Það var heldur napurlegt að vakna í morgun og sjá forsíðuna á Fréttablaðinu. Þar voru fluttar fréttir af því að Fjölskylduhjálp Íslands sé farin að veita Íslendingum forgang fram yfir útlendinga. Rökstuðningur forstöðukonunnar er á þá leið að starfsfólk stofnunarinnar geti ekki horft upp á eldra fólk, sem hafi stritað alla ævi þurfi að bíða svo lengi út af útlendingum að það gefist upp og hverfi frá. Einnig sé biðraðamenning útlendinga öðruvísi en Íslendinga, þeir mæti t.d. mjög snemma. Hún talar einnig um að margir þessara útlendinga séu einungis með dvalarleyfi og ekki á bótum.
Verndum hag innflytjenda í kreppunni
Þessi stefna Fjölskylduhjálpar er í hæsta máta vafasöm, ef ekki bara beinlínis ólögleg. Að mismuna fólki með þessum hætti einungis á grundvelli þjóðernis er eitthvað sem ég hélt að viðgengist ekki á Íslandi, hvað þá hjá hjálparstofnunum. Margir hafa haft orð á málefnum innflytjenda á síðustu mánuðum vegna þess að sérstaklega þurfi að hlúa að þeim á þessm erfiðu tímum. Innflytjendur eru margir í afar lakri félagslegri stöðu. Á góðæristímanum var ekki sérstaklega vel komið fram við innflytjendur og þeir voru margir ofurseldir fyrirtækinu sem þeir unnu hjá. Nú hafa margir misst vinnuna og standa kannski uppi án allra réttinda og fyrir utan kerfið án þess að hafa vitneskju um það hvaða rétt þeir eiga hér á landi. Við vitum að meirihluti þeirra innflytjenda sem kom hingað til lands til að vinna voru karlmenn en þeim fylgdu í mörgum tilvikum konur og börn. Það er afar brotakennt hvort þessi hópur lærði íslensku eða á einhvern hátt aðlagaðist samfélaginu. Fáir eru eflaust í jafnmikilli hættu að lenda í félagslegri einangrun og erfiðleikum og atvinnulausir innflytjendur á Íslandi. Það að einstaklingar eigi ekki rétt á bótum réttlætir það ekki að hjálparstofnun vísi þeim frá. Maður gæti einmitt ímyndað sér að þeir sem engar bætur fá séu í mestri þörf fyrir aðstoð af því tagi sem Fjölskylduhjálpin veitir.
Eitt gangi yfir alla
Lausnin á þessum vanda skv. forstöðukonunni er að láta alla erlenda skjólstæðinga koma með sérstakan pappír frá Félagsþjónustunni í Reykjavík til þess að sýna fram á að aðstæður þeirra séu nógu slæmar til þess að þeir megi þiggja aðstoð. Enn og aftur bein mismunun. Þurfa Íslendingar ekki að koma með þessa pappíra? Eru þeir traustsins verðir en ekki útlendingar? Reykjavíkurborg styrkir Fjölskylduhjálp Íslands með fjárframlögum og það gera eflaust fleiri aðilar, opinberir sem einkaaðilar. Það er algjörlega óásættanlegt að hjálparstofnun gangi fram með þessum hætti og Reykjavíkurborg ætti að láta til sín taka til þess að koma í veg fyrir að stofnunin komist upp með þetta.