Hagkvæmni og réttlæti

Í grein dagsins fjallar Agnar Freyr Helgason um annmarka á hinni einvíðu flokkun stjórnmálastefna á vinstri-hægri kvarðann og rifjar upp ágætis tillögu sem vert er að hafa til hliðsjónar. Í greininni segir m.a.: ,,…að endingu setur hann þingflokk Repúblikana í Bandaríkjunum í D-flokk, enda ganga margir af helstu talsmönnum flokksins erinda sérhagsmunahópa, sem samrýmist hvorki hagkvæmni né réttlæti. Í sama flokk falla evrópskir bændaflokkar, rússneskir kommúnistar og þjóðernissinnar.“

Í daglegu tali manna á milli er hinn pólitíski kvarði einvíður. Eftir einni stiku eru menn og konur flokkaðar eftir skoðunum sínum á stjórnmálum – frá vinstri til hægri, með stuttu stoppi á miðjunni. Þessi kvarði er vitanlega ,,barn síns tíma” – arfur þess þegar umbótamenn settust upphaflega vinstra megin á franska þinginu og íhaldsmennirnir hægra megin. Með fullri virðingu fyrir málefnum 18. aldarinnar, eru stjórnmál dagsins í dag hvort tveggja í senn, margslungnari og flóknari en svo, að vinstri-hægri kvarðinn dugi vel. Ætli það sé jafnvel ekki viðeigandi að kalla notkun kvarðans á 21. öldinni ,, tæknileg mistök”?Ef ekki vinstri-hægri, hvað þá? Upp og niður?

Að sjálfsögðu er vandasamt verk að raða niður þeim fjölmörgu pólitísku stefnum og straumum sem einstaklingar fylgja niður á fastmótaðan kvarða – hvort sem skalinn yrði tvívíður eða jafnvel þrívíður, myndi hann aldrei geta fangað þann fjölbreytileika í mannlegri hugsun og hugsjón sem endurspeglast í pólitíska litrófinu. Þrátt fyrir þetta getur þó verið áhugavert að bregða hinum ýmsu mælistikum á skoðanir fólks og flokka – með nokkrar mælistikur við hendina er reyndar hægt að komast nær raunveruleikanum, en með einni algildri.


Í ritgerð eftir Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor, sem birtist í Vísbendingu fyrir rúmum sex árum, kemur hann einmitt með athyglisverða hugmynd að flokkun hinna ýmsu stjórnmálastefna okkar tíma. Skalinn sem notast er við er tvívíður og fangar þau tvö meginsjónarmið sem menn greinir gjarnan á um: Réttlæti og hagkvæmni.


Þeir sem leggja höfuðáherslu á réttlæti eru gjarnan þeirrar skoðunar að yfirvöldum beri að jafna kjör þegnanna og stuðla að öflugu velferðarsamfélagi, þar sem allir geta notið sín. Þeir sem leggja höfuðáherslu á hagkvæmni eru efnahagsumbótamenn – þeim er umhugað um að auka hagkvæmni í efnahagslífinu, frelsa það úr viðjum hafta og annarra hlekkja, og stuðla þannig að betri lífskjörum til lengri tíma litið.


Lykillinn að flokkun Þorvalds er að áhersla á annað sjónarmiðið útilokar ekki áherslu á hitt – þ.e.a.s. menn geta haft annað hvort sjónarmiðið að leiðarljósi, bæði tvö eða jafnvel hvorugt. Stjórnmálastefnum er því skipt niður í fjóra flokka.


Fjórflokkunin

Mikilvægt er að hafa í huga flokkunum á við markmið, ekki leiðir. Þannig snertir t.a.m. ólík afstaða manna til markaðsbúskapar og ríkisafskipta flokkunina ekki nema óbeint, enda eru bæði ríkisafskipti og markaðslausnir einungis tæki, en ekki markmið í sjálfu sér. Flokkunin sést myndrænt hér að ofan, en stefnurnar eru auðmerktar með A, B, C og D.


Erlendar stefnur og straumar

Þorvaldur tekur svo til við að telja upp nokkur dæmi um hvernig erlendir stjórnmálamenn og –flokkar myndu raða sér á skalann. Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, telur hann fyrstan í flokk A. Rökstyður hann það með nánast fyrirvaralausri trú Clintons á frjálsum markaðsbúskap, en jafnframt ríkulegri áherslu á velferðarmál; heilbrigðis- og menntamál og mannréttindi. Í sama flokk skellir hann Al Gore, varaforseta Clintons, og einnig forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair. Í B-flokk skellir hann Íhaldsflokknum breska, Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og George Bush eldri; í C-flokk Norrænum og frönskum jafnaðarmönnum; og að endingu setur hann þingflokk Repúblikana í Bandaríkjunum í D-flokk, enda ganga margir af helstu talsmönnum flokksins erinda sérhagsmunahópa, sem samrýmist hvorki hagkvæmni né réttlæti. Í sama flokk falla evrópskir bændaflokkar, rússneskir kommúnistar og þjóðernissinnar, samkvæmt Þorvaldi. Ritgerðin er unnin stuttu eftir að forsetatíð George Bush yngri hófst svo að prófessorinn lagði ekki mat á hvar hann ætti í flokki heima – undirritaður skýtur á að hann myndi fylgja félögum sínum í Repúblikanaflokknum (og gott betur en það).


Að lokum slær Þorvaldur tvo varnagla: Stjórnmálaflokkar, einkum stórir flokkar, hýsa yfirleitt margvísleg sjónarmið og það ætti ekki eingöngu að dæma menn út frá athöfnum, heldur einnig orðum.Tíðarandinn og ríkjandi viðhorf geta verið þungir hlekkir að bera – orðin geta þannig verið mikilvægari en athafnirnar fyrir framsýna menn, sem tala fyrir daufum eyrum.En hvað með Geira, Nonna, Sollu, Adda Kitta Gauj og Grímsa?

Í ritgerð hagfræðiprófessorsins er ekki gerð tilraun til að flokka íslenska stjórnmálaflokka í þetta ABCD-kerfi Þorvalds, þótt eflaust megi lesa eitthvað á milli línanna. Höfundur þessarar greinar vill hins vegar gerast svo djarfur að reyna það – flokkunin er síður en svo einhlít, enda háð hlutdrægu áliti undirritaðs rétt eftir miðnætti á aðfaranótt fullveldisdagsins.


Illu er best aflokið segir spakmælið, svo Framsóknarflokkurinn fær að fljóta fyrst. Flokkurinn sem er sérstakur verndari ríkisstyrktasta landbúnaðarkerfis í heimi, hlunnfer eldri borgara og öryrkja og er eiginlega bara á við ítölsku mafíuna, eins og frægasti ekki-þingmaður Samfylkingarinnar, Valdimar Leó, orðaði það. Fordómalaust* fær flokkurinn D, ásamt hinum sérhagsmunabandalögunum.


Hinn víðsýni og opinskái Frjálslyndi flokkur er næstur á dagskrá. Þrátt fyrir um margt sundurleit markmið og misjafna sýn á landsmálin eru ákveðin stef sem flestir flokksmanna fallast á. Kvótakerfið telja þeir ónýtt og vilja sóknardagakerfi – skipti úr óréttlátu kerfi í óhagkvæmt kerfi semsagt. Aukin alþjóðleg samvinna höfðar ekki til þeirra frjálslyndu, en tuttugu jarðgöng á 20 árum hljóma spennandi. Flokkurinn stærir sig af því, með réttu, að beita sér fyrir hagsmunum sjúkra, aldraðra og öryrkja í þjóðfélaginu og berst gegn ójöfnuði. Þar til nýlega voru mannréttindi ennfremur framarlega í málefnaskránni en umræðan um innflytjendamál eru í litlu samhengi við það. Leyfum þó Margrétararmnum (sem virðist reyndar vera að lúta í lægra haldi fyrir Magnúsararmnum m.v. nýjustu fréttir) að njóta vafans og skrifum innflytjendaandúðina á þann nýja kraft sem flokknum barst af kantinum. Hinir frjálslyndu sóma sér sennilega ágætlega í C-flokki, með réttlætið á oddinum en hagkvæmnina í skottinu.


NEI-kvæðir menn segja þeir um Vinstrihreyfinguna-Grænt framboð, en ég er hreint ekki sammála. Í Fréttablaðinu I gær (fimmt. 30.nóv) voru frambjóðendur í forvali flokksins í Reykjavík spurðir spjörunum úr um einkavæðingu, skatta, fuglana og blómin. Ég er ekki frá því að yfir 15% svara frambjóðendanna hafi verið jákvæð, svo ég frábýð mér slíkt neikvæðnistal. Flokkurinn er þó óumdeilanlega C-týpa, eins og aðrir sósialískir flokkar.


Hinn almáttugi Flokkur flokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn, þarf ekki að fara í felur með hvar hann raðar sér niður. Frelsi einstaklingsins til athafna og orða er mottóið og réttlæti þykir síst smart. Varla þarf að rökstyðja þessa flokkun ítarlegar: Hver einkavæðingin á fætur annarri, skattalækkanir og miklar efnahagslegar umbætur hafa verið viðkvæðið, en lítið hefur verið gætt að mikilvægum velferðarmálum: Hag öryrkja, eldri borgara, sjúkra, láglaunafólks og barnafjölskyldna svo fátt eitt sé talið upp. Ennfremur samrýmist fjársvelt menntakerfi hvorki réttlætis- né hagkvæmnissjónarmiðum, sama hvað spindoktorar íhaldsins kunna að meina um málið. B-flokkurinn er málið, þrátt fyrir að margir Sjálfstæðismenn raði sér vafalaust í A- og D-flokkana líka.


Og þá er það Samfylkingin**, jafnaðarmannaflokkur Íslands. Nútíma- og lýðræðislegur, með áherslu á frelsi, jafnrétti og bræðralag. Með áherslu á aukin viðskipti við útlönd, afnám styrkja og hafta í landbúnaði, aukinn jöfnuð þegnanna, virðingu fyrir náttúrunni, jafnrétti kynjanna og ábyrga efnahagsstjórn raðar flokkurinn sér að öllum líkindum í A-flokk, þrátt fyrir að nokkrir flokksmenn uni sér best í C. En Fylkingin vill vera A-flokkur, það skín í gegn. Það er hins vegar hvort tveggja í senn, vegsemd hans og vandi.


Vandinn felst í því hversu erfitt það getur verið að vega og meta saman hagkvæmni og réttlæti. Í tilvikum þar sem annað þarf að víkja fyrir hinu, jafnvel þótt í litlu magni sé, getur verið erfitt að komast að sameiginlegri niðurstöðu á milli þeirra sem aðhyllast mismunandi mikla hagkvæmni og réttlæti. Andstæðingar flokksins nýta sér þetta óspart, kalla hann stefnulausan, tækifærissinnaðan og jafnvel með vinsældahyggju að leiðarljósi. Það er hins vegar fjarri lagi. Það er einfaldlega vandlifað í stórum flokki af A-gerðinni. Það þýðir ekki að Samfylkingin eigi að róa á önnur mið – með tíð og tíma mun hún sníða mestu vankantana af innviðunum, niðurnjörva stefnuna betur og verða þá hið mikla mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, sem ætíð hefur vantað í íslenskum stjórnmálum. Áfangasigur í þeirra baráttu mun vinnast í næstu Alþingiskosningum.


* Og þó, kannski ekki alveg.

** Það skal tekið fram að vefsetrið politik.is er áróðurssíða ungliðahreyfingar umrædds flokks.

Heimild: Þorvaldur Gylfason (2000), Að flokka stjórnmálastefnur, Vísbending

( http://www.hi.is/~gylfason/flokka.htm )

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand