Ný stjórn Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi

Í gærkvöldi var Jóna Þórey Pétursdóttir kjörin forseti Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi á aðalfundi félagsins. Aðrir fulltrúar kjörnir í stjórn eru Arnar Ingi Ingason, Freyr Snorrason, Gréta Jónasdóttir, Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, Vaka Lind Birkisdóttir og Þorbjörg Arna Jónasdóttir. 

Fundinn ávarpaði Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrum félagsmálaráðherra, þingkona og forseti bæjarstjórnar Kópavogs, sem félagið er nefnt eftir. Rannveig var fyrst þingmanna úr Kópavogi til að gegna ráðherraembætti og höfðu störf hennar í bæjarstjórn og bæjarráði mikil og jákvæð áhrif á félagsmálastefnu sveitarfélagsins. Ræða hennar vakti mikla lukku og sagði hún meðal annars: „Ungt fólk er auðlind. […] Þið takið ekki við sérlega góðu búi. Það sem bíður ykkar er að takast á við hamfarahlýnun; flótti fólks og skortur á vatni og fæðu sem hrekur fólk burt frá svæðum sem verða auðn. […] Ungt fólk og aldnir skipta máli. Það verður ekkert oddaflug, hvorki hjá svani né gæs ef svanurinn flýgur einn eða gæsin, þess vegna skipta allir máli.“

Á aðalfundinum var eftirfarandi stjórnmálaályktun samþykkt:

Stjórnmálaályktun Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi

Rannveig – Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi (UJK) munu beita sér fyrir grænna samfélagi, auknum jöfnuði og velferð ungs fólks. UJK mun lyfta röddum ungs fólks, gæta að hagsmunum þess og berjast fyrir félagslegu réttlæti í Kópavogi og samfélaginu öllu. Jafnframt mun UJK beita sér innan Samfylkingarinnar fyrir auknu vægi ungs fólks, sýnileika þess og að ungt fólk fái það rými og traust sem það á skilið til að tala sínu máli. Þetta er sérstaklega mikilvægt á umbrotatímum, ekki bara vegna áhrifa og afleiðinga heimsfaraldurs heldur einnig hamfarahlýnunar. Ungt fólk er sá hópur sem mun glíma við afleiðingar aðgerða og aðgerðarleysis stjórnvalda í þessum málum og er brýnt að ungu fólki sé veitt réttmæt rödd til áhrifa. 

Atvinna

Heimsfaraldurinn hefur varpað skýru ljósi á glufurnar í velferðarkerfinu okkar og margar þær aðgerðir sem ráðist var í til að létta róðurinn hjá fjölskyldum og fyrirtækjum mistókust.  Fjöldi fólks utan náms og atvinnu hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og er það áhyggjuefni sem UJK telur að þurfi að taka föstum tökum. Þá hefur fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna óbeint orðið að því öryggisneti sem atvinnulaust námsfólk þarf að treysta á að sumri ef engin sumarvinna fæst. Þau útgjöld sem leggjast á sveitarfélögin vegna þessa eru óréttmæt enda er greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð af launum alls vinnandi fólks. Vinnandi námsfólk ætti því að geta leitað í sjóðinn yfir sumartímann áður en fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna kemur til, sérstaklega þegar sveitarfélögin eru neydd til þess að skera niður í heimsfaraldri vegna stuðningsleysis ríkisstjórnarinnar í kórónukreppunni. Græn atvinnuuppbygging sveitarfélaganna er nauðsynleg og þarf að þróa núverandi og ný atvinnusvæði með grænum aðgerðum. 

Loftslagsmál

UJK mun krefjast metnaðarfullra aðgerða af Kópavogsbæ til að sporna gegn hamfarahlýnun en sveitarfélög verða að styðja við Parísarsamkomulagið með öllum mögulegum ráðum. Kópavogsbæ er skylt skv. lögum að setja sér loftslagsstefnu en bærinn hefur hvorki gert það né sett sér aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Huga þarf að umhverfisáhrifum og umhverfisvænum lausnum við framkvæmdir, uppbyggingu og daglegt líf íbúa á komandi árum, svo sem við byggingaframkvæmdir, urðun og endurvinnslu, skólamáltíðir og fleira. Grænn lífstíll á að vera raunhæfur kostur fyrir Kópavogsbúa en til þess þarf þjónusta, verslun, skólar, atvinna og útivistarsvæði að vera í göngu- eða hjólafjarlægð eða aðgengileg með umhverfisvænum almenningssamgöngum. Almenningssamgöngukerfið er allt annað en aðlaðandi fyrir Kópavogsbúa í dag og úr því þarf að bæta sem allra fyrst.

Velferð ungs fólks

Ungt fólk og barnafjölskyldur eiga að geta horft til Kópavogs og séð eftirsóknarverðan stað til að búa á. Þétting byggðar, sjálfbær hverfi og betri almenningssamgöngur eru mikilvæg atriði við að tryggja það. Þar skiptir einnig félagsþjónusta bæjarins, málefni leikskóla og grunnskóla höfuðmáli. Þá verður þjónusta við fatlað fólk að vera forgangsatriði enda lögbundin verkefni sem sveitarfélögum hafa verið falin. Í því telur UJK skipta höfuðmáli að ríkið tryggi fullnægjandi fjármagn til sveitarfélaganna með auknum umsvifum þeirra við þjónustu borgaranna. 

Markmið UJK er að efla rödd ungs fólks í Kópavogi og í víðari skilningi. Stjórnmálaþátttaka ungs fólks hefur sjaldan verið mikilvægari enda áskoranir samtímans einhverjar þær stærstu sem mannkynið hefur þurft að glíma við. UJK er tilbúið í slaginn og hefur hér með skráð sig til leiks. 

Jóna Þórey Pétursdóttir, nýr forseti Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand