Réttarríkið þarfnast nýsköpunar

Eitt allra mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinar nú er að fá almenning til að trúa að hann búi í réttarríki. Sú einfalda en mikilvæga hugmynd, réttarríkið, hefur því miður fengið að þola töluverða ágjöf. Hneykslismálin hrannast upp í vitund fólks því þótt spillingarbrim brjóti nú á landinu rótar brimið upp gömlum málum sem höfðu sokkið til botns, úr augsýn.

Á meðan stórglæpamenn ganga lausir með fulla vasa fjár og reyna enn að sækja sér úr troginu fer almenningur að velta fyrir sér hvort lögin og friðurinn hafi ekki fyrir löngu verið sundurslitin. Æ oftar heyrist það í samræðum meðal fólks að ekki þurfi að fylgja lagabókstafnum því hann sé marklaus. Oftast er þetta sagt í hálfkæringi en getur orðið ríkjandi hugsunarháttur ef ekki eru hafðar hraðar hendur. Mörg samfélög búa við slíkt ófremdarástand og þar líður engum vel.
Fúnar undirstöður þurfa endurnýjun
Þegar Mats Josefsson og Eva Joly, ráðgjafar ríkisstjórnarinnar, koma fram með stuttu millibili til þess að gagnrýna seinagang og tregðu í kerfinu getur það ekki annað en dregið úr tiltrú fólks á að kerfið geti reist sjálft sig við. Fólk spyr sig hví svo seint gangi og illa að ákæra, rétta yfir og dæma glæpamennina sem byltu samfélaginu okkar.
Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fóðrað spillingarmein sem nú er inngróið djúpt í limum samfélagsins og situr almenningur nú eftir með illþefjandi afskorninginn. Það er því verkefni núverandi ríkisstjórnar að hreinsa til með róttækum hætti í stofnunum samfélagsins. Gjörningar embættismanna og kjörinna fulltrúa verða að vera hafnir yfir allan vafa. Óþægilegar tengingar milli fólks og grunsamleg hegðun getur ekki liðist meðan tortryggnin í samfélaginu er svona mikil.
Nýsköpun þarf í kerfið
Stjórnmálamenn og stjórnendur í opinbera geiranum verða að láta af þeirri heimssýn sinni að uppsögn úr starfi sé hræðileg refsing. Í ábyrgðarstörfum á ekki að vera neitt óeðlilegt við það að fólki sé skipt út. Ef fólk er fært í sínu fagi mun það finna önnur störf sem bjóða ekki upp á sömu tortryggni og óþægindi fyrir það sjálft og samfélagið allt.
Spilltum ráðuneytisstjórum á ekki að gera það til geðs að fá störf sín aftur óáreittir, þeir geta sótt sín mál á torgum úti líkt og fjölskyldurnar sem er hótað útburði úr húsum sínum. Verði þeim það að góðu. Það eru án efa einhver stórfyrirtæki sem þurfa á ráðgjafa sem þekkir innviði kerfisins eins og lófann á sér. Ríkissaksóknari getur ekki verið faðir eins af arkitektum efnahagslífsins sem hrundi. Þegar ofan á það bætast „mannleg mistök“ sem verða til þess að kæra týnist ætti öllum að vera ljóst að ástandið býður ekki upp á svo mikið umburðarlyndi. Stöður sem hann hentar í munu losna, hann getur sótt um eina af þeim.
Ríkisstjórnin verður að taka það verkefni föstum tökum að hrista upp í kerfinu og styðja við það sem best á að standa og lengst.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand