Jens Sigurðsson segir kjördæmapot eða hreppa-innan-kjördæmis-pot vera ömurlega úrelt og ónýtt fyrirbrigði. Nú er það svo að þjóðarkakan er ákveðið stór, við höfum bara svo og svo mikið til skiptanna. Og ef kjördæmapotarar par-excellance eins og Árni Johnsen hafa sig í frammi í núverandi kerfi, leiðir það óhjákvæmilega til óeðlilegrar mismunar byggðakjarna.
Hvað ætli hann Geir Haarde sé að hugsa núna? Ætli hann sé að býsnast yfir því að hafa ekki hlustað á Unga jafnaðarmenn öll þessi ár sem vilja gera landið að einu kjördæmi? Eða ætli hann sé bara nokkuð sáttur með úrslit helgarinnar?
Árni Johnsen fékk glimrandi kosningu í annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi og mun kjörið eflaust opna á óþægilega umræðu og reynast flokknum þungbært í komandi kjöri -eða hvað?
Þverskurður
Nú er ég persónulega fylgjandi því að fulltrúar sem flestra stétta eigi sæti á þingi. Það er hryllingur að ímynda sér 63 lögfræðinga á þingi. Lögfræðingar eiga erindi í ráðuneytin þar sem þeir geta samið sín lög í næði, fjarri hnýsni almennings. Alþingi á að vera þverskurður samfélagsins með málsvara sem flestra stétta.
Árni er náttúrlega fjöllistamaður og gæti verið allt í senn fulltrúi tónlistarmanna, rithöfunda, myndhöggvara, dúklagningarmanna, homma-hatara og kartöflubænda. Margar flugur í einum þingmanni þar.
Hvað hefur Árni gert?
Ég leit inn á vef Alþingis áðan og reyndi að glöggva mig á þingferli Árna, hvað það væri í hans fari sem gerði hann svo ómissandi fyrir kjördæmið og Flokkinn. Eftir nokkra skoðun sýnist mér hann helst hafa beitt sér
1) fyrir upptöku ólympskra hnefaleika
2) fyrir innleiðingu einka-bílnúmera (e. vanity-plates)
3) gegn því að samkynhneigðir geti ættleitt börn
4) gegn giftingu samkynhneigðra.
Allt mikil þjóðþrifaverk?
Kjördæmapot.is
Það læðist að manni sá grunur að ástæða þess að Árni sé svona vinsæll er að hann er einhver mesti kjördæmapotari sem sögur fara af? Reyndar er þetta ekki beint kjördæmapot, því Vestmannaeyjar eru víst ekki enn orðnar sér kjördæmi. Þetta er einhverskonar hreppur-innan-kjördæmis-pot.
Dæmi: nú fáum að heyra þjóðhagslegan ávinning jarðganga til Vestmannaeyja í heil fjögur ár. Ég get ekki setið á mér af kæti!
Og þarna er vandamálið í hnotskurn. Kjördæmapot eða hreppa-innan-kjördæmis-pot er ömurlega úrelt og ónýtt fyrirbrigði.
Nú er það svo að þjóðarkakan er ákveðið stór, við höfum bara svo og svo mikið til skiptanna. Og ef kjördæmapotarar par-excellance eins og Árni hafa sig í frammi í núverandi kerfi, leiðir það óhjákvæmilega til óeðlilegrar mismunar byggðakjarna. Sumir fá meira, aðrir minna og sumir ekkert. Hver er t.d. að pota fyrir Grímsey eða Kópasker? Enginn. Og er það kannski ástæða þess að þau byggðarlög verða undir í baráttunni um monní-peninginn?
Við köllum eftir byggðastefnu
Þetta þarf samt ekki að vera svona. Ungir jafnaðarmenn hafa ávalt talað skýrt í þessum efnum, við viljum landið eitt kjördæmi og raunverulega byggðastefnu í landinu.
Við viljum byggðastefnu sem byggir á mannauð, virkjun hugarafls, menntunar, menntunar og menntunar. Við viljum að öllum sé tryggður réttur til að láta drauma sína rætast óháð búsetu. Við viljum að ríkið og sveitarfélög komi duglega að ráðgjöf og stofnun sprotafyrirtækja um allt land. Við viljum jafnrétti og frelsi til að „meika-ða“ hvort sem þú býrð á Raufarhöfn eða í Reykjavík.
Það er eina skynsama leiðin. Álver og kísilkúrverksmiðjur duga aðeins fyrir viðkomandi byggðarlög. Almenn og sanngjörn byggðastefna fyrir alla tryggir alvöru hagsæld í sveitum landsins.
Útrýmum kjördæmapoti
Við verðum að útrýma staðbundnu kjördæmapoti. Við verðum að endurskoða kjördæmaskipan og gera landið að einu kjördæmi. Þá fyrst náum við sátt um alhliða byggðastefnu sem nýtist öllum. Þá fyrst getum við tekið landbúnaðarkerfið í gegn. Þá fyrst getum við náð sátt um umhverfið okkar og skynsama nýtingu orkuauðlinda. Þá fyrst getum við haft vegaáætlun sem er góð. Afhverju er t.d. búið að bora í gegn um fjallið milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, þegar ekkert hefur verið gert við Óshlíðarveg? Ég skil það ekki. Ég hef ekið báða þessa vegi. Leiðin milli Austfjarðanna tveggja var dáldið löng en afskaplega ánægjuleg keyrsla. Ferðin milli Ísafjarðar og Bolungavíkur var hins vegar hræðileg lífsreynsla. Vestfirðirnir líða fyrir sína döpru þingmenn sem vilja frekar veiða hval en laga þennan hræðilega vegakafla.
Skyndilausnir
Kjördæmapot og megrunarkúrar eru um margt líkir. Mikið er lagt á sig fyrir skammtímagróða en ekkert hugsað til framtíðar. Því verða afleiðingar slíkra aðgerða verri en ekkert. Við endum þyngri en þegar við byrjuðum í megrun. Við erum jafnvel ósáttari þegar við erum búin að fá jarðgöngin og gerum okkur grein fyrir að það verður ekki hlustað á vælið í okkur næstu 50 árin: „þið eruð búin að fá ykkar göng. Næsti gjörið svo vel.“