alls staðar þar sem finna má Hells Angels hefur aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt með, en félagar í samtökunum hafa víða hlotið dóma fyrir morð og fíkniefnasmygl. Samtökin tengjast meðal annars vændi, fíkniefnaviðskiptum, fjárkúgunum og ofbeldisbrotum.

Þá er skipulagri vændisstarfsemi haldið upp hér á landi og svo virðist vera sem götuvændi sé að færast í aukana. Þá hefur grunur um mansal á Íslandi aukist til muna, en nú stendur yfir rannsókn á mansalsmáli sem kom upp í október þegar ung kona frá Litháen ærðist í flugvél og sagðist vera að koma til Íslands til þess að stunda vændi. Rannsókn lögreglu hefur undið töluvert upp á sig og teygir nú anga sína víða, en grunur leikur á um að skipulagður hópur Litháa selji konur í vændi, en einnig eru þeir grunaðir um peningaþvætti, íkveikju og tryggingasvik. Rannsókn lögreglu er ekki lokið.

Catalina Ncogo, íslensk kona ættuð frá Miðbaugs-Gíneu, var nýlega ákærð fyrir mansal og vændisstarfsemi. Hún hefur verið ákærð fyrir að blekkja konu til Íslands, halda henni í kynlífsánauð og selja körlum aðgang að henni. Hún er einnig ákærð fyrir að lifa á vændi fjölda kvenna. 43 ára karlmaður er ákærður fyrir að aðstoða hana. Þetta er í fyrsta skipti sem ákært er fyrir vændi og mansal á Íslandi. Málinu er ekki lokið.

Hér er einungis um nokkur, en þó óhugnarleg dæmi að ræða, um hvers konar skipulagða glæpastarfsemi er að finna á Íslandi. Það er staðreynd að skipulögð glæpastarfsemi er raunveruleiki á Íslandi, við þurfum því ekki að velta því fyrir okkur lengur. En hvað gerum við þá?

Dómsmálaráðherra hefur upplýst að hún muni leggja fyrir alþingi frumvarp til laga um breytingu á almennu hegningarlögum, nr. 19 frá 1940, er varðar skipulagða brotastarfsemi. Þar er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði í almenn hegningarlög sem geri það refsivert að taka þátt í skipulagðri brotastarfsemi. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða strax og gefi ekkert eftir í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Því fyrr sem við bregðumst við ógninni, því líklegra er að við náum að hemja hana.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand