Lárus Heiðar Ásgeirsson skrifar um kosningarnar í Austurríki og góða útkomu jafnaðarmanna þar í landi. Skoðanakannanir sem birtust fyrir kosningarnar bentu allar til þess að Þjóðarflokkurinn héldi stöðu sinni sem stærsti flokkur Austurríkis, en þeirri stöðu náði hann af jafnaðarmönnum í kosningunum fyrir fjórum árum. Sósíaldemókratar (SPÖ) unnu óvæntan sigur í þingkosningunum hér í Austurríki síðast liðinn sunnudag. Skoðanakannanir sem birtust fyrir kosningarnar bentu allar til þess að Þjóðarflokkurinn (ÖVP) héldi stöðu sinni sem stærsti flokkur Austurríkis, þeirri stöðu náði hann af SPÖ í kosningunum 2002. Hérna í Austurríki er hefðin önnur en hjá okkur á Klakanum, breiðfylking Jafnaðarmanna hefur á síðari árum verið stærrsti flokkurinn eins og víða í Evrópu. Það sem einnig vekur athygli er einkum tvennt, léleg þátttaka og mikið fylgi öfgahægri flokka.
Kosningaþátttakan var aðeins um 74% og í höfuðborginni var hún undir þessu meðaltali. Það sem verra er að 15% atkvæðanna fóru til tveggja flokka sem sækja fylgi sitt með því að benda á hættuna sem stafar af útlendingum í landinu og lausnina telja þeir vera að reka þá sem ekki uppfylla ströng skilyrði þeirra úr landi. Stærð þessara flokka sýnir að sjálfsögðu að töluverður hluti fólks telur þessi mál aðkallandi og það verða hinir flokkarnir að athuga. Miðað við þær fréttir sem að borist hafa frá Suður-Spáni og Kanaríeyjum undanfarna mánuði virðast þessi vandamál vera að aukast og við því verður að bregðast eins og Evrópusambandið hefur nú bent á. Lausnin felst samt sem áður ekki í því að senda fólk í burtu sem ekki uppfyllir skilyrðin og loka landamærunum, því að aðstæðurnar sem að fólkið flýr verða þá ennþá til staðar og þær má, að mínu mati, að miklu leyti rekja til aðgerða og sinnuleysis Vesturlanda.
En aftur að austurrískum jafnaðarmönnum, þá eiga þeir erfitt verkefni fyrir höndum að mynda ríkistjórn, þ.e. með öðrum en Þjóðarflokknum. Þó á eftir að telja utan kjörfundaratkvæði og þar gæti það farið svo að Grænir nái auknu fylgi og því er sá möguleiki fyrir hendi að vinstistjórn verði mynduð. Ef ekkert gengur eru líkur á því að kjósa þurfi aftur, því fólk myndi ekki sætta sig við ríkistjórn með ÖVP og öfgaflokkunum tveimur.
SPÖ lögðu mesta áherslu á grunnstoðir jafnaðarmanna í baráttu sinni og það er talið hafa skilað þeim þessum sigri, einfalt og árangursríkt. Það er eitthvað sem við gætum ef til vill lært af jafnaðarmannaflokkum sem hafa í langan tíma verið stórir.
Það er gaman að fylgjast með sigrum jafnaðarmanna um víða veröld, því eins og við vitum þá er baráttan fyrir jöfnuði ekki bundin við landamæri heldur á hún erindi í hvert horn heimsins.
Greinin birtist á vefsíðu Ungra jafnaðarmanna á Akureyri – uja.is – sl. föstudag, 6. október.