Samráð tryggingafélaganna

Það er spurning hvort hægt sé að leggjast mikið lægra en hlunnfara þennan hóp manna, þó félögin virðist samkvæmt frumskýrslu Samkeppnisstofnunar ekki hafa vílað það fyrir sér. Nýlega bárust af því fréttir úr frumskýrslu Samkeppnisstofnunar varðandi samráð tryggingafélaganna að innan Sambands íslenskra tryggingafélaga hefði farið fram víðtækt samráð á tryggingamarkaði. Virðist samráðið hafa náð til flestra kima vátryggingastarfsemi og ber hæst samráð um verð á skyldutryggingum. Er það grafalvarlegt mál, sérstaklega þar sem tryggingafélögin hafa skilað miklum hagnaði af skyldutryggingum undanfarin misseri. Hefur hagnaður af t.d. bifreiðatryggingum verið skýrður með „góðu árferði“ og þar með færri slysum. Ekki vantar hugmyndaflugið.

Hins vegar virðist samráð tryggingafélaganna hafa verið það víðtækt að það hafi náð til flestra aðgerða félaganna, þ. á m. til uppgjörs á bótum vegna líkamstjóns. Nú er það þannig að fólk sem slasast, t.d. í umferðinni, á oft alla fjárhagslega framtíð sína undir því að fá greiddar sómasamlegar bætur frá tryggingafélögunum vegna afleiðinga slyssins. Þannig er nefnilega mál með vexti að tiltölulega meinlaus slys – að því er virðist í fyrstu – geta haft gríðarlega alvarleg áhrif fyrir tjónþolann. Afleiðingar t.d. hálstognunar í aftanákeyrslu geta verið þær að tjónþoli getur ekki haldið áfram í starfi sínu og ekki fundið sér annað starf við hæfi. Þá á viðkomandi allt undir því að tryggingafélagið greiði honum bætur, en bæturnar eru hugsaðar þannig að þær bæti allt það tekjutap sem tjónþolinn mun verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkamstjónsins. Fái hann ekki viðunandi bætur má hann eiga það á hættu að lifa í fátækt það sem eftir er, enda óvinnufær vegna afleiðinga slyssins.

Svo virðist sem tryggingafélögin hafi haft samráð um greiðslu þessara bóta vegna líkamstjóns. Með öðrum orðum hefur fólk, sem slasast, t.d. í umferðarslysum, og í mörgum tilvikum orðið óvinnufært fyrir lífstíð á eftir, þurft að glíma við tryggingafélög sem hafa haft náið samráð um hvernig bótagreiðslunum skuli háttað. Að sjálfsögðu miðar samráðið að því að greiða sem lægstar bætur og þannig má leiða að því líkum að tryggingafélögin hafi hlunnfarið fjölda slasaðra manna, sem misst hefur við slysið möguleikann á að afla sér tekna í framtíðinni.

Það er spurning hvort hægt sé að leggjast mikið lægra en hlunnfara þennan hóp manna, þó félögin virðist samkvæmt frumskýrslu Samkeppnisstofnunar ekki hafa vílað það fyrir sér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand