Reykjavík og réttindi kvenna

Í AÐDRAGANDA kosninganna reikar hugurinn ósjálfrátt 12 ár aftur í tímann, þegar íhaldið átti borgina. Það er með ólíkindum hversu mikið hefur unnist á ekki lengri tíma, ekki síst í réttindamálum kvenna.

Í AÐDRAGANDA kosninganna reikar hugurinn ósjálfrátt 12 ár aftur í tímann, þegar íhaldið átti borgina. Það er með ólíkindum hversu mikið hefur unnist á ekki lengri tíma, ekki síst í réttindamálum kvenna. Allir grunnskólar eru einsetnir, og öll börn eiga kost á heilsdagsvistun á leikskóla, en þessi atriði eru grundvöllur að atvinnuþátttöku kvenna. Biðlistar á leikskóla heyra einnig sögunni til, en í tíð íhaldsins færðust börn jafnvel aftar á biðlistunum eftir því sem tíminn leið, ef samböndin voru ekki nógu góð.

Reykjavík jafnréttisborg
Kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg hefur snarminnkað en er óbreyttur hjá ríkinu, þar sem sjálfstæðismenn og Bélistinn (Framsókn) hafa ráðið ríkjum í meira en áratug. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri sýndi svo um munar í haust að Samfylkingin berst ekki bara fyrir meiri jöfnuði í orði heldur líka á borði þegar lægstu laun borgarstarfsmanna voru hækkuð, þrátt fyrir hávær mótmæli sjálfstæðismanna. Einnig er athyglisvert að bera saman mál sem varða Reykjavíkurborg annars vegar og ríkið hins vegar hjá jafnréttisnefnd, kærunefnd jafnréttismála og hjá dómstólum en ítrekað hefur verið sett ofan í við ríkið fyrir að brjóta jafnréttislög og stjórnsýslulög við ráðningar og uppsagnir starfsmanna.

Það þarf vilja og snerpu
Hvers vegna hefur Reykjavíkurborg hefur náð svona góðum árangri í réttindamálum kvenna. Svarið er einfalt, Reykjavíkurlistinn, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og fleiri kvenfrelsishetjur í broddi fylkingar, setti þessi mál einfaldlega á dagskrá og hrinti þeim í framkvæmd. Aðrir flokkar virðast þó ekki enn búnir að átta sig. Stefna íhaldsins í dagvistunarmálum er í besta falli óljós og Bélistinn vill leysa málin með því að borga konum 50 þúsund krónur á mánuði fyrir að vera heima (sem var á stefnuskrá íhaldsins í kosningum 1998).

Kvennagildran
Slík heimsendingarþjónusta er auðvitað móðgun við allar konur. Fleiri konur en karlar ljúka nú stúdentsprófi og fleiri konur en karlar stunda nám við háskóla. Konur, sem hafa fjárfest í menntun, hafa áhuga á að nýta sér þá fjárfestingu samhliða því að eignast börn og hafa ekki áhuga á því að vera heimavinnandi og borga 20 þúsund krónur í skatta af þessari kvennagildrugreiðslu.

Kjósið Samfylkinguna
Fjölmörg tækifæri bíða í framtíðinni. Það skiptir öllu máli hverjir taka við stjórn borgarinnar eftir kosningarnar í vor. Reykjavíkurborg verður að halda áfram að vera framsækin og jafnréttissinnuð, bæði hvað varðar mál sem snerta borgarbúa almennt og þau mál sem snúa að rekstri borgarinnar. Það eina rétta er að setja X við S hinn 27. maí.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2006

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand