Í samningaviðræðum milli flokkanna þriggja sem standa að Reykjavíkurlistanum fyrir seinustu borgarstjórnarkosningar varð niðurstaðan sú að af átta efstu sætunum fengu Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsóknarflokkurinn tvö sæti hver. Hin tvö sætin voru skipuð fulltrúa óháðra sem og sameiginlegu borgarstjóraefni. Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar í Reykjavík, var haldinn nýverið og fundurinn samþykkti ályktun þess efnis að Samfylkingin í Reykjavík bjóði fram í eigin nafni í borgarstjórnarkosningunum sem verða haldnar í maí eftir rúmt ár.
Samstarfið í Reykjavíkurlistanum hefur verið farsælt en Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík telja að kominn sé tími fyrir Samfylkinguna til að draga sig út úr kosningabandalaginu. Samfylkingin er orðinn stór flokkur sem hefur átt mikilli velgengni að fagna í Reykjavík og bera úrslit seinustu alþingiskosninga vott um það.
Í samningaviðræðum milli flokkanna þriggja sem standa að Reykjavíkurlistanum fyrir seinustu borgarstjórnarkosningar varð niðurstaðan sú að af átta efstu sætunum fengu Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsóknarflokkurinn tvö sæti hver. Hin tvö sætin voru skipuð fulltrúa óháðra sem og sameiginlegu borgarstjóraefni.
Úrslit seinustu alþingiskosninga bera eins og áður sagði vott um að Samfylkingin hafi átt mikilli velgengni að fagna í Reykjavík, en þá fékk flokkurinn samanlagt 25.396 atkvæði í báðum kjördæmum Reykjavíkur. Til samanburðar fékk Sjálfstæðisflokkurinn 26.862 atkvæði, Frjálslyndi flokkurinn 4450, Framsóknarflokkurinn hlaut 8384 atkvæði og Vinstrihreyfingin – grænt framboð 6975. Hefðu þessir fimm flokkar boðið fram lista til borgarstjórnar og fengið sömu atkvæðatölu, hefðu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fengið 6 borgarfulltrúa kjörna en framboð Frjálslynda flokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins einungis einn borgarfulltrúa. Til enn frekari samanburðar má benda á að Framsóknarflokkurinn fékk 8,3% fylgi og einn borgarfulltrúa kjörinn í kosningunum árið 1990.
Frá því að R-listinn vann glæstan kosningasigur árið 1994 hefur orðið sú breyting að kosningabandalagið er ekki lengur sett saman úr fjórum smáflokkum, heldur einum stórum og tveimur litlum. R-listinn varð til m.a. svo það væri raunverulegt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Í dag er Samfylkingin það mótvægi.
Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar hljótum við jafnaðarmenn að spyrja okkur hvort það sé forsvaranlegt, og í anda þeirra hugmynda um lýðræðismál sem hinni nýi flokkur okkar jafnaðarmanna boðar, að afhenda smáflokkum eins og Framsóknarflokknum og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sæti borgarfulltrúa á silfurfati sem myndu að öllum líkinum falla í hendur Samfylkingarinnar byði hún fram undir eigin merkjum. Fyrir Unga jafnaðarmenn í Reykjavík er svarið einfalt. Samtökin telja hagsmunum bæði borgarbúa og Samfylkingarinnar betur borgið með því að flokkurinn bjóði fram undir eigin merkjum í komandi borgarstjórnarkosningum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. apríl.