Sáttmáli um nýtt jafnvægi

Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar er haldinn var í Reykjanesbæ í dag, 2. desember 2006. Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar er haldinn var í Reykjanesbæ í dag, 2. desember 2006.

Góðir samherjar, vinir og samstarfsfólk. Velkomin til flokksstjórnarfundar.

Prófkjörum flokksins er lokið, fleiri buðu sig fram en nokkru sinni fyrr og sem formaður Samfylkingarinnar er ég full stolts yfir því mannvali sem þar kom fram. Um leið veit ég vel að fólkið í flokknum átti erfitt val mjög víða – ég heyrði hjá mörgum að valkvíði var útbreiddur þegar haldið var á kjörstað – fólk gat ekki kosið alla sem það vildi kjósa og vildi fáum hafna. Reyndur kjósandi í Suðvesturkjördæmi sagði við mig að oft hefði hann strokað út þá sem hann teldi ekki hæfa og kosið afganginn, en sú aðferð hefði ekkert dugað að þessu sinni.

Sumir höfðu erindi sem erfiði að þessu sinni og fengu stuðning í örugg sæti, aðrir stimpluðu sig inn með afgerandi ætti og gætu komið sterkir inn að fjórum árum liðnum. Forysta flokksins fékk góða traustsyfirlýsingu frá kjósendum og persónulega vil ég þakka fyrir þann góða stuðning sem ég fékk í fyrsta sætið í Reykjavík þrátt fyrir að flokkurinn hafi átt á brattann að sækja í skoðanakönnunum að undanförnu. Þessi stuðningur skiptir mig miklu máli í aðdraganda kosninga og gefur mér þann kraft sem hverjum manni er nauðsynlegur sem tekst á við harðskeytta andstæðinga. Staðráðin í að leggja mig alla fram í þágu þess góða og vel gerða fólks sem vill veg jafnaðarstefnunnar sem mestan.

Prófkjör er aðferð sem á að tryggja lýðræðislega aðkomu flokksmanna og stuðningsmanna en þau eru ekki gallalaus. Stærsti galli þeirra er kannski sá að þau eru eins og blindingsleikur –ákveðin tilviljun sem ræður því hvernig fólk raðast saman. Fyrir vikið getur myndast svæðisbundinn halli, aldurshalli, starfsgreinahalli og kynjahalli. Þar sem það hefur gerst verður Samfylkingin að vinna upp þann halla eftir öðrum leiðum sem tiltækar eru. Í dag erum við stödd í Reykjanesbæ og við erum auðvitað ekki sátt við þá staðreynd að enginn Suðurnesjamaður er í öruggu sæti á listanum okkar í Suðurkjördæmi. Þetta gerir þá kröfu til frambjóðenda okkar að þeir taki upp náið og gott samráð við okkar fólk hér á svæðinu og leggi sig sérstaklega fram um að setja sig inn í aðstæður þessa svæðis og tala máli þess. Það sama á við í öðrum kjördæmum þar sem eins háttar til. Ég veit að frambjóðendur í Suðurkjördæmi eru þegar byrjaðir og ég treysti þeim fullkomlega til að vera öflugir málsvarar Suðurnesja.

Ég dreg ekki dul á þá skoðun mína að hlutur kvenna sé of rýr í landsbyggðakjördæmunum. Í þessari skoðun felst engin andstaða við þá öflugu karlmenn sem náðu öruggum sætum en ég væri hvorki heiðarleg né trú minni lífsskoðun ef ég legði ekki áherslu á mikilvægi þess að hlutur kvenna og karla sé sem jafnastur þar sem ráðum er ráðið, ákvarðanir teknar og stefna mótuð. En það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði og freista þess að ná inn þeim konum sem sitja í baráttusætum Samfylkingarinnar í fimm af sex kjördæmum.

Til þess að Samfylkingin nái markmiðum sínum í vor þá þurfum við að ná inn Kristrúnu í Reykjavík, Ragnheiði í Suðurkjördæmi, Önnu Kristínu í Norðvestur, og Láru í Norðausturkjördæmi. Fyrir kjósendur er valið skýrt – ef þeir vilja auka veg kvenna á þingi þá er Samfylkingin klárlega rétti kosturinn. Og ef þeir vilja auka hlut kvenna í ríkisstjórn þá liggur leiðin í gegnum Samfylkinguna því ég mun að sjálfsögðu gæta þess í næstu ríkisstjórn að jafnræði verði milli kvenna og karla í okkar ráðherrahópi. Við munum ekki verða eftirbátar jafnaðarmanna í öðrum löndum s.s. Persons í Svíþjóð, Zabatero á Spáni og Stoltenbergs í Noregi.

Jafnaðarstefnan hefur alltaf verið stefna iðju og athafna og jafnaðarflokkar hafa alltaf haft náin tengsl við verkalýðshreyfingu og atvinnulíf. Jafnaðarflokkar eiga sér langa sögu, eru raunsæir og vita af langri og oft biturri reynslu að fátt vegur eins að krafti samfélags og sjálfsmynd fólk og viðvarandi atvinnuleysi. Þessa reynslu hefur Samfylkingin tekið í arf og við erum stolt af þessum arfi. En við lifum ekki á arfinum einum saman, við þurfum að ávaxta vel okkar pund og þróa jafnaðarstefnuna í takt við nýja tíma.

Fyrir utan verkalýðshreyfinguna eru mikilvægustu félagshreyfingar þessarar aldar kvennahreyfingin og umhverfisverndarhreyfingin. Báðar hafa þessar hreyfingar lagt mjög mikilsverðan skerf til hinnar pólitísku umræðu og opnað nýja sýn á samfélag okkar og umhverfi. Þær hafa bent okkur á fátækt þess samfélags – jafnvel þó ríkt sé talið í beinhörðum peningum – sem ekki metur eða nýtir krafta, reynslu og menningu kvenna til fulls og sem fórnar þeim náttúruverðmætum sem eiga að ganga í arf til afkomenda okkar.

Hin nýja jafnaðarstefna varðveitir það besta af iðju-, félags- og mannúðarviðhorfum klassísku jafnaðarstefnunnar en auðgar hana líka með nýjum mannréttindaviðhorfum kvennahreyfingarinnar og náttúrusýn umhverfishreyfingarinnar. Hreyfing eða flokkur sem nær að fanga þetta í stefnu sinni og starfi er í senn í takt við sína samtíð og gefur fyrirheit um framtíðina. Þannig flokkur á Samfylkingin að vera. Þannig flokki vil ég veita forystu.

Góðir félagar,

Á vorþingi Samfylkingarinnar fyrir þremur og hálfu ári gaf ég sem forsætisráðherraefni þá yfirlýsingu að það yrði fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar að taka Ísland formlega af lista hinna viljugu þjóða er studdu innrás Bandaríkjanna í Írak. Í dag, kæru vinir, ítreka ég þetta loforð – sannfærð um að það er þörf á því sem aldrei fyrr. Samfylkingin mun aldrei styðja árásarstríð sem leiðir til fjöldamorðs á saklausum borgurum.

Loforð mitt þá kölluðu andstæðingar okkar ístöðuleysi – þeir sögðust staðfastir. Eins og komið hefur á daginn áttu þessir merkimiðar þeirra ekkert skylt við veruleikann – ekki í þessu máli frekar en öðrum. Stjórnarliðar reyndust siðferðilega ístöðulausir, tóku ranga ákvörðun og iðrast þess nú sáran – flestir í hljóði.

Núna reynir Framsóknarflokkurinn að sleikja af sér smánarblettinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn leggst svo lágt að segja að það skipti engu máli þó Ísland hafi lagt nafn sitt við stríð þar sem hundruð þúsunda saklausra óbreyttra borgara hafa látið lífið. Ísland sé svo lítið! Nú stefnir í að þetta frjósama svæði þar sem fyrsta menningarsamfélag heimssögunnar reis fyrir mörg þúsund árum verði skilið eftir í stjórnlausri borgarastyrjöld, ólýsanlegri þjáningu og hörmungum venjulegs fólks og barna. Óöryggið í Mið-Austurlöndum og þar með heiminum öllum eykst stöðugt.

Samfylkingin vissi alltaf hvar hún stóð gagnvart Íraksstríðinu því hún byggir á grunngildum sem eru vegvísar okkar í afdrifaríkum málum. Í utanríkis- og alþjóðamálum leggur Samfylkingin áherslu á að farið sé að alþjóðalögum, mikilvægi Sameinuðu þjóðanna virt og skilningur ríki milli menningarsamfélaga. Ríkisstjórn Íslands kaus að styðja nýja alþjóðastefnu Bandaríkjastjórnar sem hefur sýnt sig að er sögulegt slys og Bush stjórnin er nú rúin trausti í eigin landi og um allan heim. Hér á Íslandi tekur ríkisstjórnin hins vegar enn leiðsögnina frá Washington.

Íraksmálið er táknrænt mál og til marks um vinnubrögð stjórnarflokkanna, pólitískt ístöðuleysi og stefnuleysi. Pólitískur kattaþvottur fjórum árum seinna skiptir engu raunverulegu máli. Það sem skiptir máli er stefna Íslands sem samfélags hér heima og sem sjálfstæðs ríkis á heimsvettvangi. Stefnubreytingin verður engin nema Samfylkingin taki við stjórnartaumum.

Hleranamálið er líka táknrænt mál af sama meiði. Þar dugir heldur enginn kattaþvottur. Umfang hlerananna er mun meira en nokkurn óraði fyrir og sýnir hvernig ríkisvaldi hefur verið beitt eða misbeitt á Íslandi á umliðnum áratugum. Svo virðist sem stjórnmálamönnum og embættismönnum hafi þótt sjálfsagt að neyta aflsmunar þess sem fer með ríkisvaldið gagnvart einstaklingum sem höfðu ekkert til saka unnið annað en að hafa skoðanir sem voru valdsmönnum ekki hugnanlegar.

Hleranir kunna að vera liðin tíð en þær eru hluti af pólitískum arfi – pólitísku stjórnlyndi – sem við þurfum að gera upp við. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarflokkur ríkisvalds á Íslandi stóran hluta síðustu aldar og það sem af er þessari. Enginn flokkur hefur beitt ríkisvaldi jafn purkunarlaust og hann. Nú þarf að láta á það reyna hvort nýtt fólk í forystu flokksins vilji í raun og sann gera upp við gamla stjórnlyndið. Samfylkingin mun beita sér fyrir því að þingskipuð nefnd rannsaki hleranamálin og velti þar við hverjum steini. Allt annað væri lítilsvirðing gagnvart borgaralegum réttindum, lýðræði og málfrelsi.

Kæru jafnaðarmenn.

Hið málefnalega frumkvæði í íslenskum stjórnmálum hefur undanfarið ár verið Samfylkingarinnar. Þetta er staðreynd sem ýmsir kjósa að líta framhjá. Ég tek aðeins örfá dæmi.

– Í þessari viku, fimm mánuðum fyrir kosningar en eftir sextán ár í ríkisstjórn, mætti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til þings með tillögu að lækkun matarskatts. Hvers vegna? Vegna þess að Samfylkingin tók frumkvæðið í haust með metnaðarfullum tillögum um lækkun matvælaverðs. Tillaga ríkisstjórnarinnar er léleg eftirlíking: Ábati heimilanna verður bara helmingur þess sem Samfylkingin lagði til en kostnaður ríkissjóðs talsvert meiri vegna þeirrar leiðar sem valin var.

– Ríkisstjórnin hefur kynnt það sem hún kallar nýja sátt í auðlindamálum. Hvers vegna? Vegna þess að Samfylkingin hefur kynnt fyrir þingi og þjóð einu færu leiðina til framtíðar, sáttina milli sjónarmiða náttúruverndar og orkunýtingar. Sú sátt byggir á tillögum þingflokks Samfylkingarinnar um Fagra Ísland sem felur í sér rammaáætlun um náttúruvernd og skýrar leikreglum við nýtingu og úthlutun náttúrugæða. Skýrslan um hina s.k. sátt í auðlindamálum var unnin að frumkvæði Samfylkingarinnar, fyrir harðfylgi þingmanna hennar og með leiðsögn frá henni.

– Í þessari viku kom fram að ríkisstjórnin leitar nú loksins til annarra þjóða en Bandaríkjanna um samstarf í öryggis- og varnarmálum. Hvers vegna? Vegna þess að ólíkt Samfylkingunni sagði ríkisstjórnin aldrei satt. Hún sagði þjóðinni aldrei að nýi varnarsamningurinn væri ófullnægjandi og í raun samningur á forsendum Bandaríkjanna um Keflavík sem vara- eða æfingaherstöð. Samfylkingin lagði til í mars á þessu ári að stjórnvöld leituðu fjölþjóðlegs samstarfs í öryggis- og varnarmálum á vettvangi Nató en nú átta mánuðum síðar er ríkisstjórnin loksins að ranka við sér og leitar í örvæntingu að fleiri samstarfsaðilum en Bandaríkjunum. Allt sem Samfylkingin sagði er komið á daginn.

– Lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna eru í burðarliðnum. Hvers vegna? Vegna þess að Samfylkingin hefur barist fyrir málinu árum saman og neitað að gefast upp fyrir þeim sem vildu ekki að starfsemi og fjármál flokkanna væru opin og gagnsæ.

Það er gott að ríkisstjórnin er loksins að átta sig á því að Samfylkingin er með bestu lausnirnar en við þurfum enga leppstjórn í bleikum náttkjólum. Samfylkingin er tilbúin að taka við og er miklu betur til þess fallin að hrinda sínum góðu stefnumálum í framkvæmd sjálf. Og gleymum því ekki að þess ríkisstjórn hefur engar lausnir þegar kemur að því að leiðrétta ójöfnuðinn sem hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, í innflytjendamálunum, í eftirlaunamálinu, í lífeyrismálum eldri borgara, í öllum þeim málum sem særa réttlætiskennd almennra borgara í samfélaginu. Ríkisstjórnin hefur haft 12 ár til að gera eitthvað í þessum málum og nú er nóg komið. 12 ár er nóg. Nú er komið að skuldadögum – þjóðin á betra skilið.

Góðir jafnaðarmenn.

Blágræna bandalagið er tólf ára og vandi þess er að það er lúið, hugmyndasnautt og sinnulaust um framtíðina. Það tekst ekki á við aðkallandi verkefni og þess vegna eykst mismunun stöðugt, verðbólga er viðvarandi, viðskiptahalli met í þeirri hagsögu sem heimildir eru til um, vextir eru hér hærri en þekkist annars staðar á Vesturlöndum, skuldir heimilanna og fyrirtækjanna vaxa ár frá ári, gengissveiflur hrekja mikilvæg fyrirtæki og vinnustaði úr landi, heilbrigðisþjónustan er stefnulaus og sliguð af biðlistum, vafi þjóðarinnar um hlutleysi ákæruvalds er óviðunandi, eftirlitsstofnanir í viðskiptalífinu skortir trúverðugleika, eiturlyfjavandinn vex með ógnarhraða, menntamál þjóðarinnar þarfnast nýrrar heildstæðrar sýnar, aðlögun útlendingar er vanrækt stórverkefni. Ég gæti haldið lengi áfram en verkefni okkar er ekki bara það að telja upp vandamálin heldur setja fram lausnir.

Samfylkingin er sex ára og vandi hennar er að þrátt fyrir tilvistarkreppu og slælega frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna hefur okkur ekki tekist að nýta þau sóknarfæri sem gefist hafa. Það segja skoðanakannanir okkur. Ekki vegna þess að Samfylkingin hafi ekki stefnu – bendi ekki á lausnir – enda fullyrði ég að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur tekist eins alvarlega á við stefnumótun og Samfylkingin. Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum – ekki ennþá, ekki hingað til. Of margt fólk sem vill og ætti að kjósa okkur – allur meginþorri Íslendinga sem hafa sömu lífssýn, áhyggjur og verkefni og við – hefur ekki treyst þingflokknum fyrir landsstjórninni. Þetta fólk hefur ekki treyst okkur til þess að gæta hagsmuna þeirra, tryggja stöðugleika, fara með skattpeninga af ábyrgð, gæta þess að atvinnulíf okkar sé samkeppnishæft og vernda hagsmuni Íslands utan landssteinanna.

Fólkið langar en hefur ekki þorað – hingað til. Nú verður á þessu breyting.

En af hverju núna? Jú, vegna þess að Samfylkingin er tilbúin, frambjóðendur eru tilbúnir og ég er tilbúin. Ég ætla að sjá til þess að Samfylkingin vinni ötullega í nýrri ríkisstjórn, víki sér ekki undan erfiðum verkum, sýni samstöðu, stefnufestu og ábyrgð. Ég treysti því og trúi að þingmenn allir og flokksmenn komi með mér í þennan leiðangur því annars höfum við ekki erindi sem erfiði. Annars náum við ekki árangri í þágu íslensks almennings.

Í nýrri ríkisstjórn ætla ég að sjá til þess að víðtækur sáttmáli verði gerður um nýtt jafnvægi í íslenskum stjórnmálum og efnahagsmálum. Samfylkingin vill stjórna með samráði en ekki valdboði að ofan og á næstum mánuðum munum við kynna hvernig nýir stjórnarhættir yrðu útfærðir í formlegu og skuldbindandi samkomulagi milli stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og öflugra almannasamtaka um stefnu og áfanga í atvinnumálum, hagstjórn, vinnumarkaðsmálum, ríkisfjármálum og úrbótum í almannaþjónustu. Frændur okkar Finnar og Írar hafa þróað metnaðarfull og marksækin samráðsstjórnmál og ná fyrir vikið alvöru árangri í þekkingarhagkerfinu – draga til sín fólk, fjárfestingu og fyrirtæki. Af þeim hefur Samfylkingin lært og við vitum að forystufólk á mörgum sviðum íslensks samfélags hefur horft til þessara vinnubragða lengi og beðið eftir að þau yrðu innleidd hér á landi. Þar mun Samfylkingin hafa forystu.

Ekkert er eins mikilvægt fyrir íslenskan almenning – venjulegt, vinnandi fólk – og að koma á jafnvægi í íslensku samfélagi og hagkerfi. Ójafnvægið hefur verið dýru verði keypt í upplausn, spennu og útgjöldum. Kosningaloforð stjórnarflokkanna í síðustu kosningum um hagsbætur til almennings í formi skattalækkana og hærri húsnæðislána reyndust hjóm eitt. Nýir útreikningar sýna svart á hvítu að allar lækkanirnar á skatthlutföllum eru þegar uppétnar úr vösum venjulegs fólks og gott betur. Átvöglin heita vextir og verðbólga. Nýjir útreikningar sýna að verðbólga undanfarinna ára, sem er afleiðing stjórnvaldsaðgerða, hefur étið upp allan ávinninginn af lægra skatthlutfalli hjá venjulegri fjölskyldu og það sem verra er, skuldabyrði heimilanna í landinu hefur aukist verulega.

Tökum dæmi af hjónum með 500.000 krónur heildartekjur á mánuði sem tóku 12,5 milljóna króna húsnæðislán til 20 ára árið 2003 í upphafi þessa kjörtímabils. Þessi hjón hefðu að öðru jöfnu fengið 110 þúsund krónur í skattalækkun á ári á undanförnum 4 árum. En verðbólgan hefur hins vegar hækkað afborgunina af húsnæðisláni þeirra um jafnháa upphæð á sama tímabili, m.ö.o. skattalækkunin er öll farin í hærri afborganir af húsnæðisláninu. En það segir ekki alla söguna – uppreiknaður höfuðstóll húsnæðislánsins hefur hækkað um 1 milljón króna umfram það sem gerst hefði ef verðbólgan hefði verið í samræmi við markmið Seðlabankans. Sú hækkun situr eftir þó að verðbólgan hjaðni og hjónin okkar munu því greiða vexti af þessari auka milljón næstu 16 árin.

Hver er lausnin? Við þurfum að skapa nýtt jafnvægi í efnahagsmálunum, draga úr stóriðjuframkvæmdum sem skapa krampakennda þenslu og skapa atvinnulífinu eðlileg rekstrarskilyrði. Við getum dregið til okkar þekkingarfyrirtæki m.a. í fjármálastarfsemi en jafnvægi er alger forsenda þess að þau leiti hingað til lands. Við þurfum að byggja upp þá grunngerð sem getur skotið styrkum stoðum undir þekkingarhagkerfið á öllu Íslandi – menntastofnanir, öflugar samgöngur og háhraðanettengingu um land allt. Og við verðum að skoða af fullri alvöru aðild að Evrópusambandinu, því flestar rannsóknir benda til þess að upptaka evru myndi – þegar fram líða stundir – stuðla að auknu jafnvægi í okkar efnahagsmálum, styrkja rekstrarskilyrði fyrirtækja og bæta verulega kjör heimilanna í landinu. Öflug fyrirtæki og fjársterkir einstaklingar flýja nú krónuna unnvörpum en íslenskur almenningur situr fastur í rússíbananum.

Samfylkingin vill skila venjulegu fólki alvöru ávinningi. Fólkið í landinu verðskuldar öryggi um kjör sín og framtíð. Við munum skila almenningi bættri þjónustu og betri kjörum – þar sem markmiðið verður aukinn jöfnuður og réttlæti í samfélaginu.

Eitt stærsta réttlætis- og kjaramálið sem við stöndum nú andspænis er að leysa vanda aldraðra hjúkrunarsjúklinga. Eftir 12 ára valdatíð ríkisstjórnarflokkanna bíða 400 – 600 aldraðir eftir dvöl á hjúkrunarheimili og hátt í 1000 manns búa nauðugir viljugir í fjölbýli með ókunnugu fólki oft tveir og þrír saman í herbergi. Um 60 aldraðir búa inni á Landspítalanum og bíða hjúkrunarvistar en læknis meðferð þar er lokið. Þetta ástand er lítilsvirðing við þá kynslóð sem hefur skilað samfélaginu ævistarfi sínu.

Sem borgarstjóri í Reykjavík heyrði ég margar úrtöluraddir þegar ákveðið var að eyða biðlistum eftir leikskólaplássi í Reykjavík eftir áratuga vanrækslusyndir Sjálfstæðisflokksins. Ég þekki öll úrtölurökin um kostnað, skort á starfsfólki og flækjustig og ég tala því af reynslu þegar ég segi samt: Við eigum að leysa þetta mál. Samfylkingin setur sér það markmið að eyða öllum biðlistum eftir hjúkrunarrýmum á næsta kjörtímabili og leysa aldraða Íslendinga úr þvingaðri sambúð. Það á að vera loforð Samfylkingarinnar í næstu kosningum og við það munum við standa.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um málefni innflytjenda í samfélaginu. Samfylkingin verður að taka fullan þátt í þessari umræðu og við eigum að viðurkenna að áhyggjur fólksins í landinu af auknum straumi innflytjenda til landsins eru skiljanlegar. Það vill enginn missa vinnuna, það vill enginn lækka í launum, það vill enginn láta hóta sér með því að innflytjendur bíði í röðum eftir því að leysa mann af hólmi ef maður heldur sig ekki á mottunni. En hér er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki við innflytjendur að sakast í þessu máli, þvert á móti.

Fólk af erlendu bergi brotið hefur einmitt borið uppi hagvöxtinn í okkar samfélagi undanfarin ár, og við ættum að hafa það hugfast að við erum að mörgu leyti að njóta ávaxtanna af þeirri fjárfestingu sem aðrar þjóðir hafa lagt í uppvöxt og menntun þessa fólks. Ríkisstjórnin hefur hins vegar vanrækt þennan hóp og ekki tekið vel á móti honum með aðgerðum sem auðvelda aðlögun að okkar samfélagi.

En hvað er til ráða, hvernig sköpum við frið á vinnumarkaði og komum í veg fyrir að innflytjendur verði úthrópaðir sem vandamál í okkar samfélagi? Lykillinn að því að skapa jafnvægi í samfélaginu milli innfæddra og innflytjenda er að innflytjendur njóti sömu réttinda á vinnumarkaði hvað varðar laun, orlofsrétt, veikindadaga, lífeyrisgreiðslur o.fl. Aðeins með slíku jafnræði verður friður á vinnumarkaði, aðeins þannig girðum við fyrir undirboð sem ógna stöðu íslensks launafólks og þetta er án efa besta leiðin til að koma í veg fyrir fordóma og andúð í garð innflytjenda. Hér er mikið verk fyrir höndum fyrir stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins en við getum ekki stungið hausnum í sandinn, þetta er verk sem þarf að vinna fljótt og vel ef ekki á illa að fara.

Góða Samfylkingarfólk.

Samfylkingin varð sex ára í júní síðastliðnum. Það er ekki hár aldur en Samfylkingin er engu að síður flokkur hokinn af reynslu eins og íþróttafréttamenn myndu segja. Við þekkjum sögulegt hlutverk okkar, vitum hver draumurinn er og hverjir andstæðingar okkar eru. Sjálf hef ég lifað lífi stjórnmálamannsins í tæp 25 ár. Ég þekki ósigra af eigin raun en ekki síður stærstu sigra jafnaðarmanna í Reykjavík í þrennum borgarstjórnarkosningum og í síðustu Alþingiskosningum þegar íslenskur jafnaðarmannaflokkur fór í fyrsta sinn yfir 30 prósent.

Í dag segi ég við ykkur: Okkur tókst að sameina fólk og flokka, okkur tókst að mynda stóran þingflokk og stýra stærstu bæjarfélögum landsins farsællega. Nú býður okkar stærsta verkefnið af öllum og það verður líka erfiðast; að tryggja sigur í vor, nýja stjórn og nýja stefnu Íslands – sem samfélags og sjálfstæðs ríkis á spennandi tímum.

Samfylkingin er forystuaflið í íslenskum stjórnmálum. Okkar áherslur móta samfélagsumræðuna og það er undir okkur komið hvort íslenskt samfélag þróast til betri vegar á næstu árum. Við þurfum að skapa nýtt jafnvægi í samfélaginu, vinna gegn vaxandi ójöfnuði, tryggja öldruðum og öryrkjum mannsæmandi kjör, skapa jafnræði milli atvinnugreina og svigrúm fyrir nýjar greinar eins og þekkingariðnað og hátækni til að vaxa og dafna við hlið hefðbundinna framleiðslugreina,

Aðild Samfylkingarinnar að næstu ríkisstjórn er forsenda þess að hér verði kraftmikil ríkisstjórn með skýr umbótaverkefni og sýn til framtíðar. Ég held að flestum sé þetta ljóst. En til að ná þessu fram þurfum við að hafa hugfast að saga okkar og allra þeirra sem á undan okkur gengu segir okkur alltaf það sama, gamalkunna og gulltryggða: Samstaðan skiptir mestu. Með samstöðu verður til sigurlið. Með samstöðu sýnum við að við erum traustsins verð.

Félagar. Samfylkingin er tilbúin í sögulegan leiðangur. Ég geng til þessa verks full af bjartsýni með þá sannfæringu í vegarnesti að við höfum þann málstað að bjóða sem mun reynast íslenskri þjóð heillavænlegust á komandi árum. Markmiðið er skýrt: Allir með.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið