Sjávarútvegurinn og ESB

Umræðan um hugsanlega aðild Íslands að ESB snýst fljótlega upp í umræðu um sjávarútvegsmálin. Það er hins vegar margs konar misskilningur og rangfærslur í umræðunni á Íslandi um sjávarútvegsstefnu ESB. Eftirfarandi fjórar staðreyndir verður að hafa í huga… Það er alltaf ánægjulegt þegar umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu fer af stað hér á landi.

Nýleg yfirlýsing formanna norrænu jafnaðarmannaflokkanna, þar á meðal forsætisráðherra Svía, um að Ísland ætti að sækja um aðild að ESB er okkur mjög mikilvæg. Þó er öllum augljóst að ákvörðun um aðild verður í höndunum íslensku þjóðarinnar og erlendir stjórnmálamenn, sem hafa tjáð sig um hugsanlega aðild Íslands, hafa undirstrikað það. Velvilji sem norrænu jafnaðarmennirnir sýna okkur skiptir þó miklu máli.

Það er margvíslegir hagsmunir fyrir norrænu ríkin að þau vinni saman innan ESB. Atkvæðavægi allra norrænu ríkjanna í ráðherraráðinu, gangi Ísland og Noregur inn, verður meira en hinna einstöku stóru ríkja s.s. Bretlands, Þýskalands og Frakklands þrátt fyrir miklu færri íbúa á Norðurlöndunum. Í þessu felast miklir möguleikar þar sem áratugagömul norræn samvinna nýist vel.

Rangfærslur um sjávarútvegsstefnu ESB

Umræðan um hugsanlega aðild Íslands að ESB snýst fljótlega upp í umræðu um sjávarútvegsmálin. Það er hins vegar margs konar misskilningur og rangfærslur í umræðunni á Íslandi um sjávarútvegsstefnu ESB. Eftirfarandi fjórar staðreyndir verður að hafa í huga.

Í fyrsta lagi byggist sjávarútvegsstefna ESB á veiðireynslu. Það þýðir að sú þjóð sem hefur veiðireynslu á viðkomandi svæði fær kvóta úthlutuðan. Það vill svo til að Íslendingar eru eina þjóðin sem hefur veiðireynslu í íslenskri lögsögu. Eftir inngöngu Íslands í ESB munu Íslendingar eftir því sem áður fá allan þann kvóta sem verður úthlutað í íslenskri lögsögu. Hér mun því ekkert erlent fiskiskip koma til veiða en stundum er sagt að hér muni allt fyllast af spænskum togurum! Það er fjarstæða.

Samkvæmt niðurstöðum Evrópudómstólsins (Romkes-málið, 46/86) eykst veiðiréttur annarra aðildarþjóða ekki þótt Íslendingar veiði ekki upp í sinn kvóta, t.d. vegna verndarsjónarmiða.

Í öðru lagi hefur Evrópudómstóllinn búið til þá reglu að útgerðarfyrirtæki verði að hafa efnahagsleg tengsl við viðkomandi svæði sem er háð fiskveiðunum ætli það að fá úthlutað kvóta frá viðkomandi þjóð (s.s. Kerrmálið nr. 287/81 og Jaderowmálið nr. C-216/87). Þessi regla vinnur m.a. gegn kvótahoppi.
Við inngöngu Íslands í ESB er því hægt að gera frekari kröfur heldur en nú er um að hagnaður af veiðum fari í gegnum íslenskt efnahagslíf. Eins og staðan er nú er ekkert sem hindrar að verðmæti af Íslandsmiðum fari beint úr landi. Aðild Íslands að ESB kæmi því landsbyggðinni mjög til góða.

Undanþágur ekki nauðsynlegar

Í þriðja lagi er rétt að taka fram að ákvörðun um heildarkvóta viðkomandi þjóða er tekin í ráðherraráðinu eftir ráðleggingum vísindamanna. Það hefði þó litla hagnýta þýðingu í ljósi þess að við yrðum eina þjóðin sem hefði hagsmuni af þeirri ákvörðun vegna reglunnar um veiðireynslu og fengjum því allan kvóta í íslensku lögsögunni. Meginafstaða okkar hefur þó alltaf verið að styðjast við ráðleggingar vísindamanna.

En sé fólk ekki tilbúið að sætta sig við þetta eru til fordæmi fyrir því að einstök hafsvæði lúti sérstökum reglum. Þar má nefna Miðjarðarhaf, Eystarsalt, Shetlandseyjar og hafsvæði norður af Skotlandi. Einnig stendur til að taka upp sérstakt fiskstjórnunarsvæði í Norðursjó næsta haust.

Fyrir þremur árum var bent á þá leið í Evrópuúttekt Samfylkingarinnar að hægt væri að taka upp þá kröfu í aðildarviðræðum að hafið í kringum Íslands yrði skilgreint sem sérstakt hafsvæði sem mundi lúta sérstöku fyrirkomulagi. Halldór Ásgrímsson, verðandi forsætisráðherra, reifaði svipaða hugmynd hálfu ári seinna í svokallaðri Berlínarræðu sinni. Hér er ekki um að ræða undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni heldur rúmast þetta innan núverandi sjávarútvegsstefnu ESB.

Í fjórða lagi mun eftirlit á Íslandsmiðum ekki breytast við inngöngu þar sem það er í höndum viðkomandi þjóðar áfram. Sömuleiðis getur sérhver aðildarþjóð haft það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hún kýs sér. T.d. hafa Hollendingar kerfi með framseljanlegum aflaheimildum eins og er hér.

Breski sjávarútvegsráðherrann og ESB-andstæðingar

Ummæli breska sjávarútvegráðherrans um að Íslendingar ættu ekki að ganga í ESB vegna þess að við fengjum ekki undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB eru byggð á misskilningi. Íslendingar, a.m.k. Samfylkingin, eru ekki að biðja um undanþágu heldur bendir Samfylkingin á að hagsmunir okkar rúmast fyllilega innan núverandi stefnu ESB.

Andstæðingar ESB hérlendis éta hver eftir öðrum, ár eftir ár, upp þær röksemdir að aðild sé útilokuð af því að við fáum ekki undanþágu. Hver sem skoðar hinar fjórar staðreyndir um málið, sem eru raktar hér að framan, sér að þessi rök andstæðinga ESB-aðildar eru falsrök.

Verum með í samfélagi Evrópu

Með inngöngu Íslands í ESB opnast margs konar tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg, s.s. aðgangur að veiðiréttindum ESB ríkja hjá á þriðja tug ríkja um allan heim, fullt tollfrelsi og aðkoma að ákvarðanatöku um sjávarútvegsstefnuna. Einnig felast gríðarlegir hagsmunir fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, sem og önnur fyrirtæki, við upptöku á evrunni.

Umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst þó ekki eingöngu um hagsmuni. Hún snýst ekki hvað síst um það hvort við viljum vera með í samfélagi Evrópu með fullum lýðræðislegum réttindum og skyldum sem því fylgir. Ég vil að Íslendingar taki virkan þátt í evrópsku samfélagi á sömu forsendum og aðrir.

Það er hvorki tilviljun né heimska að nánast allar þjóðir Evrópu eru annaðhvort aðilar að ESB eða hafa sótt þar um aðild.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand