,,Skipulag þarf að vera í lagi til þess að aukið fjármagn nýtist sem best. Þrátt fyrir aukningu útgjalda til þróunarmála hafa þarfar skipulagsbreytingar ekki komið fram á sjónarsviðið“. Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri Politik.is í grein dagsins.
Umræðan um þróunarmál hér á landi hefur verið mjög athyglisverð svo vægt sé til orða tekið. Umræðan hefur fyrst og fremst verið beint að fjárframlögum Íslendinga til þróunarmála. Menn hafa verið að skamma Íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki ennþá náð þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það að láta 0,7% af þjóðartekjum renna til þróunarmála. En málið er að önnur mikilvægari umræða hefur lítið á sér bera, en það er umræðan um skipulag þróunarmála hér á landi. Skipulag þarf að vera í lagi til þess að aukið fjármagn nýtist sem best. Þrátt fyrir aukningu útgjalda til þróunarmála hafa þarfar skipulagsbreytingar staðið á sér. Undirritaður hafði því miklar væntingar um að hið nýja frumvarp utanríkisráðherra myndi taka á skipulagsmálum. Því miður gekk háttvirtur Utanríkisráðherra ekki jafn langt og undirritaður hafði vonast eftir.
Að stíga skrefið til fulls
Undirritaður skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. janúar. Í þeirri grein hvatti undirritaður Utanríkisráðherra að færa Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) að fullu inn í ráðuneytið til að auka skilvirkni þróunarsamvinnu Íslendinga. Tvíhliða – og marghliðaþróunarsamvinna verða að vinna saman en því miður hafa ýmsir embættismenn og ráðamenn ekki gert sér grein fyrir því. Marghliða þróunarsamvinna verður að styðja við bakið á tvíhliða þróunarsamvinnunu, sem og öfugt. En þar sem í hinu nýja frumvarpi ráðherra er staða ÞSSÍ óbreytt. Þróunarsamvinnustofnun Íslands verður áfram sjálfstæð stofnun, og á meðan það verður óbreytt mun þróunarsamvinna Íslands ekki vera nógu skilvirk á meðan tvíhliða og marghliða þróunarsamvinna eru ekki á sama stað. Því hvet ég enn og aftur Utanríkisráðherra sem og aðra alþingismenn að beita sér fyrir því að ÞSSÍ verði sett inn að fullu inn í ráðuneytið til þess að auka skilvirkni þróunarsamvinnu Íslendinga.
Samstarf við háskólasamfélagið?
Eitt af því sem undirritaður hefði viljað sjá í hinu nýja frumvarpi tiltekið betur hvaða hlutverki háskólasamfélagið eigi að gegna í þróunarsamvinnu Íslendinga. Eins og staðan er í dag, eiga Íslendingar örfáa sérfræðinga í þróunarmálum. Ef þeir fáu sérfræðingar eru ekki sestir í helgan stein, eru þeir annaðhvort að vinna hjá alþjóðastofnunum eða að kenna í háskólum landsins. Þessir fáu sérfræðingar hafa lítið verið notaðir í umræðunni um þróunarmál, og ráðamenn þjóðarinnar hafa lítið sem ekkert hlustað á þær tillögur sem þeir hafa sett fram. Þekking á þróunarmálum er alltaf að aukast í Háskólanum á Akureyri sem og Háskóla Íslands. Því hvetur undirritaður Utanríkisráðherra að gera samstarfssamning við HA og HÍ um að skólarnir fái að gera úttektir á þróunarsamvinnu Íslendinga. Háskólarnir eru vel til þess fallnir að gera þessar úttektir, því t.a.m. reglur ríkisendurskoðenda um vörslu og meðferð fjármuna eiga ekki við í þróunarmálum. Heldur þurfum við sérfræðinga til að meta þær efnahagslegu breytingar sem verða á samstarfslöndum okkar. Með því að gera samstarfssamning við HA og HÍ væri utanríkisráðherra að efla fræðilegan grunn skólanna, sem og halda þeirri takmörkuðu þekkingu á þróunarmálum hér á landi.
Ýta stjórnmálum til hliðar.
Það jákvæðasta í hinu nýja frumvarpi er að Ísland ætlar loksins að sækjast eftir því að vera aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC). Aðild að þróunarsamvinnunefnd OECD myndi hafa virkilega góð áhrif á þróunarsamvinnu Íslendinga. Hins vegar þurfa Íslendingar að taka aðra umræðu um þróunarmál, en við verðum að fara að mynda okkur almennilega stefnu um hvernig við ætlum að sinna þróunarsamvinnu okkar. Eigum við að beita okkur betur innan Alþjóðabankans? Eða sækja um aðild að þróunarbanka Afríku og einbeita okkur alfarið að Afríku? Og af hverju hafa Íslendingar aldrei notað fjárlagastuðning eins og nágrannaþjóðir okkar hafa verið að gera?
Það eina sem ég bið Ráðherra og þingmenn um, er að ræða um þróunarmál á skynsömum nótum og alls ekki blanda pólitík eða flokkslínum inn í umræðuna. Það sem allir hljóta að vilja er að gera þróunarsamvinnu Íslands skilvirkari. Eins og staðan er í dag og á meðan ÞSSÍ er ennþá sjálfstæð stofnun erum við því miður þróunarsamvinna Íslendinga nógu skilvirk.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 1. júni 2008