Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um breytingar á miðbænum okkar hér á Akureyri. Fólk hefur yfirleitt sterkar skoðanir á þessu máli; hvort sem það er varðandi síki, verslunarmiðstöðvar eða neðanjarðarbílastæði. Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til neins af þessu hér en mig langar að velta upp ákveðnu efni sem ég hef verið að spá í.
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um breytingar á miðbænum okkar hér á Akureyri. Fólk hefur yfirleitt sterkar skoðanir á þessu máli; hvort sem það er varðandi síki, verslunarmiðstöðvar eða neðanjarðarbílastæði. Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til neins af þessu hér en mig langar að velta upp ákveðnu efni sem ég hef verið að spá í.
Ekki nóg að gert í fjölgun rýma
Mér skilst að síki muni kosta bæinn hálfan milljarð króna eða rúmlega það. Út frá þeirri tölu fór ég að velta fyrir mér hvort þessum peningum væri ekki betur varið í eitthvað annað. Datt þá strax í hug fullorðna fólkið okkar hér á Akureyri. Hvað erum við að gera fyrir það?
Nú er verið að byggja nýja álmu við Hlíð þar sem eiga að rúmast 60 einstaklingar, allir í sér herbergi með sér snyrtingu. Fyrirhugað er að flytja frá Kjarnarlundi árið 2008 og það hlýtur að eiga að flytja frá Skjaldarvík þegar nýja byggingin verður tekin í notkun, enda var þar bara verið að leysa mesta vandann. Þar eru komnir um 50 manns. Svo á að breyta 2ja manna herbergjunum í eins manns. Þá sýnist mér að búið sé að fylla þessa nýju álmu. Hver er staðan þá í málefnum aldraðra á Akureyri. Eða er það bara seinnitíma vandamál fyrir næstu kosningar?
Ég veit einnig til þess að það þarf að fara í miklar lagfæringar á einni álmu Hlíðar sem heitir Einihlíð og á að loka þeim gangi þegar nýja byggingin verður tekin til starfa í haust. Eftir þeim heimildum sem ég hef hefur ríkið ekki lofað neinum peningum að sinni í slíkar viðgerðir svo hvernig væri að taka eitthvað af síkispeningunum og setja í þær lagfæringar?
Aldraðir eiga skilið að fá góða umönnun
Annað sem mér datt í hug að við gætum nýtt síkispeningana í er að fjármagna stöðu öldrunarlæknis við öldrunarheimili Akureyrarbæjar. Á öllum helstu öldrunarstofnunum í Reykjavík eru sérhæfðir öldrunarlæknar. Eins og er skilst mér að heilsugæslulæknarnir hér á Akueyri sinni öldrunarheimilunum. Þeir koma tvisvar í viku í húsvitjanir og vinna þar mjög gott starf. Það segir sig samt nokkurn vegin sjálft að það væri betra að hafa þarna einn lækni sérhæfðan í öldrunarmálum.
Ég fer helst ekki til heilsugæslulæknis þegar ég þarf á aðstoð kvensjúkdómalæknis að halda. Ég panta tíma hjá sérhæfðum eyrnalækni ef að mér er illt í eyrunum. Það er hverju samfélagi til skammar sem ekki sinnir vel hinum öldruðu, það eru þau sem eru ömmur okkar og afar. Þau sem byggðu það sem að við njótum nú. Ætli þeir sem stjórna landinu í dag myndu sætta sig við að vera í sömu sporum?
Ég sé fyrir mér ráðherra landsins, til dæmis Siv Friðleifs eða Þorgerði Katrínu vera á stað þar sem þau þyrftu að deila herbergi með öðrum, starfsfólkið sem sinnti þeim væri þreytt og óánægt og ekki tími til að sinna öllum þeirra þörfum. Það þarf að breyta hugsunarhættinum hjá ráðafólki þjóðarinnar. Við erum að selja öldruðum þjónustu og við eigum að kappkosta að það sé ánægt með hana.