Skattapólitík jafnaðarmanna

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, svarthvít

Aðsend grein eftir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, þar sem fjallað er um áherslur jafnaðarmanna í skattamálum. Í greininni segir m.a. að: „Sú norræna velferðarstjórn sem Samfylkingin veitir forystu hefur á stefnuskrá sinni að standa vörð um kjör lágtekjufólks og þá sem við erfiðastar aðstæður búa og dreifa byrðunum með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi. Hugmyndir um þriggja þrepa skattkerfi ríma mjög vel við þær áherslur. Stjórnaflokkarnir þurfa að sýna pólitískan kjark ef þeir ætla að innleiða þrepaskattskerfi því það eru gjarnan tekjuhærri hóparnir sem stjórna samfélagsumræðunni.“  

Aðsend grein eftir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, svarthvítMeginstef jafnaðarstefnunnar er að allir einstaklingar skuli hafa jöfn tækifæri til að njóta hæfileika sinna. Til að einstaklingur sé frjáls og fái notið hæfileika sinna þarf hann að búa við efnahagslega og félagslega velferð. Lykiltæki okkar jafnaðarmanna til að ná þessum markmiðum eru skattkerfið og almannatryggingakerfið. Norrænu skattkerfin eru dæmi um þau lönd sem hafa gengið hvað lengst í að beyta þessum jöfnunartækjum og það er engin tilviljun að Norðurlöndin séu meðal samkeppnishæfustu þjóða heims. Marg oft hefur verið sýnt fram á að velferð sé forsenda sjálfbærs hagvaxtar og öfugt.

Íslenska skattkerfið sker sig nokkuð úr gagnvart norrænu kerfunum og tekjujöfnunaráhrif þess eru mun minni. Á valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks jókst mjög ójöfnuður í landinu, ekki eingöngu vegna atvinnu- og fjármagnstekna heldur ýttu skattkerfisbreytingar undir misskiptingu. Með tilkomu Samfylkingar í ríkisstjórn 2007 var þessari þróun snúið við og persónuafsláttur hækkaður umtalsvert og gerðar umfangsmiklar umbætur í almannatryggingakerfinu.

Stjórnvöld standa nú frammi fyrir miklum vanda í ríkisfjármálum. Til þess að takast á við þann vanda eru verulegar skattahækkanir óumflýjanlegar. Spurningin er því hvers konar skattahækkanir eru ákjósalegastar, hvaða skattkerfi dreifi byrðunum með sanngjörnum hætti. Hér hlýtur norræna leiðin að koma til greina.

Sú norræna velferðarstjórn sem Samfylkingin veitir forystu hefur á stefnuskrá sinni að standa vörð um kjör lágtekjufólks og þá sem við erfiðastar aðstæður búa og dreifa byrðunum með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi. Hugmyndir um þriggja þrepa skattkerfi ríma mjög vel við þær áherslur. Stjórnaflokkarnir þurfa að sýna pólitískan kjark ef þeir ætla að innleiða þrepaskattskerfi því það eru gjarnan tekjuhærri hóparnir sem stjórna samfélagsumræðunni. Á dögunum „lak“ einhver hugmyndum um þau hlutföll sem verið var að vinna með í skattkerfisbreytingum í Fréttablaðið. Sjálfstæðisflokkurinn hóf gagnsókn af miklum krafti. En hvað er Sjálfstæðisflokkurinn að verja?

Ef við berum saman þriggja þrepa skattkerfið sem birtist í Fréttablaðinu við hefðbundnar Sjálfstæðisleiðir kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Ef þriggja þrepa kerfið yrði fyrir valinu, umfram hefðbundna breytingu þar sem persónuafsláttur væri látinn fylgja verðlagi og skattprósentan hækkuð jafnt á alla, myndi fólk með tekjur undir 400 þúsund krónur í mánaðartekjur koma betur út með þrepaskatti en skattbyrðin færi að þyngjast á tekjur yfir 500 þúsund krónur. Með öðrum orðum langfjölmennasti tekjuhópurinn myndi koma betur út úr þrepaskattskerfinu en við þingmenn og fólk með hærri tekjur þyrftum að borga hlutfallslega hærri skatta.

Sem jafnaðarkona á ég ekki erfitt með að verja slíkar breytingar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand