Ritstjórn Pólitíkur.is lýsir undrun sinni á því að Landssíminn, sem enn er nánast einvörðungu í ríkiseigu, skuli hafa keypt eignarhaldsfélagið Fjörgný en það á ríflega fjórðungshlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur Skjá einn. Enn furðulegra er að með kaupunum skuli Síminn hafa eignast útsendingarréttinn að ensku knattspyrnunni á Íslandi. Ritstjórn Pólitíkur.is lýsir undrun sinni á því að Landssíminn, sem enn er nánast einvörðungu í ríkiseigu, skuli hafa keypt eignarhaldsfélagið Fjörnir en það á ríflega fjórðungshlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur Skjá einn. Enn furðulegra er að með kaupunum skuli Síminn hafa eignast útsendingarréttinn að ensku knattspyrnunni á Íslandi.
Pólitík.is finnst ekki eðlilegt að Síminn skuli hasla sér völl með svo afgerandi hætti á fjölmiðlamarkaði nú rétt áður en hann verður einkavæddur. Eðlilegra hefði verið í alla staði að leyfa nýjum eigendum að taka ákvörðun um svo mikilvæga þætti í rekstrinum.
Þó svo að Pólitík.is styðji einkavæðingu Símans að því leyti sem hann er í samkeppnisrekstri, setur vefritið spurningamerki við að ætlunin skuli vera að selja grunnnet hans í leiðinni. Ákveði stjórnvöld samt sem áður að selja grunnnetið með Símanum hvetur ritstjórnin þau til að búa svo um hnútana að réttur samkeppnisaðila Símans til aðgangs að netinu verði bæði ríkur og tryggur.
Furðu vekja hugmyndir um að selja eigi fyrirtækið í einu lagi. Síminn er eitt af stærri fyrirtækjum landsmanna og myndi sóma sér vel sem almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands. Þó vel geti verið gild rök fyrir því að selja einum fjárfesti bróðurpart hlutafjárins, sér Pólitík.is ekki röksemdir fyrir að selja slíkum fjárfesti fyrirtækið að öllu leyti. Með því er verið að svipta almenning möguleikum á hlutdeild í þeirri útrás sem búast má við að Síminn leggi í á komandi árum.
Mikilvægt er jafnframt að söluandvirði Símans renni í að greiða niður skuldir ríkissjóðs og/eða skuldbindingar hans við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Einnig kemur til greina að fjármunirnir renni að einhverju leyti í vel skilgreind og afmörkuð fjárfestingarverkefni, svo sem byggingu hátæknisjúkrahúss eða gerð greiðra vega á höfuðborgarsvæðinu.