Sitt er hvað, þjóðarstolt og þjóðremba

Þegar Ísland byggðist á níundu og tíundu öld fluttist hingað, á sker þetta úti í ballarhafi, fólk úr ýmsum áttum, aðallega úr Noregi en einnig frá Danmörku, Svíþjóð, úr byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum og víðar að. Meirihluti landnámsmanna hefur átt norrænu að móðurmáli en hver talað með sínu lagi eftir því hvaðan hann var. Sumir hafa átt gelísku að móðurmáli. Hún hefur lifað í afdölum Írlands og á útnárum Skotlands en ekki markað djúp spor í íslenskri málsögu, aðallega lagt til ýmis orð, eiginnöfn og örnefni, svo sem tarfur, Kjartan og Dímon. Alla vega má vera lýðum ljóst að Íslendingar eru ekki komnir af einni þjóð heldur runnir saman úr ýmsum þjóðabrotum. Kom þá hver úr sinni átt
Þegar Ísland byggðist á níundu og tíundu öld fluttist hingað, á sker þetta úti í ballarhafi, fólk úr ýmsum áttum, aðallega úr Noregi en einnig frá Danmörku, Svíþjóð, úr byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum og víðar að. Meirihluti landnámsmanna hefur átt norrænu að móðurmáli en hver talað með sínu lagi eftir því hvaðan hann var. Sumir hafa átt gelísku að móðurmáli. Hún hefur lifað í afdölum Írlands og á útnárum Skotlands en ekki markað djúp spor í íslenskri málsögu, aðallega lagt til ýmis orð, eiginnöfn og örnefni, svo sem tarfur, Kjartan og Dímon. Alla vega má vera lýðum ljóst að Íslendingar eru ekki komnir af einni þjóð heldur runnir saman úr ýmsum þjóðabrotum.

Að bjarga sér
Nú, meira en þúsund árum eftir landnám, kippa sumir sér upp við að útlendingar skuli setjast að á Íslandi, hvort sem það eru flóttamenn eða aðrir. En hafa menn ástæðu til þess? Fyrst má nefna að nýbúar eru langflestir í vinnu og gjalda keisaranum það sem keisarans er – með sköttum og skyldum. Drjúgur hluti þeirra sinnir störfum (eins og fiskvinnslu) sem Íslendingar virðast margir fúlsa við, hvernig sem á því stendur. Nýbúar á Íslandi verða víst seint skammaðir fyrir að bjarga sér ekki.

Að nema framandi tungu
Mál nýbúa ógna ekki íslensku enda hefur nábýli við framandi mál minnihlutahópa sáralítil eða engin áhrif á þjóðtungur – nokkuð sem er viðurkennt í almennum málvísindum. Þess utan reka Íslendingar öfluga hreintungustefnu og þá fyrst og fremst gegn öllu raunverulegri vá: áhrifum ensku í gegnum hljóð- og sjónmiðla.

Það er auðvitað æskilegt að nýbúar nái tökum á ástkæra, ylhýra málinu en getur gengið eins misjafnlega og mennirnir eru margir. Því verður að taka með jafnaðargeði. Íslenskur orðaforði er til dæmis síður en svo fyrirsegjanlegur út frá útbreiddustu málum veraldar, samanber orðið sími. Eins er beygingakerfið snúið, fátt um reglur en mikið um undantekningar. Utanbókarlærdómurinn virðist því óþrjótandi.

Ekki léttir það námið að margir nýbúar eiga sér gjörólíkt móðurmál. Íslenskir málhafar mega sjálfir gera sér í hugarlund hvernig þeim gengi að verða fullnuma í baltneskum eða slavneskum málum (litháísku, lettnesku; rússnesku, pólsku, serbnesku, búlgörsku …), hvað þá alls óskyldum tungum (arabísku, tyrknesku, víetnömsku, kínversku, japönsku …). Maður hnýtur frekar um lýtin hjá útlendingi í eigin móðurmáli en hjá sjálfum sér í framandi tungu. Það er, eins og endranær, auðveldara að sjá flísina í auga náungans en bjálkann í eigin auga.

Að semja sig að framandi siðum
Ýmislegt í siðum nýbúa gæti vel orðið innfæddum til eftirbreytni, til dæmis nægjusemi í daglegu lífi, vitrænni drykkjusiðir og fjölbreyttari matarmenning. Að sama skapi gætu nýbúar dregið dám af sumu í fari innfæddra, alla vega þeir sem hefur verið innrætt þröngsýni í garð kvenna og samkynhneigðra. Samt eiga Íslendingar sjálfir langt í land með að uppræta misrétti eftir kynferði og kynhneigð eins og ég hef áður tönnlast á.

Affarasælast er að innfæddir og nýbúar eigi sem mest samneyti. Þannig er líklegast að þeim takist að lifa í sátt og samlyndi, jafnvel að renna um síðir saman í eitt, rétt eins og landnámsmennirnir gerðu forðum daga.

Að kitla þjóðarstoltið
Afreksmenn í hópi nýbúa eru öllum til sóma. Sumir þeirra hafa góðu heilli fengið íslenskan ríkisborgararétt og borið hróður landsins víða. Dæmi um það eru píanóleikarinn Vladimir Ashkenazy, handboltamennirnir Róbert Julian Duranona og Roland Valur Eradze, fimleikamaðurinn Rúnar Alexandersson og skákkonan Lenka Ptácnikova.

Nú óskar Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák, eftir hæli hér af mannúðarástæðum og fær það vonandi. Hver veit nema hann fáist til þess á efri árum að tefla á opinberum vettvangi og þá fyrir Íslands hönd?!

Að hafa hjartað á réttum stað
Nýbúar á Íslandi eru upp til hópa mætustu menn og ódeigir við að styrkja innviði samfélagsins: Þeir draga björg í bú með vinnu sinni, auðga menninguna með siðvenjum sínum og auka hróður landsins með afrekum sínum. Það er full ástæða til víðsýni og umburðarlyndis, að hafa hjartað á réttum stað en ekki í buxunum. Vera má að í árdaga Íslandsbyggðar hafi verið hér eins konar fjölmenningarsamfélag. Nú, meira en árþúsundi síðar, er góðra gjalda vert að vera stoltur af þjóðerninu en öllu má ofgera. Sitt er hvað, þjóðarstolt og þjóðremba.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið