Hugarfar forsætisráðherrans vegna velferðarmála varð þjóðinni kunnugt þegar hann afgreiddi hið óeingjarna starf Mæðrastyrksnefndar í fréttum Ríkissjónvarpsins sl. haust með þeim orðum, að þar sem framboð væri af ókeypis mat, væri alltaf eftirspurn; að starfið segði því ekki mikla sögu! Við teljum okkur lifa í góðu og ríku samfélagi. Það er ljóst að við lifum í ríku samfélagi en lifum við í góðu samfélagi? Eftir að hafa fylgst með störfum Mæðrastyrksnefndar eitt síðdegi, þegar úthlutun matar og nauðsynjavara átti sér stað, er ég farinn að efast um það. Þar varð ég vitni að hörmulegu ástandi samborgara minna. Á annað hundrað manns mættu þennan miðvikudag, fólk á öllum aldri og það kom mér á óvart hversu margir voru jafnaldrar mínir, á aldrinum 18-26 ára. Eins var það sláandi að sjá þrjár kynslóðir saman, ömmu, móður og barn vera í þeirri stöðu að þurfa hjálp.
Þjáningarsysturnar örorka og fátækt
Það er ótrúleg upplifun að fylgjast með störfum Mæðrastyrksnefndar í návígi. Þarna opnaðist sú hlið mannlífsins á Íslandi sem allir þurfa að vita af. Átakanlegt var að heyra sögur þessa fólks, sem bókstaflega átti ekki í sig eða á. Upplifunin var enn sorglegri því á bak við hvern einstakling eru saklaus börn. Það má aldrei gleyma því að bak við allar tölur á hinum pólitíska vettvangi eru einstaklingar og raunverulegar þjáningar.
Þetta fólk átti það sameiginlegt að kerfið hafði brugðist þeim. Hið svokallaða velferðarkerfi dugði því og börnum þeirra alls ekki. Margir voru öryrkjar og þarna sáust vel þau bönd sem eru á milli þjáningarsystranna örorku og fátæktar – systranna sem íslensk stjórnvöld gátu af sér.
Forgangsröðun í verki
Forsvarsmenn Mæðrastyrksnefndar eru sammála um að neyðin og þörfin hafi aukist mikið undanfarin misseri. Flestir hafa þá sögu að segja að erfiðleikarnir hafa í raun ekki byrjað fyrr en fyrir 1-3 árum síðan. Það hefur því eitthvað gerst í okkar velmegunarsamfélagi sem hefur breytt högum þessa fólks til hins verra.
Ísland er sjötta ríkasta landi í heimi. Það er því ekki þannig að íslensk stjórnvöld geti ekki aðstoðað þetta fólk. Oft þarf mjög lítið til.
Stjórnmál eru spurning um forgangsröðun. Á sama tíma og við heyrum af þessu nöturlega ástandi, að fólk og barnafjölskyldur þurfi að betla mat frá hjálparsamtökum, telja íslensk stjórnvöld nauðsynlegt að eyða 900 milljónum í sendiráð í Berlín eftir að hafa eytt um 800 milljónum í sendiráð í Tókýó. Mæðrastyrksnefnd fær hins vegar hálfa milljón króna frá ríkinu. Hvers konar forgangsröðun er það og hvers konar hugsun er hjá valdhöfum þessa lands?
Hugarfar forsætisráðherrans vegna velferðarmála varð þjóðinni kunnugt þegar hann afgreiddi hið óeingjarna starf Mæðrastyrksnefndar í fréttum Ríkissjónvarpsins sl. haust með þeim orðum, að þar sem framboð væri af ókeypis mat, væri alltaf eftirspurn; að starfið segði því ekki mikla sögu! Það blasir hins vegar við annar raunveruleiki. Það er ljóst að enginn var að leika sér að því að bíða í röð Mæðrastyrksnefndar í snjókomu og kulda klukkutímum saman eftir nauðsynjavörum. Neyðin og örvæntingin er augljós.
Engar afsakanir lengur
Sem ungur einstaklingur er þetta ekki mín framtíðarsýn. Ég vil ekki að börn séu dæmd til fátæktar vegna umkomuleysis foreldra og úrræðaleysis kerfisins. Ég vil samfélag þar sem allir þegnar landsins geta séð sér farborða og lifað mannsæmandi lífi. Við höfum efni á því að breyta þessu til batnaðar. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar snýst hins vegar um aðra hluti. Eftir 12 ára setu á valdastóli hafa menn engar afsakanir.