Jafnaðarstefnan er umbreytingarstefna

Sverrir Bollason segir jafnaðarstefnuna vera skilvirkasta pólitíska stefnan til að knýja fram breytingar sem gagnast öllu samfélaginu. Mestu almennu breytingar á lífskjörum heilu samfélaganna hafa orðið þar sem jafnaðarmenn, sérstaklega sósíal-demókratar hafa ráðið og þar sem hugsun jafnaðarstefnunnar er rótgróin; innbyggð í kjarna samfélagsins. Jafnaðarstefnan er skilvirkasta pólitíska stefnan til að knýja fram breytingar sem gagnast öllu samfélaginu. Mestu almennu breytingar á lífskjörum heilu samfélaganna hafa orðið þar sem jafnaðarmenn, sérstaklega sósíal-demókratar hafa ráðið og þar sem hugsun jafnaðarstefnunnar er rótgróin; innbyggð í kjarna samfélagsins. Nefnum alla Skandinavíu og Kanada sem dæmi.

Það hefur því miður gleymst í mörgu þrasi pólitíkurinnar að jafnaðarstefnan er umbreytingarafl sem fær velt þyngstu hlössum og kemur hreyfingu á stöðnuð gildi. Eftir að hún hefur komist til áhrifa og orðin rótgróin hefur hún einnig komist í eins konar sjálfheldu eða fullorðinsára krísu. Hverju skal breyta þegar mörgum markmiðum er náð? Undan hvaða stofnunum á að grafa þegar maður er sjálfur stofnun?

í síðasta pistli fjallaði ég um það hvernig frelsið og frelsisþráin eru grundvallar tilfinningar í jafnaðarstefnunni og það er umbreytingin líka. Horft fram á veginn bíða jafnaðarstefnunnar miklar áskoranir og þá er mikilvægt til undirbúnings að einbeita sér að styrkleikunum.

Munum það að jafnaðarstefnan hefur í grunninn fjallað um það að gefa öllu fólki jafnt tækifæri til að takast á við og útfæra breytingar en ekki til að standa fast hvað sem það kostar. Í því liggur skilvirkni jafnaðarstefnunnar. Á grunni lýðræðislegrar umræðu og sameiginlegri fjármögnun eru þróuð kerfi eða stofnanir sem hjálpa samfélaginu að yfirkoma erfiðar breytingar svo að sem flestir komist hólpnir yfir. Einföld dæmi um þetta eru almenn skólaskylda og alltumlykjandi heilbrigðiskerfi. Annað dæmi las ég um í bók frá 1969 eftir stjórnunarsnillinginn Peter Drucker (alls enginn jafnaðarmaður), þar segir hann frá því hvernig Svíar settu upp endurmenntunarstofnanir til að hjálpa fólki að hverfa frá einföldum iðnaðarstörfum til sveita og takast á við ný störf í borgum. Stofnanirnar voru einn liður í því að flýta fyrir og gera óumflýjanlega samfélagsbreytingu sársaukaminni fyrir marga einstaklinga.

Í dag og til framtíðar munum við glíma við stórstígar breytingar á samfélagi okkar sem eru og verða óumflýjanlegar. Spurningin er því ekki hvernig við komum okkur hjá því að verða alþjóðavæðingu að bráð. Spurningarnar eru: Hvernig getum við nýtt okkur þau tækifæri sem felast í alþjóðavæðingunni? Og hvernig tökumst við á við breytingarnar svo að samfélagið bíði ekki skaða af? Svarið við fyrri spurningunni finnur markaðurinn út úr sé honum gefið rúm til. Svarið við seinni spurningunni er eingöngu hægt að finna með opinni lýðræðislegri umræðu og sameiginlegum ákvörðunum byggðum á þeirri umræðu. Það skal þó vakin athygli á því að ekki er hægt að ábyrgjast að meginstefna breytinganna sé fólki að skapi, eingöngu framkvæmd þeirra og útfærsla.

Mörgum málum þarf að veita athygli hér á landi og skorturinn á opinni, marktækri umræðu er þegar farinn að hafa neikvæð áhrif á samfélagið. Byggðamálin eru stórt atriði sem líka helst í hendur við önnur mikilvæg mál, sjávarútveg og landbúnað. Og almenn atvinnustefna sem líka helst í hendur við æðri menntamál og náttúruvernd. Umhverfismál hafa svo ekki látið að sér kveða með nándar nær þeim hætti sem þau munu. Og þá er ekki enn farið að tala um velferðarmálin. Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn hefur haft þá stefnu að láta þessi mál reka á reiðanum, láta markaðinn sjá um þau eða hvernig sem það er orðað. En þetta eru mál sem hafa með lýðræðið í landinu að gera. Og þess vegna ríkir og heldur áfram að ríkja óvissa um þessi mál sem plaga þjóðarsálina. Ef bara einhver hefði nú dug og hugrekki til að ræða þessi mál opinskátt og hreinskilningslega án sérhagsmuna þar sem umræðan um þau á heima.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið