Valdhroki

„Sigurður G. Guðjónsson er svo lánsamur að hann hefur dóm frá tveimur hæstaréttardómurum – dóm sem er sennilega einsdæmi í veröldinni allri – um að hann megi bera óhróður og ósannindi út um menn og þurfi ekki að sanna það ef hann hefur mikið fyrir því. Ég leiði mann með slík réttindi algjörlega hjá mér. En hann notfærir sér þau alveg til fulls, atar menn auri í skjóli þessa undarlega dóms þessara tveggja dómara Hæstaréttar.“ „Sigurður G. Guðjónsson er svo lánsamur að hann hefur dóm frá tveimur hæstaréttardómurum – dóm sem er sennilega einsdæmi í veröldinni allri – um að hann megi bera óhróður og ósannindi út um menn og þurfi ekki að sanna það ef hann hefur mikið fyrir því. Ég leiði mann með slík réttindi algjörlega hjá mér. En hann notfærir sér þau alveg til fulls, atar menn auri í skjóli þessa undarlega dóms þessara tveggja dómara Hæstaréttar.“

Hver talar svo yfirlætislega og af slíkri lítilsvirðingu um æðsta dómstól landsins? Það er forsætisráðherrann og lögfræðingurinn Davíð Oddsson, æðsti handhafi framkvæmdavaldsins. Hvað ræður þessum orðum Davíðs Oddssonar? Jú, vinur hans tapaði máli í Hæstarétti. Í hlut átti Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, lögfræðingur, skólabróðir, flokksbróðir, samstarfsmaður, ráðgjafi og einn besti vinur forsætisráðherra. Hann höfðaði meiðyrðamál gegn Sigurði G. Guðjónssyni, hæstaréttarlögmanni og forstjóra Norðurljósa, vegna ummæla sem Sigurður lét falla um störf Kjartans innan Landsbankans. Kjartan tapaði málinu á báðum dómstigum.

Það er engum blöðum um það að fletta að Davíð Oddsson hefði samkvæmt lögum verið vanhæfur sem dómari í framangreindu máli vegna tengsla sinna og vináttu við Kjartan. Samt sem áður vílar ráðherrann ekki fyrir sér að kveða upp dóm í málinu. Forsætisráðherra rægir Sigurð opinberlega á grófan og ósvífinn hátt, en einnig telur ráðherrann dóminn vera „einsdæmi í veröldinni allri“. Þetta er gróf aðdróttun, þó órökstudd sé eins og oftast hjá Davíð Oddssyni.

Ekki er unnt að túlka orð ráðherrans á annan veg en umræddur dómur Hæstaréttar sé að hans mati með þeim eindæmum, að slík niðurstaða myndi ekki fást hjá nokkrum öðrum dómstól í veröldinni allri. Til dæmis myndi, að mati ráðherrans, dómstóll í Bandaríkjunum, sem forsætisráðherra dáir svo mjög, aldrei leyfa þegnum ríkisins að komast upp með gagnrýni í líkingu við gagnrýni Sigurðar. Sama er að segja um dómstóla í t.d. Zimbabwe, Rússlandi, Chile, Kongó, Kína, Kúbu og Írak, þar er ekki að finna dómstóla sem kveða upp slíkan dóm, ef marka má orð forsætisráðherra. Það er bara Hæstiréttur Íslands sem beitir dómsvaldi sínu svona illa.

Ekki aðeins vegur forsætisráðherra að Hæstarétti sem stofnun með þessum orðum sínum, heldur veitist hann sérstaklega að tveimur dómurum réttarins persónulega, þeim Haraldi Henryssyni og Hrafni Bragasyni. Það eru þeir tveir sem mynduðu meirihluta í þessum dómi, sem er víst einsdæmu í veröldinni allri. Allir aðrir dómarar, alls staðar í veröldinni, myndu dæma svona mál öðruvísi. Nema þessir tveir dómarar. Já og kannski héraðsdómarinn í málinu, sem forsætisráðherra hefur sennilega gleymt í réttlátri reiði sinni yfir ranglæti Hæstaréttar.

Hvað er ærumeiðing ef ekki framangreind ummæli Davíðs Oddssonar? Þau lýsa takmarkalausri vanvirðingu á Hæstarétti, auk þess sem tveir dómarar réttarins eru teknir sérstaklega fyrir og störf þeirra sögð svo ranglát, að þau teljast einsdæmi í veröldinni allri. Og það er forsætisráðherra sem talar. Vill hann líka ráða dómsvaldinu, auk hinna tveggja stoða ríkisvaldsins?

Forsætisráðherra víkur dómgreind sinni til hliðar þegar hann ræðst á Hæstarétt í því skyni að verja vin sinn. Er forsætisráðherrann alveg ábyrgðarlaus? Er ekkert að marka orð hans? Eða er þetta það viðhorf til einnar af þremur stoðum íslenska ríkisins sem við viljum sjá í forsætisráðuneytinu?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið