Það er ekki ofmælt að vandratað er meðalhófið. Eitt af mýmörgum dæmum um það eru viðurlög við afbrotum. Of lítið virðist um að í stað fangavistar eða samhliða henni sé beitt öðrum og uppbyggilegri úrræðum, svo sem sálfræðiaðstoð, vímuefnameðferð eða samfélagsþjónustu. Þegar opinberir embættismenn reyna að réttlæta ströng viðurlög og þunga dóma er yfirleitt til þess vísað að í þeim felist fælingarmáttur. Í liðugu tungutaki stjórnmálanna kallast það iðulega skýr skilaboð. En lítið leggst fyrir fælingarmáttinn ef ekki fækkar afbrotunum. Glöggt dæmi um það virðist vera hnignandi risaveldi í vestri: Bandaríki Norður-Ameríku. Óhófið
Það er ekki ofmælt að vandratað er meðalhófið. Eitt af mýmörgum dæmum um það eru viðurlög við afbrotum. Of lítið virðist um að í stað fangavistar eða samhliða henni sé beitt öðrum og uppbyggilegri úrræðum, svo sem sálfræðiaðstoð, vímuefnameðferð eða samfélagsþjónustu. Þegar opinberir embættismenn reyna að réttlæta ströng viðurlög og þunga dóma er yfirleitt til þess vísað að í þeim felist fælingarmáttur. Í liðugu tungutaki stjórnmálanna kallast það iðulega skýr skilaboð. En lítið leggst fyrir fælingarmáttinn ef ekki fækkar afbrotunum. Glöggt dæmi um það virðist vera hnignandi risaveldi í vestri: Bandaríki Norður-Ameríku.
Í höfuðvígi kapítalismans, vestanhafs, er dauðarefsing enn víða í hávegum höfð. Þar virðist líka viðtekin venja að refsa mönnum harðlega fyrir litlar eða engar sakir.
Pólitískar nornaveiðar?
Vonandi er Robert James Fischer fyrsti og síðasti maður sögunnar til að sæta varðhaldi fyrir að leyfa sér að tefla skák. Í orði kveðnu var hann sakaður um að hafa virt að vettugi viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gegn gömlu Júgóslavíu þegar hann háði einvígi við Boris Spasskí í Belgrad 1992. En það skyldi þó ekki vera að annað og meira hafi búið að baki þeirri ákæru? Jafnvel gremja? Alla vega verður seint sagt að Fischer hafi vandað bandarískum stjórnvöldum kveðjurnar í gegnum tíðina.
Það var einfaldlega mannúðarmál að bjarga Bobby Fischer úr vondri prísund í Japan. Að launum fyrir greiðann verður að vona að hann fari að gæta tungu sinnar á opinberum vettvangi, sér í lagi um gyðinga í Bandaríkjunum.
Óhófið í hnotskurn
Aron Pálmi Ágústsson heitir tuttugu og eins árs Íslendingur sem einnig hefur fengið að kenna á harðýðginni í réttarfari Kanans. Árið 1997 hlaut hann tíu ára dóm fyrir yfirsjón sem honum átti að hafa orðið á ellefu ára að aldri og flestir réttsýnir og skynugir menn hefðu talið til bernskubreka. Fyrstu sjö árin afplánaði hann í rammgerðu fangelsi en situr nú í ströngu stofufangelsi í Texas, með miðunartæki um ökklann, má varla fara út fyrir hússins dyr, ekki vinna og naumast hitta sína nánustu.
Hvar eru íslensk stjórnvöld?
Fjölskylda Arons Pálma hefur látið í ljós þá frómu ósk að hann fái að koma heim til Íslands, þó ekki væri til annars en að afplána tvö síðustu árin á Fróni frekar en í Texas. Um síðustu helgi var beðið fyrir Aroni í kirkjum landsins og nú hyggst hinn frækni RJF-hópur reyna að bæta úr málum piltsins með kurteislegu bónarbréfi til ríkisstjóra Texas, Ricks Perrys, og fangelsisyfirvalda þar í fylki.
Núverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, hefur dregið fæturna, segir það nánast ógjörning að ná mönnum úr höndum Bandaríkjamanna. En ekki tjóar að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Vonandi fer Davíð senn að beita sér, líkt og hann gerði svo drengilega og riddaralega þegar Bobby Fischer var naumlega bjargað undan járngreipum bandarískrar „réttvísi“.