Ef þessi borðleggjandi og einfaldi skilningur væri ekki lagður í 26. gr. myndi ríkisstjórn enda annars geta komist upp með þá hringavitleysu að fella alltaf lög úr gildi sem forsetinn hefði synjað staðfestingar og látið síðan samþykkja nánast samhljóða lög á Alþingi. Þannig gæti boltinn rúllað nánast út í hið óendanlega milli forseta og Alþingis – án þess að þjóðin hefði nokkuð um það að segja. Þannig væri 26. gr. stjórnarskrárinnar – málskotsréttur forsetans – öryggisventillinn í lagasetningunni – þýðingarlaus. 26. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
„Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“
Orðalagið er alveg skýrt: Leggja skal frumvarpið í dóm þjóðarinnar. Það er því ótvíræð skylda ríkisstjórnarinnar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp sem forsetinn hefur synjað staðfestingar.
Augljóst er einnig að Alþingi getur ekki fellt lög sem forsetinn hefur synjað staðfestingar úr gildi fyrr en þjóðaratkvæðagreiðsla um þau er afstaðin þar sem það stendur í 26. gr. að samþykki þjóðin lögin í atkvæðagreiðslu eigi þau að halda gildi sínu.
Lögin geta augljóslega ekki haldið gildi sínu skv. 26. gr. stjórnarskrár ef þau hafa þá þegar verið felld úr gildi og því leiðir klárlega af 26. gr. að Alþingi getur ekki fellt lög úr gildi sem forseti hefur synjað staðfestingar fyrr en í fyrsta lagi að afstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um þau.
Ef þessi borðleggjandi og einfaldi skilningur væri ekki lagður í 26. gr. myndi ríkisstjórn enda annars geta komist upp með þá hringavitleysu að fella alltaf lög úr gildi sem forsetinn hefði synjað staðfestingar og látið síðan samþykkja nánast samhljóða lög á Alþingi. Þannig gæti boltinn rúllað nánast út í hið óendanlega milli forseta og Alþingis – án þess að þjóðin hefði nokkuð um það að segja. Þannig væri 26. gr. stjórnarskrárinnar – málskotsréttur forsetans – öryggisventillinn í lagasetningunni – þýðingarlaus.
En fyrir þennan skrípaleik, sem aðeins allra ósvífnustu stjórnmálamenn myndu láta sér koma til hugar, girti stjórnarskrárgjafinn auðvitað árið 1944 með því að kveða skýrt á um það í 26. gr. stjórnarskrár að meirihluta Alþingis væri skylt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp sem forsetinn synjaði staðfestingar – áður en hann gæti hreyft nokkuð við því á nýjan leik.
Tilraunir ríkisstjórnarinnar til að svipta þjóðina rétti sínum til að segja skoðun sína á fjölmiðlalögunum eru því skýrt og ótvírætt brot á stjórnarskránni, svo sem að framan greinir.