Hvað vilja ungir frambjóðendur D-lista?

Hvað eru meðlimir Heimdallar að bralla? spyr Hidur Edda Einarsdóttir .

 
Nú þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar snýst kosningabaráttan fyrst og fremst um trúverðugleika. Við jafnaðarmenn í Reykjavík erum sjálfum okkur samkvæm og boðum gjaldfrjálsa leikskóla, bætt kjör aldraðra, öflugt menningarlíf og svo framvegis – eins og við höfum alltaf gert. Helsti andstæðingur okkar, Sjálfstæðisflokkurinn, boðar einnig félagshyggju með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í fararbroddi. Að vísu gengur flokkurinn ekki eins langt og Samfylkingin varðandi leikskóla þar sem hann býður einungis upp á 25% lækkun á leikskólagjöldum, en að öðru leyti er fremur erfitt að sjá mun á þeirra stefnu og stefnu Samfylkingarinnar í meginatriðum. Ég get ímyndað mér að það sé því talsvert erfitt fyrir óákveðna kjósendur að gera upp hug sinn. Sjálfstæðisflokkurinn segist nefnilega ætla að halda áfram þeirri uppbyggingu sem R-listinn hefur stuðlað að, en ætli auðvitað gera það betur en Samfylkingin.

Það er gott og blessað ef það er sannarlega rétt að framtíð Reykjavíkur er í höndum félagshyggjufólks eins og stóru framboðin tvö, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, lofa kjósendum sínum.

 
En hvað með Heimdall?

Þeir lofa því vissulega. En er þetta sannleikur? Ég hef sjaldan orðið vitni að eins grímulausri hræsni og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sýna af sér nú trekk í trekk. Í Íslandi í dag í byrjun vikunnar var Vilhjálmur Þ látinn svara fyrir stefnu Heimdellinga og hans svar var afdráttarlaust: “Þeir sem þekkja mig vita að ég hef beitt mér fyrir öflugri þjónustu handa öldruðum í mínu starfi í borgarstjórn.”

Gott og vel, Vilhjálmur er ekki Heimdellingur og tekur ekki undir þeirra stefnu. En á lista Sjálfstæðisflokksins er fjöldi ungs og efnilegs fólks sem tilheyrir röðum Heimdalls nú eða hefur gert það nýlega. Eins og við jafnaðarmenn höfum bent á gengur Heimdallur mjög langt í sinni frjálshyggju og í nýsamþykktri stefnu sinni um að opinber rekstur leikskóla sé tímaskekkja og að hið opinbera eigi ekki að styrkja menningu og listir. Við höfum margsinnis átt í málefnalegum rökræðum við Heimdellinga um réttmæti ofangreindra styrkja til mennta- og menningarmála þar sem þeir hafa iðulega verið ósammála okkur. Sú afstaða þeirra kom skýrt fram á heimasíðu þeirra, frelsi.is, sem nú er af einhverjum ástæðum falin. Í stað hennar er komin upp kosningasíðan d.is þar sem ekki er minnst einu orði á hina raunverulegu stefnu ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þvert á móti virðast þeir vera algerlega búnir að skipta um skoðun samanber stefnumál þeirra. Allt í einu vilja þeir fyrir kosningar fjölga uppákomum listhópa í miðbænum, bæta leiðarkerfi Strætó, halda útihátíðir á útivistarsvæðum borgarinnar og svo framvegis. Þeir nefna að vísu ekki hvernig þeir ætla að gera allt þetta eða fjármagna. Ætla þeir til dæmis að lækka skatta? Ætla þeir að auka fjárframlög borgarinnar til menningaruppákoma? Vilja þeir halda áfram að halda menningarnótt og listahátíð? Af hverju minnast þeir ekki einu orði á leikskólana? Eru þeir ennþá á því að opinber rekstur þeirra sé tímaskekkja?

 
Ný skoðun eða kosningabrella?

Að skipta algerlega um skoðun fyrir kosningar hefur jafnan verið lenska hjá Sjálfstæðismönnum sem eru nógu klókir til að skilja að jaðarfrjálshyggja á ekki upp á pallborðið hjá mörgum kjósendum. Ungir Sjálfstæðismenn í Reykjavík bæta um betur og fela heimasíðu sína með frjálshyggjuáróðrinum fyrir kjósendum og virðast ekki sjá neitt athugavert við að lofa nú hinu gagnstæða, nefnilega því að borgin hlúi enn betur að menningu og listum en R-listinn hefur gert. Eru þeir búnir að skipta um skoðun eða er þetta einfaldlega kosningabrella?

Ég vona að unga fólkið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sé hreykið af sinni nýju stefnu. Eða er hún ekki stefna þeirra? Vilja þeir bara völd valdanna vegna?
 
 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið