Sagan og Hillary

Tómas Kristjánsson fjallar um bandarísk stjórnmál í grein dagsins og möguleika sitjandi öldungardeildarþingmanna að ná kjöri í embætti forseta Bandaríkjanna. Síðast gerðist þegar að John F. Kennedy var kjörinn forseti. Sagan er Hillary Clinton ekki hliðholl.

Nú þegar þingkosningunum er lokið í Bandaríkjunum eru menn í sí auknu mæli farnir að snúa sér að mögulegum og ómögulegum frambjóðendum til forseta árið 2008. Nú þegar er fyrsti Demókratinn búinn að tilkynna framboð sitt, Tom Vilsack , líklegt verður þó að teljast að hann hverfi eða minnki all verulega þegar stóru nöfnin tilkynna framboð sín.

Einn mögulegur frambjóðandi fyrir Demókrata hefur verið nefndur til sögunnar allt frá því að Bill Clinton flutti út rúmgóða skrifborðið úr Hvíta húsinu árið 2001 (kosningarnar 2000, þeir fara ekki út fyrr en eftir áramót), það er eiginkona hans, Hillary Clinton. Í stjórnartíð Clintons tók Hillary óvenjulega virkt hlutverk sem forsetafrú. Hún leiddi nefnd sem taka átti á umbætum í heilbrigðiskerfinu, hélt ræður og tjáði sig um hin ýmsu álita mál. Hún stóð síðan þétt við bakið á eiginmanni sínum í öllu fjaðrafokinu í kringum Moniku Lewinski. Það sýndi einna helst pólitísk klókindi og mögulegar áætlanir hennar í stjórnmálum. Hún var ekki á því að missa Clinton nafnið eða stuðninginn sem nafnið eitt gat gefið henni.

Það kom svo í ljós hver fyrstu skref áforma hennar voru þegar þau hjónin fluttu lögheimili sitt í mun frjálslyndara ríki, New York í stað Arkansas. Þar bauð hún sig fram sem öldungadeildarþingmaður og vann. Hún er ákveðin, vinsæl meðal kvenna, virðist hafa farið nógu langt til vinstri til þess að friða Demókrata án þess að fara of langt frá miðjunni (hinni bandarísku) til þess að fæla þá hlutlausu. Þetta virðist allt lofa góðu fyrir Hillary, það er þó eitt sem vinnur gegn henni. Einn þáttur sem hún virðist ekki hafa skoðað, eða þá skoðað og ákveðið að hundsa, það er þáttur sem sí endurtekið hefur verið vanmetinn, það er sagan.

Það vill nefnilega þannig til að Hillary tilheyrir hópi sem er nánast aldrei kosinn til forseta. Reyndar tilheyrir John McCain sama hópi, einnig Goldbaum tveir af helstu mögulegu keppinautum hennar. Ég er því ekki að tala um að sagan sé á móti henni vegna þess að hún sé kona. Það er einfaldlega engin saga, engin tölfræði til þess að segja til um hvaða áhrif það hefur þar sem engin kona hefur verið tilnefnd til forseta. Það er hinsvegar ljóst að tíðarandinn er mjög opinn, konur hafa í auknu mæli verið kjörnir ríkisstjórar, öldungadeildarþingmenn og sem leiðtogar erlendra ríkja. Kjósendur virðast sem betur fyrr loks opnari fyrir því að kjósa konur í þessar stöður.

Það sem kjósendur hafa ekki verið jafn opnir fyrir að kjósa eru öldungadeildarþingmenn sem bjóða sig fram til forseta. Síðasti öldungadeildarþingmaðurinn var kjörinn forseti árið 1960 þegar John F. Kennedy var kjörinn. Þar á undan var það Harding árið 1920 og það eru einu öldungadeildarþingmennirnir sem kjörnir hafa verið forsetar í sögu Bandaríkjanna. Því miður voru Bandaríkjamenn ekki tilbúnir að breyta út af þessari hefð árið 2004 þegar John Kerry bauð sig fram. Hann var sitjandi öldungadeildarþingmaður og bættist þar með í stórann hóp öldungadeildarþingmanna sem tapað hafa forsetakosningum. Goldwater, Mondale, McGovern, Bob Dole voru allir öldungadeildarþingmenn.

Þetta er ekki bara 20. aldar fyrirbæri. Á 19. öld var enginn öldungadeildarþingmaður kjörinn forseti. Það er hinsvegar skiljanlegra þar sem fram á 20. öld voru öldungadeildarþingmenn ekki kjörnir af almenningi heldur valdir af ríkisþingum og voru því oft ekki þekktir meðal almennings og þurftu ekki að byggja upp vinsældir. Bandaríkjamenn hafa þó ekkert á móti því að frambjóðendur hafi, á einhverjum tímapunkti, verið öldungadeildarþingmenn. James Monroe, John Quincy Adams, Andrew Johnson, Martin Van Buren, William Henry Harrison, John Tyler, Franklin Pierce, James Buchanan, Benjamin Harrison, Harry S. Truman, Lyndon B. Johnson og Richard M. Nixon höfðu allir verið öldungadeildarþingmenn einhverjum árum áður en þeir voru kjörnir forsetar. Þeir höfðu hinsvegar allir þá pólitísku skynsemi, eða heppni, að gera eitthvað annað á milli þess að sitja í öldungadeildinni og bjóða sig fram sem forseta.

Það er hinsvegar annar hópur sem nýverið hefur átt greiða leið inn í Hvíta húsið, það eru ríkisstjórar. Carter, Reagan, Clinton og Bush yngri voru allir ríkisstjórar þegar þeir voru kjörnir forsetar. Það eru 86 ár síðan öldungadeildarþingmaður vann á móti ríkisstjóra í forsetakosningum þegar Warren J. Harding, þegar mjög hófsamur öldungadeildarþingmaður vann James Cox, ríkisstjóra Ohio sem tapaði vegna klofnum flokki Demókrata eftir fyrri heimstyrjöldina. Þá má spyrja, hvað er vandamálið með öldungadeildarþingmenn? Af hverju er kjósendum svona mikið á móti þeim þegar kemur að forseta kosningum?

Fyrsta mögulega skýringin er sú að kjósendum líkar vel við utan að komandi, minnimáttar frambjóðanda gegn því sem þeir, réttilega, skynja að öldungadeildarþingmenn séu valdamiklir pólitíkusar, læstir í Washington, holdgerfingur innanbúða manns. Sama frá hvaða ríki þeir koma þá standa þeir, í augum kjósenda, fyrir Washington, sem í augum margra er fjarlæg undarleg borg sem gegnir öðrum lögmálum en restin af Bandaríkjunum.

Önnur möguleg skýring er jafnvægi valds. Forsetaembættið var skapað til þess að framfylgja lögunum með heildarhagmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, koma hlutum í verk í stað þess að rökræða þá fram og til baka. Kjósendur sjá báðar deildir þingsins sem hægfara pólitískar vélar sem lítið mundu gera ef forsetinn ýtti ekki á eftir þeim. Vinsældir forseta hafa nánast alltaf aukist þegar þeir hafa þurft að takast á við þingið um einhverjar aðgerðir. Þannig að þegar ríkisstjóri er í framboði þá hefur hann verið að gegna því hlutverki á ríkisstigi sem forsetinn gerir á landsvísu á sama tíma og öldungadeildarþingmaður í framboði er séður sem pólitíkus, einhver sem rökræðir og stundar baktjaldamakk í stað aðgerða.

Þriðja skýringin getur verið atkvæðasaga öldungadeildarþingmanna. Öll atkvæði þeirra úr þinginu er dregin fram í kastljósið og erfitt er fyrir þingmenn að mynda sína eigin stefnu eða að dansa á miðjunni. Ef þeir reyna að gera það eru þeir sakaðir um óákveðni og ósamræmi í stefnu sinni vegna þess að það er hægt að benda á atkvæði sem sína þá kjósa á einn veg eða annan. Ríkisstjóri hefur hinsvegar aðeins með þau atriði sem hann hefur beitt neitunarvaldi á bakinu, oftast mjög fá tilfelli og mjög svæðisbundin.

Fjórða skýringin felst í stjórnunarreynslu. Öldungadeildarþingmenn kjósa, það er um það bil allt sem þeir gera í augum kjósenda. Þeir þurfa ekki að stjórna miklu, nema þá skrifstofunni sinni með örfáum starfsmönnum. Ríkisstjórar aftur á móti stjórna heilu ríki. Þeir ráða í æðstu stöður svo sem dómara og yfirmenn stofnanna, þeir búa til fjárlög sem í flestum ríkjum verða að vera í jafnvægi. Þeir skrifa undir lög og ýta á eftir umbótum. Þeir gera flest það sem forseti þarf að gera á landsvísu í sínu starfi.

Á 20. öldinni voru allir forsetar (að John F. Kennedy og Harding undanskildum) með umfangsmikla stjórnunarreynslu annaðhvort sem ríkisstjórar eða sem varaforsetar. Þeir tveir forsetar sem höfðu verið hvorugt, Eisenhower og Herbert Hoover voru báðir kjörnir vegna stjórnuna reynslu sinnar. Hoover hafði leitt fjárhagsaðstoð Bandaríkjamanna í Evrópu eftir fyrri heimstyrjöldina og var yfirmaður viðskiptaráðs þeirra (chamber of commerce). Eisenhower leiddi aðgerðir Bandaríkjamanna í seinni heimstyrjöldinni áður en hann var kjörinn árið 1952.

Það er alveg ljóst að sagan er andstæð öldungadeildarþingmönnum í framboði, en alveg jafn ljóst að skráðir flokksmenn eru ekki að velta því fyrir sér. Í síðustu skoðannakönnunum meðal flokksmanna voru það Hillary Clinton sem leiddi fyrir Demókrata og John McCain sem leiddi Repúblikana. Hinsvegar má búast við því að þau muni mæta erfiðum andstæðingum í forkosningunum. Al Gore er af mörgum talinn vilja reyna fyrir sér öðru sinni og fyrrum borgarstjóri New York Robert Guilliani er að verða sífellt vinsælli meðal Repúblikana.

Hvort sem að kosinn verður kona eða ekki í kosningunum 2008 er ljóst að ef að Hillary verður kosin verður það söguleg kosning á öldungadeildarþingmanni. Sagan segir okkur hinsvegar annað og því verð ég að segja að því miður – Hillary, þú verður ekki næsti forseti Bandaríkjanna.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand